Warning: Creating default object from empty value in /usr/share/php/library/Webber/Controller/Plugin/LangSelector.php on line 18 Bæjarráð - 2959 -
26.06.2013

Bæjarráð - 2959

 
 

 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 2959. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

26. júní 2013 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Elliði Vignisson, Jórunn Einarsdóttir.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

Jórunn Einarsdóttir sat hjá við afgreiðslu í öðru máli á dagskrá, nr 201306114- til umsagnar frumvarp til laga um veiðigjald (gjalddagar og lækkun gjalds)

 

Dagskrá:

 

1.

201306115 - Lundaveiði og gjald vegna nytjaréttar í úteyjum 2013

 

Fulltrúar Bjargveiðifélagsins komu á fundinn.

 

Á fundinn komu fulltrúar bjargveiðimanna og gerðu grein fyrir afstöðu sinni til veiða og gjaldheimtu. Mat þeirra var að heimila ætti einhverja opnun á veiðum og treysta veiðimönnum til að meta ástandið.

Hefðbundið undanþágutímabil til lundaveiða er 1. júlí til 15. ágúst. Mat veiðimanna sem þeir byggja á árhundraða reynslu af nýtingu bjargfugla er að vissulega hafi verið forsendubrestur í viðkomu lundans vegna ætisskorts. Engu að síður telja þeir óhætt að heimila takmarkaða veiði og þá ekki síst til að viðhalda verklagi, menningu og hefðum sem hvíla á árhundraða sögu.

Bæjarráð deilir áhyggjum með bjargveiðimönnum og tekur sérstaklega undir áhyggjur þeirra af því sem snýr að mikilvægi þess viðhalda menningu og hefðum svo fremi sem lundinn njóti ætíð vafans. Með slíkt í huga heimilar bæjaráð fyrir sitt leiti veiði á frá 19. til 31. júlí. Að þeim tíma liðnum verður óskað eftir upplýsingum frá bjarveiðimönnum, staðan metin á ný og þá tekin ákvörðun hvort heimila skuli veiði dagana frá 6. til 13. ágúst.

Gjaldheimta fyrir árið mun verða í samræmi við það sem verið hefur á seinustu árum þar sem gjald veltur fyrst og fremst á þeim dagafjölda sem veiðar verði heimilar.

 

   

2.

201306114 - Til umsagnar frumvarp til laga um veiðigjald (gjalddagar og lækkun gjalds)

 

Fyrir bæjarráði lá umsögn Vestmannaeyjabæjar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld (innheimta veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl.).

Bæjarráð tekur heilshugar undir álitið. Um leið og fagna ber leiðréttingu á þeim hluta gjaldsins sem snýr að bolfiski þá harmar bæjarráð að valið skuli að auka verulega við þann hluta gjaldsins sem snýr að uppsjávarveiðum. Þá er það þungbært að nýkjörin ríkisstjórn skuli ætla að viðhafa sömu óvönduðu vinnubrögð og sú sem nýverið lét af völdum. Ekki einunigs styðst frumvarpið við ófulkomin gögn heldur er málshraðin slíkur að hagsmunaaðilum eins og bæjarráði Vestmannaeyja er nánast ógjörningur að gæta hagsmuna sinna.

Bæjarráð bendir á að sértækar álögur á Vestmannaeyjar og aðrar sjávarbyggðir eru fyrir óhóflegar. Áætlað veiðigjald fyrir Vestmannaeyjar á næsta fiskveiði ári eru rúmir 2300 milljónum ef frumvarp Sigurðar Inga verður samþykkt. Áætluð verðmæti sem flutt verða úr byggðarlaginu í potta eru allt að 1320 milljónum. Samtals gera það um 3620 milljónir bara það árið. Þessi sértæku álög bætast svo við þær 172 milljónir sem greiddar eru í sértækt kolefnisgjald og þær 1900 milljónir sem útgerði í Vestmannaeyjum greiða í tekjuskatt. Samtals gera það 5692 milljónir sem fluttar eru á ári frá Vestmannaeyjum bara vegna þessara gjalda. Fyrir þá fjárhæð væri til dæmis hægt að byggja nýja Vestmannaeyjaferju á 9 mánaða fresti bara fyrir gjöldin á sjávarútvegsfyrirtæki í Vestmannaeyjum. Síðan bætast af sjálfsögðu við allir aðrir skattar svo launaskattur og fl.

Bæjarráð telur enn fremur að mikil vafi leiki á lagalegum grunni frumvarpsins. Sérstaklega þeim hluta þess þar sem tekjugrunnur 2011 er notaður til álagningar árið 2013 sem kemur til greiðslu 2014. Öllum sem þekkja til í sjávarútvegi er ljóst að ástandið nú er ólíkt því sem var 2011. Þessu má að mati bæjarráðs líkja við að ríkisstjórn myndi áætla útgjöld sín nú út frá tekjum ársins 2007 þegar tekjur voru með eindæmum góðar.

Bæjarráð felur því bæjarstjóra að óska tafarlaust eftir lögfræðiáliti á réttmæti frumvarpsins og harmar að ríkisstjórn skuli ekki sjálf hafa gert slíkt.

Jórunn Einarsdóttir sat hjá við afgreiðslu málsins.

 

   

3.

201306119 - Framtíðarfyrirkomulag ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum

 

Erindi frá samtökum ferðaþjónustuaðila í Vestmannaeyjum dags. 16. maí s.l., móttekið 18. júní s.l. þar sem fram kemur að þeir óska eftir viðræðum við Vestmannaeyjabæ um framtíðarfyrirkomulag ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.

 

Fyrir bæjarráði lá erindi frá samtökum ferðaþjónustuaðila í Vestmannaeyjum dags. 16. maí sl. og móttekið 18. júní.

Í erindinu kemur fram að ferðaþjónusta í Vetmannaeyjum hafi tekið stökk fram á við í kjölfar opnunar Landeyjahafnar. Mat Samtaka ferðaþjónustuaðila er að Inframstrúktur ferðajónustu í Vestmannaeyjum og aðkoma Vestmannaeyjabæjar taki hinsvegar enn mið af umhverfi sem blessunarlega er ekki lengur fyrir hendi.

Vilji ferðaþjónustuaðila er að nýta vaxandi samstarf þeirra á milli til að efla enn frekar sterka stöðu Vestmannaeyja sem ferðamannastaðar og óska samtökin því eftir viðræðum við Vestmannaeyjabæ þar að lútandi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni ráðsins að ganga til viðræðna við samtökin og skila í framhaldi minnisblaði til ráðsins sem síðan kann að verða grunnur að sameiginlegri yfirlýsingu.

 

   

4.

200708078 - Samningamál lögð fyrir bæjarráð

 

Afgreiðsla samningamáls er færð í sérstaka samningabók

 

   

5.

201306116 - Umsögn um umsókn Bjarna Ólafs Guðmundssonar vegna tækifærisleyfis fyrir veitingastaðinn Höllin/SegVeyjar ehf. tengslum við goslok

 

Erindi frá Sýslumanninum dags. 24. júní þar sem óskað er eftir umsögn við umsókn Bjarna Ólafs Guðmundssonar vegna tækifærisleyfis fyrir veitingastaðinn Höllin/SegVeyjar ehf. annars vegar í Íþróttahúsinu v/tónleika og hins vegar í Pippkrónni í Vestm. vegna goslokahátíðar.

 

Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um tækifærisleyfið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig. Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

 

   

6.

201306117 - Umsögn við umsókn Brands ehf. vegna tækifærisleyfis við Skipasand við Strandveg í tengslum við goslokahátíð.

 

Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 24. júní s.l.þar sem óskað er eftir umsögn við umsókn Brands ehf. vegna tækifærisleyfis við Skipasand Strandvegi vegna goslokahátíðar í Vestm. helgina 5-7 júlí n.k.

 

Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um tækifærisleyfið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig. Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

 

   

7.

201306112 - Umsögn um umsókn ÍBV Íþróttafélags um leyfi til lítillar flugeldasýningar á Shellmóti ÍBV.

 

Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 21. júní s.l.

 

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti. Samþykki þetta er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfið á kostnað ÍBV ef þörf krefur.

 

   

 

 

 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:10

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159