17.10.2018

Bæjarráð - 3085

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3085. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

17. október 2018 og hófst hann kl. 16.30

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Trausti Hjaltason aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Niðurfelling fasteignaskatts - 201804106

 

Eins og fram hefur komið í bréfaskiptum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar, nú síðast í áliti ráðuneytisins sem barst Vestmannaeyjabæ þann 15. október sl., hafa bæjaryfirvöld, að mati ráðuneytisins allt frá árinu 2012, tekið tvær samhliða en ósamrýmanlegar ákvarðanir um afslátt og niðurfellingu fasteignaskatts. Annars vegar samþykkt reglur um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða sem samræmst hafa 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Hins vegar almenna niðurfellingu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í eigu íbúa sveitarfélagsins 70 ára og eldri sem ekki rúmast innan lagaheimildanna. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir að ólögmæti þess hafi mátt vera bæjaryfirvöldum ljóst frá árinu 2012. Ráðuneytið hefur því beint til bæjarstjórnar að hún tryggi að framkvæmd á þessu sviði verði framvegis í fullu samræmi við ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga og annarra laga og óskar eftir því að upplýst verði eigi síðar en 1. desember nk., um hvernig bæjarstjórn hyggist haga þessum málum á árinu 2019. Í fyrri bréfaskiptum við ráðuneytið hafði Vestmannaeyjabær upplýst um að ákvarðanir um afslátt af fasteignaskatti til handa ellilífeyrisþegum hafi verið teknar af bæjarstjórnum á hverjum tíma og rakið hvenær umræddar ákvarðanir voru teknar. Auk þess hafði ráðuneytið verið upplýst um að það sé fullur vilji bæjaryfirvalda að létta undir með ellilífeyrisþegum við að búa sem lengst í eigin húsnæði, en reglum varðandi afslátt af fasteignagjöldum verði breytt og þær verði innan heimilda laga um tekjustofna sveitarfélaga.

   
 

Niðurstaða

 

Framkvæmdastjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs verði falið að móta tillögur um breytingu á umræddum reglum þannig að þær komi til móts við örorku- og ellilífeyrisþega eins og unnt er (m.a. í gegnum viðmiðunartekjur) innan þeirra heimilda sem kveðið er á um í lögum um tekjustofna sveitarfélaga (m.a. að slíkur afsláttur nái til 67 ára og eldri, en ekki eingöngu 70 ára og eldri).
Samþykkkt með tveimur atkvæðum E- og H-lista.

Bókun
Fulltrúi D-lista lagði fram eftirfarandir bókun: Svarbréf núverandi bæjarstjórnar var aldrei borið formlega undir bæjarfulltrúa, sem verður að teljast í besta falli sérstakt. Í þessu svarbréfi sem birtist að hluta til í fjölmiðlum virðist vera um algjöra stefnubreytingu að ræða. Eðlilegt hefði verið að ræða þessa stefnubreytingu formlega í bæjarráði og bæjarstjórn.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa frá upphafi lagt áherslu á að verja rétt eldri borgara hvað þetta mál varðar. Með ákvörðun um niðurfellingu á beinum sköttum á fasteignir þeirra er í senn verið að draga úr þörfinni á dýrari úrræðum svo sem hjúkrunarrými, virða valfrelsi eldriborgara hvað búsetu varðar og virða þau sjálfsögðu mannréttindi eldriborgara að ráða sem mest sjálf sínum næturstað.

Ljóst hefur verið frá upphafi að ákveðnir stjórnmálamenn á vinstri væng stjórnmála hafa séð ofsjónum yfir því að niðurfelling eignarskatts á eldri borgara í Vestmannaeyjum hafi ekki verið tekjutengd. Á sama hátt hafa embættismenn reynt að draga í efa réttmæti þessarar ákvörðunar. Bæjaryfirvöld hafa hingað til varið þennan rétt af mikilli einurð og ítrekað skilað inn áliti með tilvísan í lagalegan grundvöll þessarar ákvörðunar. Þannig hefur verið varin sú prinsip afstaða að tekjutengja ekki afsláttinn heldur líta á hann sem rétt allra eldri borgara.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hvetur því bæjarstjóra og hennar félaga í H-listanum til að taka upp eindregna baráttu fyrir hagsmunum Vestmannaeyja áður en í óefni verður komið.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hvetur sérstaklega fulltrúa E-lista til að verja áfram þá góðu ákvörðun sem þeirra samflokks fólk hefur tekið þátt í frá upphafi um hreina og klára niðurfellingu á fasteignasköttum á eldriborgara, án tekjutengingar.

Tillaga fulltrúa D-lista um afgreiðslu:
Bæjarráð felur bæjarstjóra að tryggja áfram að fasteignagjöld verði felld niður á alla eldri borgara 70 ára og eldri, án tekjutengingar, líkt og bæjarstjórn D lista og E lista gerði áður en H-listinn komst til valda.
Trausti Hjaltason (sign)

Bókun
Bæjarfulltrúar E- og H- lista lýsa furðu sinni á því að bæjarfulltrúi D- lista vilji halda áfram að brjóta lög þegar aðrar leiðir að sama marki eru færar. Einnig sætir furðu að fulltrúi D-lista vilji ekki að allir eldriborgarar frá 67 ára geti möglega notið ákveðinnar niðurfellingar fasteingaskatts.

Bókun
Bæjarfulltrúar E- og H-lista árétta að þeir hafa fullan hug á að létta undir með eldri borgurum þannig að þeir geti búið sem lengst í eigin húsnæði. Reglur um afslátt og niðurfellingu á fasteignaskatti verða þó að vera í samræmi við lög þar að lútandi. Frá árinu 2012 hefur Vestmannaeyjabær tekið tvær samhliða en ósamrýmanlegar ákvarðanir um afslátt og niðurfellingu fasteignaskatts. Fram kemur í áliti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að það sé verulega ámælisvert að bæjarvöld hefðu tekið ákvörðun um almenna niðurfellingu á fasteignaskatti fyrir 70 ára og eldri, þrátt fyrir vitneskju um að slíkt rúmaðist ekki innan lagaheimilda. Slíkar ákvarðanir væru ógildanlegar og því kom það til skoðunar hjá ráðuneytinu að fella þær úr gildi með afturvirkum hætti þannig að Vestmannaeyjabær hefði þurft að beita endurálagningu á þá eldri borgara sem hefðu notið þessara niðurfellingar í góðri trú um margra ára skeið. Ráðuneytið féll frá því vegna þess hversu íþyngjandi það hefði orði fyrir þá sem höfðu fengið niðurfellinguna. Einnig ber að hafa í huga að hingað til hafa einungis 70 ára og eldri notið niðurfellingar skattsins en ekki fólk frá 67 til 70 ára aldurs, og ekki öryrkjar.

Bókun
Fulltrúi D-lista bókar eftirfarandi: Aldurshópurinn 67 til 69 ára nýtur eðli málsins samkvæmt góðs af þeirri ákvörðun að tekjutengja fasteignaskatt eldri borgara og öryrkja.

     

2.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Dýpkun í Landeyjahöfn:
Bæjarfulltrúar allra lista í Eyjum hafa lýst yfir þungum áhyggjum vegna niðurstöðu útboðs Vegagerðarinnar á dýpkun í Landeyjahöfn næstu þrjú árin. Lægsta tilboðið átti fyrirtæki sem sá um dýpkunina fyrir nokkrum árum, með umdeilanlegum árangri, svo vægt sé til orða tekið. Fyrri reynsla vekur réttmætar efasemdir um það hvort lægsti tilboðsgjafinn nú, hafi einfaldlega yfir að ráða þeirri tæknilegri getu og tækjakosti sem þarf til að sinna verkinu með fullnægjandi hætti. Vegna þessarar reynslu kom það á óvart að í útboði Vegagerðarinnar var gert ráð fyrir að tæknilegi þátturinn skyldi einungis vega 35% við mat á tilboðum, en verðið 65%. Þar var heldur ekki gerð krafa um afköst hvern dag sem hægt er að dýpka. Við sem búum hér vitum að tíminn sem tekur að opna höfnina hverju sinni skiptir afar miklu máli.

Bæjastjóri fór á fund með vegamálastjóra í síðustu viku þar sem hún greindi frá ofangreindum áhyggjum bæjarfulltrúa. Vegamálastjóri sýndi þeim skilning og lofaði að fara yfir málið. Hún hét því jafnframt að bæjarstjóri fengi að fylgjast með framvindu málsins.

Það verður að teljast ólíklegt og óæskilegt að samið verði við verktaka um dýpkun Landeyjarhafnar án þess að fyrst sé gengið úr skugga um það með óyggjandi hætti að hann hafi tæknilega burði og tækjakost til að sinna verkinu svo viðunandi sé.

Stjórn Herjólfs:
Bæjarráð ræddi stöðuna varðandi stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Úrsögn stjórnarmanns fyrirtækisins hefur ekki verið staðfest af bæjarstjóra sem fer með skipunarvaldið. Þau sjónarmið sem stjórnarmaðurinn sagði að lægju að baki ósk hennar um úrsögn ber að taka alvarlega. Undanfarna daga hefur bæjarstjóri rætt við aðra stjórnarmenn, þar á meðal stjórnarformanninn, til að heyra þeirra sjónarmið. Mikilvægt er að farið verði yfir stöðuna á verkefninu og vinnulagið hjá stjórninni. Vanda þarf til verka í þessu mikla hagsmunamáli bæjarbúa.

   
 

Niðurstaða

 

Dýpkun í Landeyjarhöfn
Bæjarráð ítrekar þær áhyggjur sem fram komu á bæjarstjórnarfundi 4. október síðastliðinn. Því verður auðvitað ekki trúað að Vegagerðin semji við verktaka um dýpkun Landeyjarhafnar án þess að fyrst sé gengið úr skugga um það með óyggjandi hætti að hann hafi tæknilega burði og tækjakost til að sinna verkinu svo viðunandi sé. Bæjarstjóra verði falið að fylgja málinu eftir.

Stjórn Herjólfs
Bæjarráð undirstrikar mikilvægi velgengnis verkefnisins fyrir bæjarbúa. Um er að ræða eitt allra stærsta hagsmunamál einstaklinga og fyrirtækja í Eyjum og því brýnt að unnið sé að stjórnun og framkvæmd þess í nánu samstarfi ríkisins, bæjaryfirvalda og Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Bæjarráð telur mikilvægt að fá stjórn og framkvæmdastjóra félagsins á fund ráðsins, eins fljótt og unnt er, til þess að ræða stöðu fyrirtækisins og verkefnisins alls.

     

3.

Umræða um heilbrigðismál - 201810114

   
 

Niðurstaða

 

Á fundi með þingmönnum Suðurkjördæmis í kjördæmaviku var aðaláhersla bæjarstjórnar lögð á stöðu heilbrigiðisþjónustu í Vesmannaeyjum. Það liggja fyrir skýrslur og greiningar varðandi þessi mál en eftir þeim er ekki farið og í raun hefur ekkert gerst frá því að ""tímabundin"" lokun skurðstofu var ákveðin árið 2013. Þolinmæðin er löngu þrotin. Bæjarstjóri hefur óskað eftir fundi með heilbrigiðsráðherra vegna stóðu mála í heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum. Bæjarráð leggur þunga áherslu á að þingmenn kjördæmisins, sem og aðrir þingmenn, leggist á árarnar með okkur í því að koma þjónustu- og öryggisstigi í viðunandi horf. Jafnframt felur bæjarráð bæjarstjóra að óska eftir fundi með forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á næsta fund bæjarráðs til þess að ræða stöðu heilbrigðiþjónustu í Eyjum.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18.15

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159