14.09.2018

Bæjarráð - 3083

 
  

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3083. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

14. september 2018 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Trausti Hjaltason aðalmaður.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Bæjarráð átti símafund með Lúðvík Bergvinssyni, stjórnarformanni Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. um framgang verkefnisins. Að sögn stjórnarformannsins er staðan almennt góð. Stefnt er að ráðningu framkvæmdastjóra í næstu viku.
Fyrsti fundur Samráðshóps vegna móttöku og afhendingu nýrrar Vestmannaeyjaferju var haldinn þann 7. september sl. Næsti fundur verður haldinn fljótlega.

     

2.

Staða skólastjóra tónlistarskóla Vestmannaeyja - 201807118

 

Lagt var fram minnisblað frá Jóní Péturssyni, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs, um ráðningarferil skólastjóra Tónlistarskóla Vestmannaeyja. Alls sóttu fjórir um stöðuna og eftir mat Capacent, sem annaðist ráðgjöf um ráðninguna, voru þrír umsækjendur boðaðir í viðtöl. Var það lokamat Capacent og framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar að Jarl Sigurgeirsson væri hæfastur af umsækjendum.Í umsögn Capacent segir:
"Jarl Sigurgeirsson er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann hóf tónlistarnám á unga aldri og spilar á trompet auk gítars og bassa. Jarl hefur gegnt starfi deildarstjóra, aðstoðarskólastjóra og skólastjóra (í afleysingum) við Tónlistarskólann frá 2006. Hann hefur jafnframt verið stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja frá 2007. Þá er hann í hljómsveitinni Brimnes, syngur með söngsveitinni Stuðlum,Karlakór Vestmannaeyja og Kirkjukór Vestmannaeyja."

   
 

Niðurstaða

 

Jarl Sigurgeirsson verður ráðinn í stöðu skólastjóra Tónlistarskóla Vestmannaeyja og ráðning hans tekur formlega gildi frá og með 1. október 2018.

     

3.

Endurgjald til fyrrum stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna sparisjóðsins og Landsbankans. - 201504034

 

Þann 29. mars 2015 var Sparisjóður Vestmannaeyja ses. (SPV) yfirtekinn af Landsbankanum hf. Upp höfðu komið eiginfjárerfiðleikar hjá SPV og veitti Fjármálaeftirlitið stjórnendum SPV einungis fimm daga frest til að setja fram tillögur um ráðstafanir vegna eiginfjárvanda.
Endurgjald stofnfjáreigenda SPV við yfirtökuna byggðist á samkomulagi Landsbankans og stjórnar SPV, sem stofnfjáreigendur greiddu aldrei atkvæði um. Samkvæmt samkomulaginu fengu stofnfjáreigendur hluti í Landsbankanum sem endurgjald og var ákveðið að verðmæti alls stofnfjár væri 332 milljónir króna, en forsendur þessarar verðákvörðunar liggja ekki fyrir.
Fyrirvari var um mögulegar breytingar á mati eigna og skuldbindinga SPV í samræmi við mat KPMG ehf., þó með ákveðnum takmörkunum. Stofnfjáreigendur SPV höfðu enga aðkomu að vali á KPMG ehf. sem matsaðila né að ferli eða framkvæmd svokallaðs mats. Þá var öll upplýsingagjöf til þeirra um framkvæmd og forsendur matsins takmörkuð og ógagnsæ og verulega skorti á alla sundurliðun. Jafnframt var KPMG ehf. til áramóta 2014-2015 endurskoðandi Landsbankans.
Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin, sem áttu um 10% og 5% hlut í SPV höfðu efasemdir um áðurnefnt samkomulag og niðurstöður mats KPMG ehf. á verðmæti eigna og skuldbindinga sparisjóðsins.Töldu þeir að verðmæti stofnfjárhluta stofnfjáreigenda SPV hefði verið vanmetið.
Vegna þessara efasemda var í sumarbyrjun 2015 lagt til að Landsbankinn leitaðist við að eyða vafa og tortryggni um verðmæti stofnfjárhluta og sanngjarnt endurgjald til stofnfjáreigenda. Var lagt til að aðilar kæmu sér saman um óháðan aðila til að framkvæma mat, en þessu boði um samvinnu og sættir var hafnað af Landsbankanum.
Í ljósi neitunar Landsbankans var óskað eftir að dómstólar kveddu til matsmenn til að framkvæma mat. Landsbankinn mótmælti matsbeiðninni og reyndi að koma í veg fyrir að hún næði fram að ganga. Dómstólar höfnuðu öllum sjónarmiðum bankans og voru dómkvaddir tveir matsmenn til að meta verðmæti stofnfjár, þeir Árni Tómasson, endurskoðandi, og dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.
Niðurstaða matsmanna liggur nú fyrir um að verðmæti stofnfjár í SPV hafi verið 483 milljónir króna eða 45% hærra en Landsbankinn greiddi stofnfjáreigendum.
Var farið fram á að Landsbankinn greiddi stofnfjáreigendum réttmætt endurgjald byggt á umræddu mati, en því hefur Landsbankinn nú hafnað.

   
 

Niðurstaða

 

Vestmannaeyjabær hefur, ásamt Vinnslustöðinni hf., ákveðið að höfða dómsmál gegn Landsbankanum hf. til réttmætrar greiðslu endurgjalds fyrir stofnfjárhluti í Sparisjóði Vestmannaeyja. Leitað verður til Jónasar Fr. Jónsssonar lögmanns, um að annast málsóknina f.h. Vestmannaeeyjabæjar.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.30

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159