14.06.2019

Bæjarráð - 3101

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3101. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

14. júní 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Skipan stjórnar Herjólfs - 201906043

 

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði óskaði eftir aukafundi í bæjarráði til þess að ræða efasemdir fulltrúa flokksins um lögmæti skipunar stjórnar Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., þ.e. annars vegar hvort bæjarstjóra hafi borið að skila inn umboði á aðalfund félagsins frá bæjarstjórn Vestmannaeyja og hins vegar að tillögur um stjórn, ráðstöfun hagnaðar og stjórnarlaun hafi ekki borist 5 dögum fyrir fund og ekki verið borin upp sérstök tillaga um að falla frá 5 daga reglunni.

   
 

Niðurstaða

 

Jóhann Pétursson, lögmaður kom á fund bæjarráðs og fór yfir umsögn sína um lögmæti skipunar stjórnar Herjólfs ohf.
Niðurstaða bæjarráðs er í samræmi við umsögn Jóhanns um að bæjarstjóri hafi haft skýrt umboð f.h. Vestmannaeyjabæjar til að mæta á aðalfund Herjólfs ohf. og taka ákvarðanir f.h. hluthafans eins og samþykktir félagsins gera ráð fyrir, án þess að leita eftir sérstöku skriflegu umboði bæjarstjórnar. Þá er það jafnframt niðurstaða bæjarráðs að hin svokallaða 5 daga regla sé ekki skilyrði hér, þar sem skylt er skv. lögum og samþykktum félagsins að taka fyrir á aðalfundi umrædd mál. Allra þessara mála var getið í dagskrá og fundarboði fyrir aðalfundinn og skýrt er í hutafélagalögum að aðalfundur geti ávallt afgreitt mál sem skylt er að taka til meðferðar skv. lögum. Eini hluthafi félagsins lagði fram fyrrgreindar tillögur og samþykkti þær. Fyrir liggur samþykki hluthafans fyrir þessari tilhögun á fundinum og fyrrgreindar tillögur rétt fram bornar og samþykktar.
Tilefni er til að gleðjast þar sem nýr Herjólfur er væntanlegur til Vestmannaeyja á morgun. Undirbúningur móttökuathafnar gengur vel og samvinna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Herjólfs ohf. og Vestmannaeyjabæjar um skipulagningu móttökunnar verið mjög góð. Laugardagurinn 15. júní 2019 verður stór dagur fyrir Eyjamenn þegar ný ferja verður afhent heimamönnum. Um er að ræða mikla samgöngubót í Landeyjarhöfn fyrir Eyjamenn og landsmenn alla. Móttakan hefst kl. 14:15 á morgun og eru bæjarbúar og aðrir gestir hvattir til að koma niður á Friðarhöfn, gera sér glaðan dag og skoða ferjuna.
Samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa E-lista og H-lista, gegn einu atkvæði fulltrúa D-lista.

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að niðurstöðu:
Í ljósi þess að stjórnarmenn hafa gert alvarlegar athugasemdir við framkvæmd og lögmæti aðalfundar Herjólfs ohf. og vafi er talinn leika á því að skipun stjórnar félagsins sé lögmæt, er mikilvægt að bregðast við strax.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjóra að boðað verði til hluthafafundar eins fljótt og verða má og að stjórn verði skipuð eftir umfjöllun bæjarstjórnar til að eyða þeirri óvissu sem nú ríkir um skipan stjórnar.
Felld með tveimur atkvæðum E- og H-lista gegn einu atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Bókun lögð fram af fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa leitað umsagnar lögmanna um aðalfund Herjólfs ohf. Í framhaldi af því telja bæjarfulltrúar eftirfarandi ljóst:
1. Aðalfundur Herjólfs sem haldinn var 31. maí sl. var ekki í samræmi við það vandaða verklag sem áskilið er við framkvæmd aðalfunda. Vinnubrögð og framganga bæjarstóra voru til þess fallinn að skapa óvissu og skaða hagsmuni félagsins.
2. Samkvæmt hlutafélagalögum og samþykktum Herjólfs ohf. ber að tilkynna skriflega tillögur þar með talin tillögu að skipun stjórnar skemmst fimm dögum fyrir hluthafafund, þetta var sérstaklega ítrekað í fundarboði hluthafafundar. Tillaga að stjórn var fyrst tilkynnt á aðalfundinum sjálfum, án vitneskju bæjarfulltrúa og stjórnarmanna. Þessi tímafrestur var því ekki virtur, sem dregur úr lögmæti fundarins og ákvörðunum hans.
3. Það er fullkomlega óeðlilegt og ólýðræðislegt að meirihluti bæjarstjórnar telji að samþykkis bæjarstjórnar þurfi t.d. við skipan skólanefndar framhaldsskólans í Vestmannaeyjum en það sama gildi ekki við skipan í stjórn opinbers hlutafélags sem er í fullri eigu Vestmannaeyjabæjar. Bæjarstjóri geti þannig hagað skipan í stjórn, ákvörðun þóknunar stjórnarmanna og stefnu stjórnar eftir fullkomnum geðþótta. Slík stjórnsýsla telst einræði og ætti ekki að líðast í því lýðræðissamfélagi sem við viljum tilheyra.
4. Þar sem fyrir liggur að framganga bæjarstjóra hefur valdið óvissu telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikilvægt að leitað verði formlegrar umsagnar Fyrirtækjaskrár RSK sem hefur eftirlit með hlutafélögum hér á landi skv. 152. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995.
5. Til að draga úr skaðanum vegna ofangreinds vinnulags, óska bæjarfulltrúar eftir því við fulltrúa sína í stjórn að þeir gæti áfram hagsmuna bæjarbúa á þann vandaða hátt sem þeir hafa gert hingað til þar til óvissu hefur verið eytt.
Tillaga: Bæjarráð felur bæjarstjóra að leita formlegrar umsagnar Fyrirtækjaskrár RSK um hvort framkvæmd aðalfundar Herjólfs ohf. hafi verið í samræmi við lög, reglur og hefðir þar að lútandi. Að gefnu tilefni skal erindi bæjarstjóra til Fyrirtækjaskrár samþykkt af bæjarráði áður en það er sent.
Felld með tveimur atkvæðum fulltrúa E- og H-lista, gegn einu atkvæði fulltrúa D-lista.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:55

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159