21.02.2018

Fræðsluráð - 303

 
 

Fræðsluráð - 303. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

21. febrúar 2018 og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Birna Þórsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Drífa Gunnarsdóttir varamaður, Erlingur Birgir Richardsson áheyrnarfulltrúi, Thelma Sigurðardóttir áheyrnarfulltrúi, Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi, Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi og Kristín Hartmannsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Drífa Gunnarsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Einnig mættar:

Lilja Björg Arngrímsdóttir, áheyrnarfulltrúi

 

Dagskrá:

 

1.  

201801005 - Grunnskóli Vestmannaeyja

 

Framhald af 1. máli 302 fundar fræðsluráðs frá 15. janúar 2018.

 

Á fundinum var lögð fram niðurstaða samráðshóps sem skipaður var af fræðsluráði þann 15. janúar sl. En samráðshópur fræðsluskrifstofu, Kennarafélags Vestmannaeyja og skólaráð hefur skoðað kosti og galla þess að hafa einn skólastjóra eða tvo yfir GRV. Ljóst þykir að vegna ákvæða í lögum um grunnskóla er ekki hægt að skipa tvo skólastjóra yfir GRV án þessa að skipta skólanum í tvær skólaeiningar. Það er samróma álit samráðshópsins að vera áfram með einn skólastjóra. Atriði á borð við mikilvægi þess að halda í GRV sem einn sameinaðan skóla hefur þar mikið vægi og einnig að ekki er einhugur varðandi það að breyta og hafa tvo skólastjóra. Starfshópurinn leggur áherslu á að óbreytt skipurit stjórnunar kallar áfram á aðgerðir til að tryggja og efla stjórnunarhlutverk skólastjóra og almennt stjórnun í GRV.
Fulltrúar KV skila séráliti þar sem þeir vilja árétta áherslur sem Kennarafélag Vestmannaeyja setja fram um að skoðað verði aðrar leiðir eins og fleiri deildastjóra og að áfram verði unnið að því að styrkja stoðkerfi skólans.
Fræðsluráð þakkar samráðshópnum fyrir þær ábendingar og álit sem komið hafa fram. Í ljósi þessara niðurstaðna og umræðu sem ráðið hefur átt um málið á 301. og 302. fundi þess samþykkir ráðið að GRV verði áfram sem einn skóli með einum skólastjóra. Ráðið felur framkvæmdastjóra sviðsins, fræðslufulltrúa og skólastjóra GRV að fara vel yfir þær ábendingar sem komið hafa fram og vinni áfram að aðgerðum sem tryggja og efla stjórnunarhlutverk skólastjóra og stjórnun almennt í GRV.
Fræðsluráð þakkar samstarfshópnum fyrir þeirra góðu vinnu.

 

   

2.  

201801096 - Leikskólagjöld

 

Umræða um leikskólagjöldin og vísitölutengingu þeirra.

 

Leikskólagjöld í Vestmannaeyjum eru tengd vísitölu neysluverðs, taka mið af þeim og endurreiknast á þriggja mánaða fresti líkt og aðrar gjaldskrár Vestmannaeyjabæjar skv. ákvörðun bæjarráðs. Stefna Vestmannaeyjabæjar er að þjónusta og gjaldskrár allrar þjónustu séu ætíð eins hagstæð notendum og mögulegt er og samanburðarhæf við önnur sambærileg sveitarfélög. Til að tryggja að tenging við vísitölu verði ekki til að hækka gjaldskrár umfram það sem almennt gerist hefur ráðið reglulega tekið saman gögn um gjaldskrár annarra sveitarfélaga og leiðrétt sínar gjaldskrár í samræmi við það. Í því samhengi vísast til þess að fyrir skömmu tók fræðsluráð til þeirra ráða að lækka leikskólagjöld um rúm 19% og við síðasta samanburð ASÍ kom í ljós að leikskólagjöld í Vestmannaeyjum væru í meðaltali annarra sveitarfélaga, enda er það vilji fræðsluráðs og Vestmannaeyjabæjar að veita samkeppnishæfa þjónustu. Fræðsluráð felur skólaskrifstofu að framkvæma árlega úttekt í upphafi skólaárs á leikskólagjöldum samanburðarsveitarfélaga Vestmannaeyjabæjar.

Bókun Eyjalista:
Vegna góðrar stöðu bæjarsjóðs mælist Eyjalistinn til að vísitöluhækkun á leikskólagjöldum verði ekki að veruleika 2018. Nýverið var farið í lækkun á leikskólagjöldum til að koma til móts við foreldra ungra barna og við hjá Eyjalistanum viljum að foreldrar fái að njóta góðs af því áfram.

Ráðið felur framkvæmdastjóra að vísa tillögu fullrúa E-lista til bæjarráðs enda mál sem varðar fjárhagsáætlun þessa árs.

 

   

3.  

201304035 - Skóladagatal 2018-2019

 

Drög að skóladagatali fyrir veturinn 2018-2019.

 

Drög að sameiginlegu skóladagatali leikskóla, GRV og Frístundar lögð fram til kynningar.

 

   

4.  

201212028 - Starfsáætlanir leikskóla

 

Kynning á starfsáætlun Víkurinnar.

 

Guðrún S. Þorsteinsdóttir, aðstoðarskólastjóri á Víkinni, kynnti starfsáætlun leikskóladeildarinnar fyrir skólaárið 2017-2018.
Ráðið þakkar kynninguna.

 

   

5.  

201105068 - Breyting á skóladagatali Víkurinnar

 

Erindi lagt fram frá Guðrúnu S. Þorsteindóttur, aðstoðarleikskólastjóla Víkurinnar, þess efnis að áætlaður starfsdagur 28. mars 2018 verði færður til 25. maí 2018.

 

Ráðið samþykkir breytinguna en starfsmenn Víkurinnar munu nýta starfsdaginn til að kynna sér starfið á öðrum 5 ára deildum í grunnskólum. Ráðið óskar eftir að breytingin verði kynnt vel fyrir foreldrum barna á 5 ára deild.

 

   

6.  

201802044 - Formlegt samstarf Vestmannaeyjabæjar við BUGL og HSU

 

Fræðslufulltrúi kynnti formlegt samstarf Vestmannaeyjabæjar við BUGL og HSU.

 

Vestmannaeyjabær, BUGL og HSU stefna að því að undirrita samstarfssamning sem tengist greiningum, meðferð, stuðningi og eftirfylgni barna með hegðunar- og geðraskanir ásamt því að vinna saman að málefnum einstaklinga og fjölskyldna sem fá þjónustu hjá umræddum aðilum. Í þessu skyni er komið á fót samstarfsverkefni milli HSU/heilsugæslu Vestmannaeyja, fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyja og Barna- og unglingageðdeildar Landsspítalans um málefni einstaklinga, barna og fjölskyldna í Vestmannaeyjum. Ráðið fagnar þessu framtaki og lýsir yfir ánægju með það þverfaglega samstarfs sem verkefnið leggur upp með.

 

   
                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:00

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159