05.03.2019

Bæjarráð - 3094

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3094. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

5. mars 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, varamaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri. Trausti Hjaltason, aðalmaður, boðaði forföll

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Bæjarstjóri fundaði með framkvæmdastjóra og svæðisstjóra Isavia um stöðu flugvallarins og flugsamgangna til Vestmannaeyja. Ákveðið var að funda að nýju í aprílmánuði.

Björgun hefur hafið dýpkun í Landeyjarhöfn. Ætluð voru tvö skip til verkefnisins. Dísan er byrjuð að dýpka, en þar sem ekki er þörf fyrir að dýpka á rifinu skv. upplýsingum frá Vegagerðinni hefur Sóley ekki verið kölluð til í þetta sinn. Bæjarráð telur mikilvægt að unnið sé á vöktum við dýpkun allan sólarhringinn þegar veður gefst, því hver dagur skiptir máli.

Tekin var fyrir samantekt framkvæmdastjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. um stöðu mála. Þar kemur fram að:
1. sjóprufur fóru fram undir lok febrúar og er verið að vinna úr þeim athugasemdum sem þar komu fram. Ferjan fer í þurrkví en við botnskoðun kom í ljós að fara þarf í málningarvinnu fyrir afhendingu,
2. það liggur fyrir að einhver seinkun verði á afhendingu nýju ferjunnar og hefur ekki verið staðfest hvenær afhending fer fram,
3. rekstrarfélagið muni taka við rekstri ferjusiglinga þann 30. mars n.k. og mun hefja siglingar miðað við sjö brottfarir til og frá Eyjum á dag frá þeim tíma, hvort heldur siglt verður á núverandi Herjólfi eða nýrri ferju,
4. Önnur verkefni sbr. vinna við gerð heimasíðu og tenging við nýtt bókunarkerfi gengur samkvæmt áætlun.

     

2.

Umræða um heilbrigðismál - 201810114

 

Þann 4. mars sl., átti bæjarráð fund með Herdísi Gunnarsdóttur forstjóra HSU og tveimur fulltrúum stofnunarinnar. Meðal annars var rætt um hvernig 58 m.kr. fjárheimild til stofnunarinnar til eflingar geðheilbrigðismála verði ráðstafað. Kom fram að áhersla verði lögð á sálfræðiþjónustu fullorðinna einstkalinga. Samstarf við félagsþjónustu á landsbyggðinni verði aukið. Jafnframt var rætt um hvernig hægt er að efla ómskoðun og reglubundnar augnlækningar í Eyjum. Bæjarráð óskaði eftir upplýsingum um framtíðarsýn yfirstjórnar HSU á starfsemi stofnunarinnar í Vestmannaeyjum og stöðu mála er varða þyrlusjúkfraflug.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráði finnst fátt um svör við þeim spurningum sem lagðar voru fram og lítið hafa gerst frá því að fundað var síðast með forstjóra stofnunarinnar. Bæjarráð lýsir yfir vonbrigðum með að enn hafi ekki verið komið á fót sónarþjónustu né þjónustu augnlæknis við stofnunina þrátt fyrir fyrirheit forstjórans þar um. Bæjarráð ítrekar fyrri bókanir um nauðsyn þess að hlutverk HSU í Vestmannaeyjum verði skilgreint til framtíðar og þjónusta stofnunarinnar og þá sérstaklega bráðaþjónusta við íbúa samfélagins verði efld til muna.

     

3.

Starfshópur um framtíðarskipan ferðamála í Vestmannaeyjum - 201808046

 

Formaður stjórnar sem tekur ákvörðun um útgjöld til markaðsmála sem og annarra aðgerða til framdráttar ferðaþjónustunnar, sbr. samþykkt bæjarráðs frá 14. janúar sl., gerði grein fyrir vinnu stjórnarinnar. Stjórnin, sem skipuð er Páli Scheving og Berglindi Sigmarsdóttur frá ferðaþjónustunni og Angantý Einarssyni, fulltrúa Vestmannaeyjabæjar, mun greina þörfina og taka ákvörðun um útgjöld á vegum bæjarins til markaðsmála sem og annarra aðgerða til framdráttar ferðaþjónustunni og ráðstafa til þess 7,6 m.kr. fjárheimild sem veitt hefur verið til málaflokksins í fjárhagsáætlun 2019. Af þeirri fjárhæð er áætlað að um 2 m.kr. verði ráðstafað til samstarfs við Markaðsstofu Suðurlands og um 1 m.kr. til reksturs upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn. Ráðgert er að öðrum fjárheimildum verði varið til beinna aðgerða í markaðsmálum fyrir ferðaþjónustuna. Gerður verði samningur við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja um fyrirkomulag úthlutunar.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar

     

4.

Erindi til Vestmannaeyjabæjar v/ framleiðslu á heimildamynd um Þjóðhátíð - 201902098

 

Þann 15 febrúar sl., barst Vestmannaeyjabæ erindi frá Sighvati Jónssyni og Skapta Erni Ólafssyni, þar sem óskað er eftir fjárstyrk til þess að ljúka við gerð heimildarmyndar um Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Heimildarmyndin hefur verið í undirbúningi síðan 2014 og töluverða vinnu búið að leggja í gerð hennar. Til þess að ljúka framleiðslunni er óskað eftir styrk frá Vestmannaeyjabæ að fjárhæð 1,5 m.kr. Með slíkum stuðningi yrði Vestmannaeyjabær einn af aðal bakhjörlum myndarinnar.

   
 

Niðurstaða

 

Þar sem ekki er gert ráð fyrir fjárheimild í fjárhagsáætlun bæjarsjóðs fyrir árið 2019 til þess að styrkja heimildarmynd af því tagi sem sótt er um, er umsókninni hafnað. Í tengslum við fjárhagsáætlanagerð hefur Vestmannaeyjabær ár hvert samþykkt myndarlegt framlag til átaksverkefna og frumkvæðis bæjarbúa undir nafninu "Viltu hafa áhrif?" Umsóknum sem þessum er alla jafna beint í þann farveg.

     

5.

Forkaupsréttur á Bergey VE-544 - 201902109

 

Bæjarskrifstofunum barst erindi frá Bergi-Huginn hf. dags 20. febrúar sl., þar sem Vestmannaeyjabæ er boðinn forkaupsréttur að Bergey VE-544 með vísan til 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í erindinu kemur fram að verði af sölu skipsins, seljist það án aflahlutdeilda.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar Bergi-Huginn hf. fyrir upplýsingarnar um fyrirhugaða sölu skipsins og áréttingu um forkaupsrétt Vestmannaeyjabæjar með vísan til laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þar sem skipið verður selt án aflahlutdeilda telur bæjarráð ekki forsendur fyrir því að nýta forkaupsréttinn í þessu tilviki og fellur því frá honum.

     

6.

Eignaskiptayfirýsing vegna Ægisgötu 2 - 201902159

 

Við gerð eignaskiptayfirýsingar vegna fasteignar að Ægisgötu 2, var Vestmannaeyjabær ranglega skráður eigandi. Um er að ræða fasteign sem merkt er Sædýrasafn og er hvalalaug. Útbúin hefur verið ný yfirlýsing þar sem Vestmannaeyjabær samþykkir að framangreind eign verði skráð á The Beluga Building Company.

   
 

Niðurstaða

 

Samþykkt

     

7.

Lögfræðikostnaður 2014 - 2018 - 201902161

 

Kostnaður við lögfræðiþjónustu hefur aukist undanfarin ár samhliða auknum stjórnsýslulegum verkefnum. Mikilvægt er að vera vakandi yfir því hvar hægt er að hagræða í rekstri. Því beinir bæjarráð því til bæjarskrifstofanna að leita leiða til að hagræða og halda þessum kostnaði eins lágum og hægt er, t.d. með verðkönnunum og leita tilboða hjá lögfræðiskrifstofum.

   
 

Niðurstaða

 

Samþykkt

     

8.

Beiðni um umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi fyrir 900 Grillhús - 201810213

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir jákvæða umsögn að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.

Bæjarráð staðfestir jákvæða umsögn frá skipulags- og byggingarfulltrúa að starfssemin sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála og að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu.
Staðfestir jákvæða umsögn heilbrigðisfulltrúa heilbrigðiseftirlits Suðurlands um að samræmi sé milli umsóknar og útgefins starfsleyfis, þ.m.t. umsóttan fjölda gesta og ekki sé hætta á truflun við nærliggjandi íbúa vegna opnunartíma staðarins.
Staðfestir jákvæða umsögn slökkviliðsstjóra að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs miðað við 45 manns.

Umsögn þessi er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

9.

Þjónustukönnun Gallup fyrir árið 2018 - 201902006

 

Fjallað var um ábendingar sem komu af íbúafundi um þjónustukönnunina sem haldinn var í Eldheimum 12. febrúar sl. og ætlaðar voru bæjarráði.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar ábendingarnar og mun hafa þær til hliðsjónar í störfum sínum næstu mánuði.

     

10.

Beiðni um umsögn vegna árshátíðar FÍV - 201903023

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um tækifærisleyfi vegna árshátíðar Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum sem haldin verður þann 21. mars nk. frá kl. 20:00 til 01:00 þann 22. mars.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að aðrir umsagnaraðilar, þ.e. Slökkvilið Vestmannaeyja, skipulags- og byggingarfulltrúi og heilbrigðisfulltrúi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, veiti einnig jákvæða umsögn.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfið á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

11.

Umræða um fyrirhugaðar breytingar á sýslumannsembættinu í Vestmannaeyjum - 201901166

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð lýsir áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin varðandi embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum. Ljóst er að með tilfærslu sýslumannsins í önnur verkefni og setningu sýslumannsins á Suðurlandi yfir embættið í Vestmannaeyjum getur komið til skerðingar á þjónustu við bæjarbúa. Bæjarráð lítur það alvarlegum augum að enn fækki opinberum störfum í Vestmannaeyjum þrátt fyrir stefnu stjórnvalda sem felur í sér jafnt aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera.

Bæjarráð skorar á dómsmálaráðherra að endurskoða ákvörðun um sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum og stuðla að því að embættið verði eflt með tilfærslu nýrra verkefna til Vestmannaeyja. Þá verði staða löglærðs sérfræðings tafarlaust sett á stofn við embættið til að sinna fyrirliggjandi og væntanlegum framtíðarverkefnum þar til að embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum verður auglýst laust til umsóknar að nýju.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:35

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159