14.01.2019

Bæjarráð - 3090

 
 

 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3090. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

14. janúar 2019 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Safnastefna Sagnheima - 201812108

 

Helga Hallbergsdóttir kynnti drög að safnastefnu Sagnheima. Skjalið inniheldur m.a. stefnu um sýningar, fræðslu, viðburði, rannsóknir, söfnun, skráningu og varðveislu.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð fagnar að fram sé komin ný safnastefna og samþykkir hana.

     

2.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Farið var yfir samantekt framkvæmdastjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., um stöðu undirbúnings á starfsemi ferjunnar. Samkvæmt minnisblaðinu er gert ráð fyrir að nýja ferjan fari í prufusiglingu undir lok janúar. Allir framleiðendur og hönnuðir munu fylgja skipinu eftir þá siglingardaga sem prófunin stendur yfir. Það má því segja að smíðin sé komin á lokastig og afhending ætti að geta farið fram undir lok febrúar.
Á þessum tíma er ekkert sem komið hefur upp sem gefur tilefni til að ætla að nýja ferjan verði ekki tilbúin til reksturs á tilsettum tíma.
Ráðningar áhafnar og annarra starfsmanna gengur samkvæmt áætlun. Búið er að ráða í skipstjórastöður, yfirstýrimenn, stýrimenn og háseta. Gert er ráð fyrir að ljúka ráðningu vélstjóra á næstu dögum.
Auglýst verður að nýju eftir starfsfólki í eldhús og þjónustu. Um er að ræða störf bryta/matráðs, þernu og þjónustufólks.
Ekki hefur verið gefin út mönnunarþörf fyrir nýju ferjuna þó einhverjar hugmyndir hafi verið lagðar fram. Það er mikilvægt fyrir rekstrarfélagið að öryggi farþega og rekstri ferjunnar verði aldrei stefnt í tvísýnu og því miðast áætlanir við þann mönnunarfjölda sem nú liggur fyrir. Ekki verður gefin út endanleg mönnun fyrir ferjuna fyrr en hún er komin til landsins.
Samskipti og samtal við stéttarfélög eru og hafa verið í gangi. Ekki er búið að ganga frá skriflegum ráðningarsamningum, en ráðningasamningar eru að verða tilbúnir og munu þeir verða lagðir fram til undirritunar þegar ráðningaferli er lokið.
Vinna við vefsíðu og bókunarkerfi gengur vel. Búið er að setja upp þar sem starfsfólk Hefjólfs ohf. ásamt Kasmos & Kaos vinna að gerð heimasíðunnar og bókunarvélarinnar. Nýráðnir starfsmenn, einn úr áhöfn og tveir úr afgreiðslu, sitja í verkefnahópnum.
Skírteini sem vinna þarf að og snúa að rekstrarfélaginu eru öll í samræmi við áætlanir og eru að mestu lokið. Samvinna og samskipti eiganda og rekstraraðila eru góð varðandi alla vinnu við gerð skírteina og er þessi vinna vöktuð af báðum aðilum.
Öll verkefni félagsins sem snúa að undirbúningi ferjunnar ganga samkvæmt áætlun. Þess ber að geta að straumlínulögun starfslýsinga og vinnutilhögunar verður fullmótuð þegar ferjan er komin heim til Eyja. Aðstæður og aðbúnaður um borð í nýju ferjunni er ólíkur umhverfi núverandi Herjólfs.
Framkvæmdastjóri hefur jafnframt átt góð samskipti við atvinnulífið, ferðaþjónustuaðila og flutningsaðila. Rekstrarfélagið mun starfa með öllum þessum aðilum.

Bæjarráð ræddi stöðu dýpkunaar í Landeyjarhöfn.

Bæjarráð fór yfir stöðuna í flugsamgöngum. Njáll Trausti Friðbertsson, formaður starfshóps sem hafði það hlutverk að móta tillögur um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna, mun fjalla um nýútkomna skýrslu starfshópsins um eflingu innanlandsflugs og rekstur flugvalla, á opnum fundi í Eldheimum þann 21. janúar nk.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð hefur áhyggjur af dýpkunarmálum í Landeyjarhöfn og felur bæjarstjóra að vera í samskiptum við Vegagerðina um málið til að þrýsta á um að vel verði að verki staðið. Bæjarráð ítrekar afstöðu sína um að höfnin sé heilsárshöfn og hvergi verði slakað á þeirri kröfu.

     

3.

Starfshópur um framtíðarskipan ferðamála í Vestmannaeyjum - 201808046

 

Farið var yfir niðurstöður samráðshóps um framtíðarskipan ferðamála í Vestmannaeyjum frá fundi hópsins sem haldinn var þann 28. nóvember sl. Þar kom fram að fundarmenn hefðu verið sammála um að stjónun ferðamála Vestmannaeyjabæjar væri best borgið í höndum hagsmunaaðila í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Jafnframt kom fram tillaga um að fulltrúar ferðaþjónustunnar taki að sér umsjón ferða- og markaðsmála á vegum bæjarins. Auk þess að skipuð verði sjóðstjórn, sem tekur sameiginlega ákvarðanir um útgjöld til markaðsmála sem og annara aðgerða til framdráttar ferðaþjónustunnar. Að lokum kom fram að mikilvægt sé að hópurinn geti tekið til starfa sem allra fyrst.

Bæjarráð fjallaði um fyrirhugaða samninga við Þekkingarsetur Vestmannaeyja um rekstur Sagnheima og Sæheima. Auk þess fjallaði bæjarráð um tillögu Þekkingarsetursins um áframhaldandi samkomulag við Vestmannaeyjabæ um eflingu ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ljúka við gerð samnings við Þekkingarsetur Vestmannaeyja um rekstur Sagnheima og Sæheima. Bæjarráð samþykkir tillögu samráðshóps um framtíðarskipan ferðamála í Vestmannaeyjum, um að breyta fyrirkomulagi á skipulagi ferðamála í samræmi við niðurstöðu starfshópsins. Skipuð verði þriggja manna stjórn sem tekur ákvörðun um útgjöld til markaðsmála sem og annarra aðgerða til framdráttar ferðaþjónustunnar. Óskað verður eftir tilnefningum um tvo fulltrúa frá ferðaþjónustunni, en ákveðið er að framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs verði fulltrúi Vestmannaeyjabæjar í stjórninni og jafnframt formaður hennar. Framkvæmdastjóra stjórnýslu- og fjármálasviðs og fjármálastjóra verður falið að gera drög að samkomulagi við samtök ferðaþjónustunnar um fyrirkomulag úthlutunar og framkvæmd verkefnsins.

Bæjarráð þakkar samráðshópi um framtíðarskipan ferðamála fyrir góða vinnu, en óskar eftir að hann starfi áfram og verði stjórninni til ráðgjafar um málefni ferðaþjónustunnar.

     

4.

Umræða um úttekt á framkvæmdum - 201901041

 

Í ljósi umræðna um áætlanir og framkvæmdaskostnað við Fiskiðjuna tekur bæjarráð málið til umfjöllunar.

   
 

Niðurstaða

 

Kostnaðaráætlun vegna utanhússframkvæmda við Fiskiðjuna sem lögð var fyrir framkvæmda- og hafnarráð 15. júlí 2015, hljóðaði upp á kr. 167.787.000. Ljóst er að heildarkostnaður vegna einstakra verkþátta framkvæmda við Fiskiðjuna er töluvert hærri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Bæjarráð samþykkir að fela endurskoðendum reikninga bæjarins (KPMG) heildarúttekt á áætluðum kostnaði og heildarkostnaði vegna framkvæmda við Fiskiðjuna á árunum 2015 til 2018.

Samþykkt með tveimur atkvæðum E- og H- lista gegn einu atkvæði fulltrúa D-lista.

Bókun
Fulltrúi sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun: Komið hefur fram að framúrkeyrslan skýrist af því að klæða þurfti suðurhliðina vegna þess að Ísfélagið var rifið frá og kostnaður við förgun á sorpi sem var inni í húsinu var töluvert meiri en áætlað var. Bæði atriði sem ekki var hægt að komast hjá. Það verður hins vegar að teljast í besta falli óábyrgt af formanni bæjarráðs að fara í fjölmiðla með stórar yfirlýsingar tengdum fréttaflutningi af framkvæmdunum og að leita ekki fyrst skýringa og fá réttar tölur og ástæður fyrir framúrkeyrslunni, slíkt ætti að vera auðsótt fyrir formann bæjarráðs.
(Sign. Trausti Hjaltason)

Bókun
Meirihluti bæjarráðs ítrekar mikilvægi vandaðrar áætlunargerðar. Gegnsæi upplýsinga er hornsteinn virks lýðræðis og í flókinni framkvæmd líkt og í Fiskiðjunni er mikilvægt að upplýsingar um kostnað opinberrar framkvæmdar sé opinn og aðgengilegur með skýrum hætti.
(Sign. Njáll Ragnarsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir)

Bókun
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun: Miklu máli skiptir að halda til haga að bókfærður kostnaður nýframkvæmda hússins er í dag er um 326 milljónir. Við það hafa skapast verðmæti og tækifæri sem hefðu ekki komið til öðruvísi en að leggja í framkvæmdir. Ber þar helst að nefna nýja Sæheima og miklar fjárfestingar af hálfu erlends fyrirtækis á fyrstu hæðinni. Önnur hæðin er öll í útleigu undir fjölbreytta atvinnu-, menningar- og menntastarfsemi. Á þriðju og fjórðu hæðinni eru síðan gert ráð fyrir íbúðum og væntanlegt framtíðarhúsnæði skrifstofa Vestmannaeyjabæjar.
(Sign. Trausti Hjaltason)

     

5.

Rekstur kvikmyndahúss (Eyjabíó) í Kviku - 201901042

 

Bæjarráð ræddi um núverandi fyrirkomulag reksturs kvikmyndahúss í Kviku. Til stendur að bjóða út rekstur kvikmyndahússins þegar búið verður að gera upp þrotabú fyrri rekstraraðila og ljóst hvernig eignir og lausafé (t.d. sýningarvélar og annar tæknibúnaður) skiptist milli kröfuhafa í búið. Talið er að þessari vinnu ljúki fljótlega. Stefnt er að útboði í mars og búið er að ná saman við núverandi rekstraraðila, sem haldið hefur úti rekstri kvikmyndahússins frá því fyrri rekstraraðili fór í þrot, um að halda áfram starfsemi kvikmyndahússins þar til ráðist verður í útboð.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að fylgja málinu eftir.

     

6.

Endurgjald til fyrrum stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna sparisjóðsins og Landsbankans. - 201504034

 

Bæjarstjóri kynnti drög að bréfi til Lilju Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans hf., þar sem óskað er eftir afstöðu Landsbankans til þess hvort bankinn muni greiða öðrum fyrrum stofnfjáreigendum, sem ekki eru aðilar dómsmáli Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar gegn Landsbankanum, í samræmi við niðurstöður dómstóla fari svo að niðurstaðan verði sú að bankanum beri að greiða hærra verð fyrir stofnfjárhlutina.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að senda bréfið á bankastjóra Landsbankans hf.

     

7.

Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð – 200708078

     

      Niðurstaða

 

      Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka trúnaðarmálafundargerð

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14.00

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159