27.04.2018

Bæjarstjórn - 1533

 
 

Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1533. fundur

Bæjarstjórnar Vestmannaeyja

haldinn í Einarsstofu safnahúsi,

27. apríl 2018 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir forseti, Elliði Vignisson 1. varaforseti, Páll Marvin Jónsson aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður, Birna Vídó Þórsdóttir aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður og Guðjón Örn Sigtryggsson 1. varamaður.

 

 

Fundargerð ritaði:  Elliði Vignisson, bæjarstjóri

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Yfirtaka á rekstri Herjólfs - 201804127

   
 

Niðurstaða

 

Við umræðu um málið tóku til máls Elliði Vignisson, Stefán Óskar Jónasson, Páll Marvin Jónsson, Guðjón Örn Sigtryggsson, Trausti Hjaltason, Birna Þórsdóttir og Hildur Sólveig Sigurðardóttir.

Fyrir bæjarstjórn lá samningur milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs sem lagður hefur verið fram af hálfu Ríkisins. Markmiðið með samningnum er að stuðla að góðum samgöngum við Vestmannaeyjar með því að tryggja öruggar ferjusiglingar milli lands og Eyja og felur hann það í sér að Vestmannaeyjabær taki við rekstri Herjólfs eftir að nýtt skip hefur þjónustu eigi síðar en 8. okt. 2018.

Samningurinn sem er til tveggja ára felur í sér:
* Rekstur Herjólfs verður í sjálfstæðu félagi í eigu Vestmannaeyjabæjar sem þýðir að hann verður algerlega og með öllu óháður öðrum rekstri sveitarfélagsins.
* Ferðum mun á samningstímanum fjölga um að lágmarki hátt í 600 á ári. Gert er ráð fyrir áætlunarferðum frá 6.30 á daginn fram til miðnættis.
* Skipið sigli alla daga ársins, þar með talið á stórhátíðum.
* Afsláttur fyrir heimamenn fer úr 40% í 50% og verður veittur án þess að slíkt reyni á inneignakerfi líkt og nú er. Gjaldskrá verður að öðru leyti nánast óbreytt frá því sem nú er. Þar með talið að sama gjaldskrá gildi í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn.
* Störfum um borð mun fjölga nokkuð frá því sem nú er enda gert ráð fyrir að skipið verði mun meira í notkun. Gert er ráð fyrir þremur áhöfnum og tveimur vöktum hvern dag.
* Herjólfur verður til staðar sem varaskip og nýttur ef þörf verður á.
* Bókunarkerfi verður tekið til algerrar endurskoðunar. Þar með talið er gert ráð fyrir að notendur geti bókað ferðir, greitt þær, breytt bókunum og sinnt öllum öðrum þáttum í gegnum símaforrit og/eða tölvu.
* Upplýsingagjöf til notenda verður stóraukin og höfuðáhersla lögð á þjónustu við heimamenn og gesti þeirra.
* Verði hagnaður af rekstri hins opinbera hlutafélags verður honum varið til að auka þjónustu og/eða lækka gjaldskrá.

Fyrir bæjarstjórn lá einnig minnisblað frá stýrihópi sem farið hefur fyrir viðræðum við Ríkið um fyrirliggjandi samning. Þar er reifuð lögfræðileg greining auk ráðgjafar. Í ráðgjöfinni leggur stýrihópurinn einhuga til að samningurinn verði samþykktur af bæjarstjórn. Þá er athygli bæjarstjórnar vakin á því að öll töf og/eða fyrirvarar munu verða séðir sem höfnun á samningnum og verða til þess að reksturinn verði boðinn út.

Bæjarstjórn fagnar þessu stóra skrefi í samgöngumálum Vestmannaeyinga, sem vart verður saman jafnað. Með því færist rekstur Herjólfs til muna nær því áratuga markmiði Eyjamanna að hann sé séður sem þjóðvegur og þjónusta og gjaldskrá taki fyrst og fremst mið af því.

Bæjarstjórn þakkar stýrihópi um yfirtökuna vel unnin störf. Þá færir bæjarstórn núverandi ráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni og fyrrverandi ráðherra Jóni Gunnarssyni hjartans þakkir fyrir þann velvilja og eindregna stuðning sem störf þeirra voru við gerð þessa samnings.

Afgreiðsla:
Bæjarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leiti og felur bæjarstjóra að undirrita samniginn í samræmi við sveitarstjórnarlög.

Elliði Vignsson (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Páll Marvin Jónsson (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Birna Þórsdóttir (sign)
Stefán Óskar Jónasson (sign)
Guðjón Örn Sigtryggsson (sign)

Afgreiðslan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum

Svohljóðandi bókun kom frá E-lista
E-listinn samþykkir samningin þar sem kveðið er á um að Vestmannaeyjabær taki að sér rekstur Herjólfs en hefði talið æskilegra að
boðað hefði verið til borgarafundar þar sem samningurinn yrði kynntur bæjarbúum og í kjölfarið hefði samningurinn verið borinn undir atkvæði bæjarbúa. Niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu hefðu bæjarfulltrúar getað haft til hliðsjónar þegar samningurinn væri borinn undir atkvæði í bæjarstjórn.

Stefán Jónasson (sign)
Guðjón Örn Sigtryggsson (sign)

Svohljóðandi bókun kom frá D-lista
Meirihluti Sjálfstæðismanna fagnar því að E-listi hafi dregið til baka tillögu sem hefði orðið til að samningnum væri hafnað, hefði hún verið samþykkt og tekur undir að sannarlega hefði verið betra að hafa rýmri tíma til úrvinnslu þessa mikilvæga máls.

Í minnisblaði stýrhóps segir að öll töf og/eða fyrirvarar verði séð sem höfnun á samningnum og vera til þess að reksturinn verði boðin út. Ennfremur segir. Af þessum sökum hefur ráðgjafahópurinn fengið skýr skilaboð um að afstaða bæjarstjórnar verði að liggja fyrir í síðasta lagi í þessari viku ef Ríkið á að geta gengið til samninga.

Þar með má öllum ljóst vera að tillaga sú sem E-listinn flutti fyrr á fundinum hefði jafngilt höfnun á samningi þeim sem lagður hefur verið fram og fórnað þeirri gríðalegu þjónustuaukningu sem samningurinn felur í sér fyrir bæjarbúa og náðst hefur með þori og þreki bæjarbúa sjálfra.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu ekki stökkva frá þessu gríðalega mikla hagsmunamáli.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins taka undir þá kosti íbúafunda og kosninga sem ræddir hafa verið á fundinum og minna á að ákvörðun um yfirtöku á rekstri Herjólfs var tekin á hátt í 500 manna íbúafundi og samþykkt þar einróma.

Elliði Vignisson (sign)
Páll Marvin Jónsson (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Birna Þórsdóttir (sign)

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159