05.02.2019

Bæjarráð - 3091

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3091. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

4. febrúar 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Niðurfelling fasteignaskatts - 201804106

 

Vestmannaeyjabæ barst bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 23. janúar sl, þar sem vísað er til útskýringa Vestmannaeyjabæjar á því fyrirkomulagi sem verður á veitingu afsláttar af fasteignaskatti tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega í sveitarfélaginu. Telur ráðuneytið að ekki sé tilefni til frekari umfjöllunar um stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar að þessu leyti og málinu sé lokið af hálfu ráðuneytisins.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð lýsir ánægju með viðbrögð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins við þeim breytingum sem bæjaryfirvöld hafa gert á fyrirkomulagi afsláttarkjara til handa elli- og örorkulífeyrisþegum af fasteignaskatti. Með því staðfestir ráðuneytið að þar sem fallið hefur verið frá þeirri almennu niðurfellingu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í eigu íbúa 70 ára og eldri sem viðgekkst áður, verði engar athugasemdir gerðar og málinu því lokið af þess hálfu. Það þýðir jafnframt að ekki verða gerðar athugasemdir við töluverða hækkun á viðmiðunartekjum elli- og örorkulífeyrisþega sem var ein meginbreytingin á fyrirkomulagi afsláttarins og leiðir til þess að mun fleiri elli- og örorkulífeyrisþegar njóta afsláttarkjaranna á þeim forsendum.

Bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði lýsir yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð E- og H lista í þessu máli og harmar að stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar eru nú svo illa komið að lög og almennar vinnureglur eru brotnar.
Svarbréf var sent til ráðuneytisins án allrar umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn, líkt og eðlilegt hefði verið miðað við þessa miklu stefnubreytingu, í því svarbréfi var fallið frá þeirri stefnu að fella niður fasteignaskatt á 70 ára og eldri.
Í bréfi ráðuneytisins sem hér er til umfjöllunar kemur síðan fram að leita þurfi upplýsinga til annars ráðuneytis til að fá upplýsingar um hvort að það samrýmist ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs að veita afslátt af sorpeyðingargjöldum. Það er hreinlega vandræðalegt fyrir stjórnendur Vestmannaeyjabæjar að auka álögur á eldri borgara vegna ásakana eins ráðuneytis um lögbrot en gera það á svo óvandaðan hátt að sú leið sem farin er kalli nú á skoðun hjá öðru ráðuneyti á því hvort að um lögbrot sé að ræða á nýjum reglum sem H- og E- listi lögðu til.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa áður bent á að nýjar reglur um afslátt af sorpeyðingargjöldum gætu brotið í bága við lög, og beinir ráðuneytið því til bæjarins að láta annað ráðuneyti skoða hvort að svo sé. Erfitt er að átta sig á á hvaða vegferð E- og H- listi eru með þetta mál, þegar það á að koma í veg fyrir meint lögbrot með öðru lögbroti.
Minnt er á að vandræðagangur E- og H lista og óvönduð stjórnsýsla þeirra gengisfellir Vestmannaeyjabæ.
(Sign. Trausti Hjaltason)

Bókun
Meirihluti bæjarráðs leggur fram eftirfarandi bókun: Ákvörðun um flatan 85% afslátt af sorpeyðingargjöldum og lóðaleigugjaldi til handa öllum þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri 67 ára og eldri er að mati meirihlutans innan lagaheimilda.
Ekki er að sjá að lög um meðhöndlun úrgangs og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, hvað varðar sorpeyðingargjöld, takmarki rétt sveitarfélaga til að veita elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt af sorpeyðingargjöldum. Hins vegar er í lögum um tekjustofna sveitarfélaga skýrt kveðið á um hvernig slík afsláttarkjör takmarkast við tekjulága elli- og örorkulífeyrisþega.
Ef ekki er kveðið á um sérstaka útfærslu afsláttar í lögum og svo framarlega að jafnræðis og meðalhófs sé gætt, þ.e. að i) stjórnvaldsákvörðunin sé til þess fallin að ná því markmiði sem stefnt er að, ii) sem minnsta röskum á hagsmunum borgarans fylgir ákvörðuninni og iii) gætt er hófs við beitingu úrræðisins, hlýtur umrædd ákvörðun að teljast innan heimilda stjórnsýslulaga. Það er mat meirihluta bæjarráðs að með tillögunni sé gætt að öllum þessum þáttum í lagalegu tilliti.
Markmiðið um að stuðla að því að eldri borgarar geti búið lengur í eigin húsnæði og draga úr þörfinni fyrir önnur kostnaðarfrek húsnæðisúrræði fyrr en nauðsynlegt er á lífsævinni, eins og dvalar- og hjúkrunarrými, er skýrt og tillagan til þess fallin að það markmið náist með því að veita eldri borgurum afslátt af sorpeyðingargjöldum og lóðarleigu. Lítil röskun er á hagsmunum borgarans þar sem áfram verður létt undir fjárhagslega með ellilífeyrisþegum, en alla jafna verða eldri borgarar fyrir töluverðri launaskerðinga við töku ellilífeyris. Þar að auki er algengt að eldri borgarar búi einir í húsnæði eftir fráfall maka. Þá má færa rök fyrir því að losun sorps séu jafnan minni hjá ellilífeyrisþegum þar sem færri búa í heimili.
Mörg dæmi eru til um afslátt af þjónustugjöldum fyrir öryrkja- og eldri borgara og má þar nefna afslátt í sundlaugar og af almenningssamgöngum.
Ekki er verið að mismuna ellilífeyrisþegum á nokkrun hátt með tillögunni og jafnræðis gætt með því að allir íbúar 67 ára og eldri njóti sömu kjara, rétt eins og þeir ferðalangar Strætó og sundlaugagestir flestra sundlauga á landinu sem náð hafa ellilífeyrisaldri. Gert er ráð fyrir að allir íbúar fái umrædd afsláttarkjör þegar ellilífeyrisaldri er náð.
Ákvörðun um afslátt af sorphirðugjöldum og lóðarleigu til handa ellilífeyrisþegum er ekki íþyngjandi fyrir aðra íbúa Vestmannaeyjabæjar þar sem ekki stendur til að hækka gjöldin hjá öðrum íbúum bæjarins vegna þessarar ákvörðunar. Munu sorphirðu- og lóðarleigugjöldin taka breytingum eftir þróun vísitölu næsta árs eins og undanfarin ár. Þess má að auki geta að frá árunum 2010 til 2018 hefur Vestmannaeyjabær greitt um 174 milljónir með sorphirðu.
(Sign. Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Njáll Ragnarsson)

Tillaga:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur til að endurskoðanda sveitarfélagsins verði falið að leggja mat á þá stjórnsýslu sem viðhöfð hefur verið í þessu máli og kanna hvort hún sé í samræmi við góðar vinnureglur og hefðir við stjórn sveitarfélaga. Þar verði sérstaklega lagt mat á réttmæti þess að senda svarbréf til ráðuneytisins án allrar umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn. Þá skal einnig metið hvort og þá með hvaða hætti rannsóknarreglu stjórnsýslulaga var fylgt við undirbúning þessa máls, en í henni fellst að stjórnvald eins og bæjarstjórn og bæjarráð skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.
Felld með tveimur atkvæðum H og E lista gegn einu atkvæði D lista.

Tillaga:
Bæjarráð leggur til að endurskoðendum sveitarfélagsins verði falið að gera stjórnsýslulega úttekt á niðurfellingu fasteignaskatts til handa eldri borgurum frá því að fyrst var hafið að veita afslátt. Lagt verði mat á þá stjórnsýslu sem viðhöfð hefur verið frá því að ákveðið var að veita afsláttinn fyrst og öll samskipti við stjórnvöld eftir að það hófst.
Samþykkt með tveimur atkvæðum E og H lista gegn einu atkvæði D lista.

     

2.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. kom á fund bæjarráðs til að kynna stöðu einstakra viðfangsefna félagsins:

1. Áætlanir rekstrarfélagsins eru í samræmi við framvindu verkefnisins og ganga vel. Seinkun er á að nýja ferjan fari í „sea trial“ en nú er gert ráð fyrir að af því verði innan næstu tveggja vikna.

2. Á þessum tíma er ekkert sem komið hefur upp sem gefur tilefni til að ætla að ferjan verði ekki tilbún til rekstrar á tilsettum tíma þ.e. 30. mars n.k.

3. Allur undirbúningur sem miðar að því að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. verði í stakk búið til að taka við rekstri þann 30. mars n.k. gengur samkvæmt áætlun.

4. Er verið að ljúka ráðningum og ganga frá ráðningasamningum og gert er ráð fyrir að því verði öllu lokið fyrir miðjan mánuðinn. Hluti starfsmanna hafa verið sendir á tilheyrandi námskeið og í þjálfun bæði hérlendis og erlendis.

5. Vinna við heimasíðu og bókunarkerfi gengur samkvæmt áætlun.

6. Nú líður að því að smíði nýju ferjunnar ljúki í Póllandi og hún sigli heim, því þarf að huga að og skipuleggja móttöku vegna komu hennar til Eyja.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri gerði bæjarráði grein fyrir nýgerðum drögum að viðauka við þjónustusamning Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar um framlengingu fyrri samnings og þurrlegu gamla Herjólfs.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar þeim Guðbjarti Ellert og Írisi fyrir upplýsingarnar.

     

3.

Þjónustukönnun Gallup fyrir árið 2018 - 201902006

 

Bæjarstjóri gerði lauslega grein fyrir þjónustukönnun Gallups fyrir árið 2018 og greindi frá fyrirhuguðum íbúafundi um niðurstöður könnunarinnar sem haldinn verður 12. febrúar 2019 í Eldheimum. Markmið fundarins er að upplýsa bæjarbúa um stöðu þjónustunnar í Vestmannaeyjum og leita eftir viðbrögðum um hvað megi betur fara og hvernig hægt er að bæta þjónustuna.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar. Samkvæmt niðurstöðunum eru bæjarbúar almennt sáttir við þjónustu bæjarins. Bæjarráð hvetur bæjarbúa til að taka þátt í fundinum og láta í ljós skoðun sína á hvernig hægt er að bæta þjónustuna enn betur.

     

4.

Líkamsræktarstyrkur til starfsmanna - 201901130

 

Kynntar voru reglur fyrir úthlutun styrkjar til starfsmanna vegan líkamsræktar, en frá og með 1. janúar 2019 býðst starfsmönnum Vestmannaeyjabær slíkur styrkur allt að 10.000 kr. á ári. Reglurnar verða birtar á vef Vestmannaeyjabæjar.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir reglurnar og að þær skuli birtar á vef bæjarins.

     

5.

Sveitarfélögin og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna - 201902004

 

Bæjarstjóri kynnti bréf forsætisráðherra um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hlutverk sveitarfélaganna í þeim markmiðum. Kemur m.a. fram í bréfinu að íslensk stjórnvöld hafi skulbundið sig til að vinna að markmiðunum til ársins 2030 og sveitarfélögin séu hvött til að kynna sér þau, þar sem markmiðin geta verið mikilvægur leiðarvísir fyrir stefnumótun sveitarfélaga. Jafnframt er í bréfinu vakin athygli á kynningu á sveitarfélögunum og heimsmarkmiðunum sem fram fer á Grand hótel 15. febrúar nk.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar kynninguna og felur bæjarstjóra að kanna hvort bæjarfulltrúar eða embættismenn bæjarins hafi tök á að sækja kynningarfundinn á Grand hótel þann 15. febrúar nk.

     

6.

Staða samgönguáætlunar - 201902007

 

Nefndarálit og breytingartillaga umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis frá 31. janúar sl., við tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019-2023 lögð fram í bæjarráði.

   
 

Niðurstaða

 

Tillögur umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis verða teknar fyrir á næsta fundi bæjarráðs.

     

7.

Greinargerð v. Bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2018 - Karlakór Vestmannaeyja - 201901153

 

Lögð var fram greinargerð frá Pálma Harðarssyni, f.h. Karlakórs Vestmannaeyja um störf kórsins á árinu. Karlakórinn var útnefndur Bæjarlistamaður Vestmannaeyja á árinu 2018 og kemur fram í greinargerðinni að það hafi verið kórnum mikil viðurkenning og hvatning um framhaldið.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar Karlakór Vestmannaeyja fyrir greinargóðar upplýsingar og frábært starf á árinu 2018 og óskar þeim alls hins besta í framtíðinni.

     

8.

Endurgreiðsla á framlögum í jafnvægis-, lífeyrisauka og varúðarsjóði A deildar Brúar lífeyrissjóðs vegna aðila að meirihluta fjármagnaðir af ríkissjóði - 201901033

 

Í samkomulagi milli ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs um viðbótargreiðslu til A deildar sjóðsins vegna aðila að meirihluta fjármagnaðir af ríkissjóði, kemur fram að hafi hlutaðeigandi sveitarfélög eða launagreiðendur þegar greitt viðbótarframlag til Brúar lífeyrissjóðs, endurgreiði sjóðurinn þeim á grundvelli samkomulagsins. Greiðsla ríkisins vegna framlags Vestmannaeyjabæjar vegna öldrunaheimila í jafnvægis-, lífeyrisauka- og varúðarsjóði A deildar Brúar lífeyrissjóðs nam tæpum 39 m.kr. og endurgreiðir sjóðurinn þá fjárhæð til sveitarfélagsins. Sveitarfélagið lýsir því jafnframt yfir að engar frekari kröfur verði gerðar á hendur Brú lífeyrissjóði vegna þessa uppgjörs. Málið var nýlega rætt í bæjarráði á óformlegum fundi ráðsins og þar var samþykkt að fallast á umrædda endurgreiðslu með þeim skilyðrum sem rakin hafa verið.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:00

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159