02.04.2019

Bæjarráð - 3096

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3096. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

2. apríl 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Staðan í Landeyjarhöfn og afköstin við dýpkun hafnarinnar eru Vestmannaeyjabæ mikil vonbrigði. Allar þær áhyggjur sem bæjarstjórn, bæjarráð og Eyjamenn komu fram við Vegagerðina, þegar samingur um dýpkun var gerður, hafa gengið eftir. Nú er komin apríl og höfnin enn lokuð. Bæjarstjóri óskaði nýlega eftir áætlun um það hvernig og hvenær Vegagerðin ætlar sér að ljúka dýpkun og opna höfnina. Þau svör fengust frá Vegagerðinni að til stæði að halda áfram eins og verið hefur.


   
 

Niðurstaða

 

Það er einhuga afstaða bæjarráðs að ekki sé hægt að búa við þá stöðu sem uppi er vegna ástandsins í Landeyjarhöfn. Heilt samfélag líður fyrir það hvernig ákvörðunum við dýpkun Landeyjahafnar hefur verið háttað. Ljóst er að bæta þarf við þann tækjakost sem sinnt hefur dýpkun í mars til þess að efla afkastagetuna. Aðeins eitt dýpkunarskip hefur verið við vinnu að undanförnu.

Bæjarráð fer fram á það við Vegagerðina að hún taki þessu árangursleysi föstum tökum og leggi fram raunhæfa áætlun um hversu fljótt hægt er að opna höfnina. Þolinmæðin er þrotin.

     

2.

Almennt eftirlit með því að fjármál og fjármálastjórn sveitarfélaga séu í samræmi við lög og reglur - 201903129

 

Greint var frá bréfi til allra sveitarfélaga frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga dags. 18. mars sl., þar sem fram kemur að eftirlitsnefndin hafi ákveðið að taka til umfjöllunar með hvaða hætti sveitarfélög standa að eftirliti og framkvæmd fjárfestinga á árinu 2019. Nefndin mun óska eftir nákvæmum upplýsingum um framgang einstakra fjárfestingarverkefna í árslok 2019 og bera saman við fjárhagsáætlun sveitarfélaganna og viðaukum fyrir sama ár.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar

     

3.

Samningur Vestmannaeyjabæjar og Þekkingarseturs ses. Vestmannaeyja um rekstur Sagnheima - 201903149

 

Til upplýsinga fyrir bæjarráð fór framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs yfir samning við Þekkingarsetur Vestmannaeyja um áframhaldandi rekstur Sagnheima undir stjórn og umsjón Þekkingarsetursins. Gerður var samningur við setrið til eins árs.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar

     

4.

Samingur Vestmannaeyjabæjar og Þekkingarseturs Vestmannaeyja um rekstur Sæheima, náttúrugripa- og fiskasafns - 201903143

 

Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs upplýsti bæjarráð um samning við Þekkingarsetur Vestmannaeyja um rekstur Sæheima fyrstu þrjá mánuði ársins 2019 og frágang og rekstrarlok safnsins undir umsjón Þekkingarsetursins. Rekstur náttúrugripasafns mun nú færast undir starfsemi Sea Life Trust við Ægisgötu 2.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar

     

5.

Ósk um aukna fyrirgreiðslu vegna fjarnáms í leik- og grunnskólafræðum - 201903104

 

Lagt var fyrir bæjarráð erindi nokkurra talsmanna grunn- og leikskólakennara þar sem óskað er eftir við bæjaryfirvöld að réttur starfsmanna Vestmannaeyjabæjar vegna fjarnáms í leik- og grunnskólafræðum verði rýmkaður. Var vísað til fyrirkomulags annarra sveitarfélaga þegar kemur að fjarnámi.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð vísar erindinu til skoðunar við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2020. Ekki er gert ráð fyrir þessu svigrúmi vegna fjarnáms í fjárhagsáætlun þessa árs. Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að endurskoða reglur um fyrirkomulag náms með starfi hjá starfsmönnum sveitarfélagsins sem gætu tekið gildi á nýju fjárhagsári.

     

6.

Beiðni um umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi v. Hótel Vestmannaeyjar - 201903176

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Öddu Jóhönnu Sigurðardóttur um rekstrarleyfi fyrir Hótel Vestmannaeyjar vegna reksturs gististaðar í flokki IV, að Vestmannabraut 28.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að aðrir umsagnaraðilar, þ.e. Slökkvilið Vestmannaeyja, skipulags- og byggingarfulltrúi og heilbrigðisfulltrúi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, veiti einnig jákvæða umsögn.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi gististaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

7.

Áhrif nýs starfsmats BHM félaga á laun háskólamenntaðra starfsmanna Vestmannaeyjabæjar - 201903175

 

Í kjarasamningum árið 2015 sömdu flest stéttarfélög innan BHM, auk nokkurra félaga utan bandalaga, um innleiðingu starfsmats skv. sérstöku starfsmatskerfi. Um er að ræða samskonar starfsmatskerfi og innleitt var hjá sveitarfélögum árið 2002 og Stavey og Drífandi eru meðal annarra aðilar að. Starfsmatskerfið byggir á fjórum meginþáttum: 1) þekkingu og reynslu, 2) álagi, 3) ábyrgð og vinnuaðstæðum og 4) sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Í samningum var gert ráð fyrir að innleiðingu yrði lokið fyrir 1. júní 2018. Innleiðingin tafðist töluvert, en nýbúið er að ljúka henni hjá flestum BHM félögum sem starfsmenn Vestmannaeyjabæjar eiga aðild að. Áætlaður kostnaðarauki vegna leiðréttinga launa þeirra 14 starfsmanna Vestmannaeyjabæjar sem falla þar undir er um 3,8 m.kr. frá 1. júní 2018 til 31. mars 2019 og um 4,5 m.kr. á ársgrundvelli.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ljúka gerð endurútreiknings launa skv. starfsmatskerfinu fyrir umrædda starfsmenn Vestmannaeyjabæjar.

     

8.

Starfshópur um framtíðarskipan ferðamála í Vestmannaeyjum - 201808046

 

Á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja sem haldinn var þann 14. janúar 2019, var samþykkt tillaga samráðshóps um framtíðarskipan ferðamála í Vestmannaeyjum, um að breyta fyrirkomulagi á skipulagi ferðamála þannig að hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu komi í meira mæli að stjórnun og umsjón ferða- og markaðsmála á vegum bæjarins. Jafnframt var samþykkt að skipa þriggja manna stjórn sem tekur ákvörðun um útgjöld til markaðsmála sem og annarra aðgerða til framdráttar ferðaþjónustunni. Þá var ákveðið að framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs gerði drög að samkomulagi við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja um fyrirkomulag úthlutunar og framkvæmd verkefnsins.

Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs kynnti fyrir bæjarráði drög að umræddum samningi við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja. Gert er ráð fyrir að um 60% fjárveitingarinnar fari til beinna aðgerða í kynningar og markaðsmálum til framdráttar ferðaþjónustunni, tæp 30% til samstarfs við Markaðsstofu Suðurlands skv. samningi þar um og rúm 10% til reksturs upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

     

9.

Beiðni Lista- og menningarhóps Vestmannaeyja um húsnæði til leigu - 201904017

 

Bæjarráði barst bréf frá Lista- og menningarhópi Vestmannaeyja dags. 28. mars sl., þar sem óskað er eftir því að fá til leigu hluta af húsnæði Vestmannaeyjabæjar að Strandvegi 30, efri hæð, undir vinnustofur.

Lista- og menningarfélag Vestmannaeyja er nýstofnað og er hlutverk þess að efla lista- og menningarlíf í Eyjum og starfa sem einskonar regnhlífarsantök um hagsmuni félagsmanna. Félagið er opið öllu lista- og menningarfólki í Vestmannaeyjum sem hefur áhuga á að eiga aðild að því. Öllum félagsmönnum verður boðið að vera með á þeim sýningum og gjörningum sem félagið mun standa fyrir.

Félagið hyggst starfrækja vinnustofur í húsnæðinu fyrir myndlistarfólk, ljósmyndara og handverksfólk. Samkvæmt lauslegu mati þarf félagið um 400 fermetra rými undir vinnustofurnar. Kostirnir við umbeðið húsnæði er staðsetning þess, stærð og gerð rýmisins.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir erindi Lista- og menningarfélags Vestmannaeyja. Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og framkvæmdastjóra umhverfis og tæknisviðs falið að ljúka gerð samkomulags við félagið um umrætt húsnæði.

     

10.

Tilnefning fulltrúa við mótun Sóknaráætlunar Suðurlands 2020-2024 - 201904016

 

Bæjarstjóra barst ósk frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga um tilnefningu fjögurra fulltrúa á samráðsvettvang um Sóknaráætlun Suðurlands fyrir árin 2020 til 2024. Fyrsti fundur samráðshópsins verður haldinn á Hótel Selfossi þann 23. maí nk.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar

     

11.

Fundargerðir Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga - 201904018

 

Á dögunum funduðu Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, Njáll Ragnarsson formaður bæjarráðs og Helga Kristín Kolbeins, bæjarfulltrúi með bæjarstjórum og fulltrúum Fjarðarbyggðar og Hornafjarðar um stöðu mála í sjávarútvegi. Var þar meðal annars rætt að innan stjórnar samtaka sjávarútvegssveitarfélaga hefur loðnubrestur ekki verið tekinn fyrir og ræddur. Sætir það furðu þar sem um gríðarlega hagsmuni er að ræða fyrir uppsjávarsveitarfélög.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð furðar sig á því að stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga hafi ekki fjallað um stöðuna sem upp er komin í uppsjávarveiðum, þar sem tilgangur samtakanna er að standa vörð um hagsmuni aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í öllum málum sem tengjast nýtingu auðlinda í veiðum, sjókvíaeldi og vinnslu.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að halda samtalinu við Fjarðabyggð og Sveitarfélagið Hornafjörð áfram með það fyrir augum að tryggja að raddir uppsjávarsveitarfélaga heyrist innan fyrrnefndra samtaka. Ekki verður við það unað að hagsmunasamtök sveitarfélaga í sjávarútvegi átti sig ekki á grafalvarlegri stöðu sem upp er komin í uppsjávarveiðum. Meta þarf í framhaldinu hvort hagsmunum Vestmannaeyjabæjar sé best borgið með áframhaldandi þátttöku í samtökunum.

     

12.

Forkaupsréttur á Álsey VE-2 - 201904015

 

Bæjarskrifstofunum barst erindi frá Ísfélagi Vestmannaeyja hf., dags 1. apríl 2019., þar sem Vestmannaeyjabæ er boðinn forkaupsréttur að Álsey VE-2 með vísan til 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í erindinu kemur fram að verði af sölu skipsins, seljist það án aflahlutdeilda og aflareynslu

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar Ísfélagi Vestmannaeyja hf. fyrir upplýsingarnar um fyrirhugaða sölu skipsins og áréttingu um forkaupsrétt Vestmannaeyjabæjar með vísan til laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þar sem skipið verður selt án aflahlutdeilda telur bæjarráð ekki forsendur fyrir því að nýta forkaupsréttinn í þessu tilviki og fellur því frá honum.

     

13.

Kaupsamningur um tæki og tól til reksturs kvikmyndahúss - 201904020

 

Bæjarráð fjallaði um drög að kaupsamningi Vestmannaeyjabæjar við þrotabú Kvikmyndafélagsins ehf., um kaup á tækjum og búnaði til að halda úti rekstri kvikmyndahúss í Kviku. Kaupverð tækjanna og sundurliðaðar upplýsingar um hvaða tæki um ræðir eru tilgreindar í fylgiskjali kaupsamningsins. Verðmæti tækjanna árið 2017 var skv. reikningum frá þeim tíma kr. 10.632.141. Kaupverð tækjanna skv. kaupsamningi við þrotabúið nemur nú kr. 5.500.000.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi kaupsamning og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og fjármálastjóra að ganga frá kaupunum. Jafnframt felur bæjarráð fjármálastjóra að ganga frá viðauka við fjárhagsáætlun 2019 að upphæð kr. 5.500.000 vegna tækjakaupanna.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:15

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159