09.11.2017

Bæjarráð - 3061

 
  

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3061. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

9. nóvember 2017 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.  

201709030 - Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2018.

 

Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun 2017 til fyrri umræðu í bæjarstjórn. síðar í dag.

 

   

2.  

201711018 - Þriggja ára fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2019-2021

 

Bæjarráð vísar þriggja ára áætlun 2018-2020 til fyrri umræðu í bæjarstjórn síðar í dag.

 

   

3.  

201708085 - Yfirtaka á rekstri Herjólfs

 

a.Drög að verksamningi milli Háskólans á Akureyri og Vestmannaeyjabæjar um þjónustugreiningu fyrir Vestmannaeyjabæ og samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið er varðar notkun á Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi meðal mismunandi hagsmunaaðila í samfélaginu í Vestmannaeyjum.

b.Einnig liggur fyrir erindi frá Elís Jónssyni dags. 30.október s.l. þar sem fram kemur m.a. að óskað er eftir afstöðu bæjarstjórnar til þess að Vestmannaeyjabær hafi frumkvæði að sjá um að framkvæma íbúakosningu um rekstur á nýrri Herjólfsferju.

 

a. Bæjarráð hefur yfirfarið drög að verksamningi við Háskólann á Akureyri og lýsir ánægju sinni með hann. Séstaklega fagnar bæjarráð þeim áherslubreytingum sem nú eru vonandi að verða og felst í því að líta eigi á Herjólf sem þjóðveg og miða þjónustu hans við það. Þannig taki til að mynda ákvörðun um fjölda ferða á hverjum tíma mið af raunþörfum samfélagsins en ekki eingöngu hámarksnýtingu á hverri ferð.

Þá fagnar bæjarráð því einnig að nú skuli sérstök áhersla verða lögð á að þjónusta Herjólfs taki mið af því að bæta samkeppnisstöðu Vestmannaeyja.

Bæjarráð hefur í áratugi unnið að því að nálgast ofangreind markmið og mörg önnur sem fjallað er um í viljayfirlýsingu Vestmannaeyjabæjar og Samgönguráðuneytisins. Athygli vekur að árangur þessarar vinnu skuli fyrst verða ljós þegar til þess er komið að Vestmannaeyjabær taki að sér rekstur Herjólfs. Meðal annars með það í huga felur bæjarráð bæjarstjóra að vinna áfram að málinu í samstarfi við þá aðila sem til þess voru valdir af ráðinu.

b. Bæjarráð þakkar erindið og tekur undir margt af því sem þar kemur fram. Bent er á að bæjarstjórn hefur á öllum tímum nálgast samgöngumál af einhug og látið sér annt um að sátt sé um þau. Til marks um það þá hafa langflestir liðir sem þeim tengjast verið samþykktir samhljóða amk. frá árinu 2006 óháð fólki og flokkum. Tilgangur með störfum í bæjarstjórn er enda að sameina fólk um mikilvæg mál frekar en að sundra.
Til að fyrirbyggja misskilning vill bæjarráð benda bréfritara á að samkvæmt viljayfirlýsingu sem kynnt hefur verið er eingöngu unnið út frá því að Vestmannaeyjabær reki Herjólf í 2,5 ár og að skýrt sé að framlög ríkisins standi undir kostnaði við reksturinn. Áhættan er því afar takmörkuð ef samningur verður yfirhöfuð gerður.
Þá bendir bæjarráð á að enn er allt tal um atkvæðagreiðslu um samning ótímabær enda liggur ekki fyrir svo mikið sem drög að slíkum samningi. Enn hefur ekki svo mikið sem verið haldinn fundur um málið með Vegagerð og/eða Samgönguráðuneyti eftir að viljayfirlýsing var undirrituð. Það liggur því í hlutarins eðli að ekki er hægt að boða til kosninga um mál sem enn er algerlega óvíst að komi nokkuri sinni til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Í erindi bréfritara er óskað eftir afstöðu til þess að Vestmannaeyjabær hafi frumkvæði að því að fram fari íbúakosning um málið og vill bæjarrráð taka skýrt fram að ráðið er ætíð opið fyrir samstarfi, samvinnu og upplýstri umræðu um allt sem tengist hagsmunum Vestmannaeyjabæjar. Með það í huga samþykkir bæjarráð að haldinn verði almennur og opinn fundur um stöðu málsins þar sem stýrihópnum sem farið hefur fyrir málinu ásamt þeim fagmönnum sem til verksins hafa valist, kynna stöðu þess, framvindu og væntingar. Þar verði sérstök áhersla lögð á að hlutlausir aðilar upplýsi um mögulega áhættu og ávinning ef til þess kemur að Vestmannaeyjabær taki að sér rekstur Herjólfs.

 

   

4.  

201610047 - Endurnýjun á samstarfssamningur við ÍBV-íþróttafélag

 

Drög að nýjum samstarfssamningi við ÍBV-íþróttafélag lagður fram til samþykktar með fyrirvara um samþykki stjórnar ÍBV íþróttafélags.

 

Bæjarráð fagnar því að komin sé niðurstaða í heildarsamning við ÍBV íþróttafélag og samþykkir hann fyrir sitt leyti. Samningurinn verður lagður fram til kynningar í fjölskyldu- og tómstundaráði.

 

   

5.  

201711022 - Ágóðahlutagreiðsla 2017

 

Erindi frá EBÍ (Brunabót) þar sem fram kemur að á síðasta aðalfundi EBÍ hafi verið samþykkt að áfram skuli hluti hagnaðar af starfsemi félagsins árlega greiddur til aðildarsveitarfélaganna í formi ágóðahlutar.
Hlutdeild Vestmannaeyjabæjar í Sameignarsjóði EBÍ er 4,013% og greiðsla ársins verður þá hlutfall af þeim 50 milljónum króna sem greiða á til aðildarsveitarfélaganna eða kr. 2.006.500

 

Bæjarráð þakkar kynninguna.

 

   

6.  

201710081 - Ályktun vegna annars starfs skólastjóra GRV

 

Fyrir liggur ályktun frá Kennarafélagi Vestmannaeyja dags. 24.október s.l. vegna annars starfs skólastjóra GRV.
Einnig liggur fyrir minnisblað frá Jóni Péturssyni framkvæmdastjóra fjölskyldu-og fræðslusviðs dags. 7. nóvember.

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og tekur undir þá afstöðu sem fram kemur í minnisblaði Jóns Péturssonar framkvæmdastjóra. Bréfið verður lagt fram til kynningar í fræðsluráði.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.35

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159