16.03.2017

Fræðsluráð - 294

 
 Fræðsluráð - 294. fundur

 

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

16. mars 2017 og hófst hann kl. 16.30

 

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Birna Þórsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Gígja Óskarsdóttir 1. varamaður, Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs, Sigurlás Þorleifsson áheyrnarfulltrúi, Stefán Sigurjónsson áheyrnarfulltrúi, Emma Hinrika Sigurgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi, Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi og Hildur Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

Ólafur Snorrason var gestur fundarins í 1. máli. Ólöf A. Elíasdóttir var gestur fundarins í 3. máli.

 

Dagskrá:

 

1.  

201104071 - Leikskólamál.

 

Staða leikskólamála og tillaga um stækkun Kirkjugerðis.

 

Fræðsluráð fjallaði um þjónustu leikskóla.
Fyrir liggur að þjónusta leikskóla Vestmannaeyjabæjar hefur aukist verulega undanfarna mánuði. Vestmannaeyjabær hefur náð góðum árangri í að draga úr biðlistum með verulegri fjölgun leikskólaplássa og er fagleg staða leikskóla í Vestmannaeyjum sterk enda öflugt starfsfólk og hátt hlutfall faglærðra sem veitir þjónustuna.
Staða inntöku leikskólabarna nú er sú að 1. september 2017 verða 38 börn orðin 18 mánaða og verður að öllu óbreyttu hægt að bjóða þeim öllum pláss í leikskólum sveitarfélagsins. Í árslok verður hinsvegar komin upp sú staða að biðlistar myndast verði ekki gripið til einhverra ráða.
Eins og komið hefur fram er markmið Vestmannaeyjabæjar að bjóða öllum börnum 18 mánaða og eldri leikskólapláss. Til að tryggja framgang þeirrar metnaðarfullu stefnu leggur fræðsluráð eftirfarandi til:
*Byggð verði ný leikskóladeild við Kirkjugerði sem getur tekið um 20-25 börn í blandaðri deild.
*Miðað verði áfram við sama fjölda barna á Kirkjugerði og er í dag þar til að ný leikskóladeild verður tilbúin.
*Leitað verði samninga við Hjallastefnuna um að áfram verði miðað við aukinn fjölda á Sóla eða 1.103 dvalargildi, líkt og gert hefur verið upp á síðkastið.
Hugmynd að stækkun Kirkjugerðis felur í sér að byggja við norðurhluta leikskólans, deild sem verður eins og deildir í suðurhlutanum. Með tilkomu slíkrar deildar fjölgar leikskólaplássum enn frekar. Starfsemi Kirkjugerðis rýmkar og auðveldar það inntöku barna yfir árið.
Verkið fellur að mati ráðsins vel að þeirri uppbyggingu sem verið hefur við leikskólann Kirkjugerði en þar bera hæst miklar endurbætur á lóð og leiksvæði skólans.
Kostnaðartölur vegnar framkvæmdar við viðbyggingu við Kirkjugerði liggja ekki fyrir að svo stöddu enda á enn eftir að hanna og teikna bygginguna. Ekki er ólíklegt að kostnaður geti legið nærri 40 til 50 milljónum. Kostnaðarauki í rekstri vegna þjónustu við nýju deildina ræðst svo af endanlegum fjölda barna en gæti orðið í kringum 15 - 20 milljónir á ári miðað við reksturinn í ár.
Ráðið felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að vísa þeim hluta málsins sem snýr að verklegum framkvæmdum til umfjöllunar í framkvæmda- og hafnarráði og til bæjarráðs.

 

   

2.  

201105068 - Sameiginlegt skóladagatal

 

Drög að sameiginlegu skóladagatali leikskólanna, grunnskólans og frístundavers lögð fram til kynningar.

 

   

3.  

200802101 - Lífshlaupið - landskeppni í hreyfingu

 

Lífshlaupið 2017.

 

Ólöf A. Elíasdóttir kom og kynnti þátttöku GRV í Lifshlaupinu. Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa en því lauk nú á dögunum. Skrá má alla hreyfingu niður ef hún er minnst 30 mín. samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mín. samtals á dag hjá börnum og unglingum. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10-15 mín. í senn. Grunnskóli Vestmannaeyja bar sigur úr býtum í hópnum grunnskólar með 500 nemendur og fleiri. Síðustu ár hefur GRV sigrað eða setið í efstu sætum. Starfsmenn GRV hafa einnig nýtt tímann til heilsueflingar og náðu einnig góðum árangri í vinnustaðakeppni. Fræðsluráð óskar nemendum og starfsfólki GRV innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.

 

   

4.  

201312020 - Pisa niðurstöður

 

Niðurstöður PISA 2015.

 

Fræðsluskrifstofu hefur borist eftirfarandi svar frá Menntamálastofnun í kjölfar umræðu ráðsins um rangan fjölda nemenda við úrvinnslu PISA niðurstaðna.
,, Fyrir Grunnskóla Vestmannaeyja voru 72 nemendur á nemendalista í PISA 2015. Eftir að tekið var tillit til foreldraneitana og sérþarfa í námi voru 62 nemendur á lista yfir þátttakendur. Þar af mættu 55 í prófið. Einhver vandamál hafa verið með skrárnar sem vistuðu prófniðurstöður fyrir 19 þátttakendur og því hafa aðeins 36 gild svör úr skólanum ratað í alþjóðlega gagnagrunninn. Það eru tæknilegar ástæður sem tengjast á engan hátt fyrirlögn Námsmatsstofnunar á prófinu eða framkvæmdinni hérlendis.
Það skal áréttað að PISA er ekki rannsókn sem ætlað er að meta skóla eða sveitarfélög. Rannsókninni er stýrt af OECD og er ætlað að meta menntakerfi í heild sinni. Sú þjónusta sem Námsmatsstofnun veitti skólum í gegnum árin var ekki hluti af verkefninu sjálfu heldur aukaþjónusta sem ætlað var að dýpka skilning á stöðu lesskilnings og læsis í landinu.“

Fræðsluráð telur svar Menntamálastofnunar vekja upp fleiri spurningar en svör.

1)
Af hverju lét Námsmatsstofnun fræðsluskrifstofu Vestmannaeyja ekki vita af því að fyrra bragði að 19 prófniðurstöður hefðu ,,týnst í kerfinu" og þar með mætti taka heildarniðurstöðum PISA fyrir sveitarfélagið með fyrirvara og í raun væri niðurstaðan með öllu ómarktæk? Ef ekki væri fyrir vökul augu skólastjóra og starfsmanna fræðsluskrifstofu hefðu ómarktækar niðurstöður getað haft áhrif og e.t.v. valdið rangtúlkun fræðsluyfirvalda á gæðum skólastarfsins. Slík framkvæmd og úrvinnsla PISA rýra verulega gildi niðurstaðna sem nýtast þá illa og valda frekar tjóni m.a. með ósanngjarnri umræðu í samanburði sveitarfélaga og landsvæða.

2) Hver, ef ekki Námsmatsstofnun, líkt og fram kemur í svari þeirra, ber ábyrgð á þeim tæknilegu mistökum að 34,5% af PISA niðurstöðum skólabarna í Vestmannaeyjum, glatast“ og niðurstöðurnar því með öllu ómarktækar fyrir sveitarfélagið?

3) Ef niðurstöður PISA könnunarinnar eru ekki ætlaðar til samanburðar á einstaka sveitarfélögum eða grunnskólum heldur til að meta stöðu menntakerfis landsins í heild sinni af hverju er Námsmatsstofnun þá yfir höfuð að gefa upp niðurstöður einstakra sveitarfélaga vitandi að niðurstöðurnar hafa verið, eru og munu verða nýttar til samanburðar á gæðum skólastarfs í fjölmiðlum og í kennslusamfélaginu.

4) Til hvaða aðgerða mun Námsmatstofnun grípa til að koma í veg fyrir að þessi atvik endurtaki sig við fyrirlagningu prófsins?

5) Að lokum má taka fram að miklir annmarkar voru við fyrirlögn prófsins þar sem fresta þurfti próftöku í tvígang á síðustu stundu.

Öll endurgjöf á skólastarf er mikilvæg og nauðsynleg til framfara, sem og mat á stöðu menntunar í landinu. Fræðsluráð dregur ekki í efa að MMS leggur sig mikið fram með hagsmuni menntamála að leiðarljósi. Hins vegar telur fræðsluráð að framkvæmd og úrvinnsla PISA niðurstaðna gera niðurstöður sveitarfélagsins ómarktækar og nýtast skólastarfinu sjálfu mjög takmarkað. Fræðsluráð felur fræðsluskrifstofu að leita svara við þeim spurningum sem hér eru lagðar fram.

 

   

5.  

201703086 - Litbrigði regnbogans. Mikilvægi fjölbreytileika í samfélaginu

 

Greint frá heimsókn fræðslufulltrúa Samtakanna ´78 og opnun farandsýningar Þjóðminjasafns Íslands.

 

Sólveig Rós fræðslufulltrúi Samtakanna ´78 heimsótti unglingastig GRV síðasta mánudag og flutti fræðslufyrirlestur um fjölbreytileika samfélagsins. Sólveig Rós hrósaði nemendum GRV fyrir áhugaverðar spurningar og þá athygli sem þau sýndu fræðslunni. Í hádeginu sama dag flutti hún fyrirlesturinn Litbrigði Regnbogans: mikilvægi fjölbreytileika í samfélaginu fyrir fjölda fólks í Sagnheimum og að lokum opnaði hún farandsýningu Þjóðminjasafns Íslands: Ég fæ ekki af mér að flýja af hólmi. Fræðsluráð þakkar Sólveigu Rós heimsóknina og hvetur bæjarbúa til að kynna sér áhugaverða sýningu á frásögnum 13 einstaklinga sem hafa komið við sögu hinsegin fólks með einum eða öðrum hætti.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.47

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159