02.07.2019

Bæjarráð - 3103

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3103. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

2. júlí 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

  

Fundargerð ritaði:  Sigurbergur Ármannsson, fjármálastjóri

 

Dagskrá:

 

1.

Fjögurra mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar - 201906129

 

Fjögurra mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar lagt fram fyrir bæjarráð. Ennfremur var rekstraryfilit 30.04.2019 lagt fyrir bæjarráð þar sem niðurstaða málaflokka er borin saman við fjárhagsáætlun 2019.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð lýsir ánægju með stöðu bæjarsjóðs fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins, þrátt fyrir loðnubrest fyrr á árinu. Tekjur eru hærri en á sama tíma í fyrra og skatttekjur í samræmi við fjárhagsáætlun. Þá er rekstrarkostnaður jafnframt samkvæmt áætlun. Miðað við stöðu bæjarsjóðs var það rétt ákvörðun meirhluta bæjarráðs að taka ekki upp fjárhagsáætlun í mars síðastliðnum. Það er ábyrgðarhluti að taka upp fjárhagsáætlun, sér í lagi þegar ekki liggja fyrir forsendur fyrir slíku. Mikilvægt er að fylgjast áfram vel með og bregðast við ef aðstæður breytast í rekstri bæjarins.
Sammþyktt með 2 atkvæðum H- og E-lista, bæjarráðsmaður D-lista sat hjá.

Bókun frá bæjarráðsmanni D-lista
Augljóst er að bæjarsjóður og rekstur hans gengur vel en áratugalöng vinna Sjálfstæðismanna við að greiða niður skuldir og hagræða eins og kostur hefur verið hefur m.a. tryggt þá eftirsóknarverðu fjárhagsstöðu sem sveitarfélagið er í í dag og er öfundsverð af mörgum.
Þrátt fyrir sterka stöðu bæjarsjóðs getur þó reynst auðvelt að missa tök á rekstrinum á stuttum tíma ef aðhalds er ekki gætt til hins ítrasta.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)

     

2.

Umboð til starfsmanna vegna umsýslu - 201906128

 

Fyrir bæjarráði lá fyrir umboð til að hver sá er gegnir stöðu bæjarstjóra eða framkvæmdarstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs hafi umboð til að skrifa undir pappíra er varða kaup og sölu á fasteignum.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð staðfestir umboðið og felur starfsmönnum stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar að ganga frá því til þinglýsingar eftir að bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar hefur staðfest það á fundi 11. júlí n.k.

     

3.

Forkaupsréttur á Sleipni VE-89 - 201906121

 

Erindi frá Útgerðarfélaginu Glófaxi ehf. dags. 26. júní s.l. þar sem Vestmannaeyjabæ er boðin forkaupsréttur að Sleipni VE-89 með vísan til 3. mgr. 12 gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Í erindinu kemur fram að skipið er selt án aflahlutdeilda, aflamarki og hverskonar öðrum afla- og veiðiheimildum og viðmiðun aflareynslu og annara réttinda.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf. fyrir tilboðið um forkaupsrétt þann sem kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða. Þar sem skipið er selt án aflahlutdeilda og annara réttinda telur bæjarráð hinsvegar ekki forsendur fyrir því að nýta forkaupsréttinn í þessu tilviki og fellur því frá honum.

     

4.

Umræða um heilbrigðismál - 201810114

 

Fyrir bæjarráði lá fyrir svarbréf frá forstjóra HSU vegna erindis sem sent var á hana í mars s.l.þar sem bæjarráð óskaði eftir upplýsingum um framtíðarsýn yfirstjórnar HSU á starfsemi stofnunarinnar í Vestmannaeyjum og stöðu mála er varða þyrslusjúkraflug.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð sendi forstjóra HSU bréf í mars síðastliðnum þar sem óskað var eftir upplýsingum um framtíðarsýn yfirstjórnar HSU á starfsemi stofnunarinnar í Vestmannaeyjum og upplýsingum um stöðu mála er varða þyrlsusjúkraflug. Þann 18. júní sl., barst bæjarráði svarbréf frá forstjóra HSU sem bæjarráð tók til umfjöllunar á fundi sínum í dag. Í ljósi mikilvægi starfseminnar fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum og þess að síðar í sumar verður ráðið í stöðu forstjóra HSU ákvað bæjarráð að gefa sér tíma til að fara yfir svörin og ákveða næstu skref.

     

5.

Sveitarfélögin og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna - 201902004

 

Þann 26. júní sl., barst bæjarstjóra bréf frá Sambandi íslenskra Sveitarfélaga, sem innihélt samþykkt stjórnar sambandsins frá fundi sem haldinn var 21. júní 2019. Í samþykktinni er að finna yfirlýsingu um samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og einnig áskorun um að bæjarstjórn samþykki yfirlýsinguna. Búið er að boða til aukalandsþings sambandsins þann 6. september nk., um stefnumótun sveitarfélaga vegna fyrrgreindra mála.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir yfirlýsinguna sem samþykkt var á undirbúiningsfundi sveitarfélganna 19. júní sl.
Stofnfundur samráðsvettvangs sveitarfélaganna um loftslagsmál og heimsmarkmið SÞ, sem fram fer í Reykjavík 19. júní 2019, skorar á sveitarstjórnir um allt land að standa að svohljóðandi yfirlýsingu:
Sveitarstjórn fagnar því frumkvæði sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið með stofnun samráðsvettvangs, sem ætlaður er sveitarfélögum landsins til samstarfs og samráðs um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Sveitarstjórn telur brýnt að ríki og sveitarfélög grípi nú þegar til markvissra og samstilltra aðgerða til að mæta áskorunum samtímans á sviði loftslagsmála og aðlaga íslenskt samfélag að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga. Einn mikilvægasti liðurinn í því aðkallandi starfi er að íslenskt samfélag verði lagað að kröfum sjálfbærrar þróunar. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt gagnlegan grunn að slíku starfi með heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun.
Sveitarstjórn lýsir sig tilbúna til þátttöku í samráðsvettvanginum með þátttöku í fundum og viðburðum um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Á sínum vettvangi mun sveitarstjórn beita sér fyrir markvissum aðgerðum og stefnumótun í átt til aukinnar sjálfbærni og kolefnishlutleysis. Fulltrúar sveitarfélagsins munu einnig, eftir því sem tilefni er til og aðstæður leyfa, taka þátt í miðlun þekkingar, þróun mælinga á árangri og öðru samstarfi sem tengist samráðsvettvanginum.

     

6.

Þakleki á sundlaugargangi í Íþróttamiðstöð - 201903126

 

Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs nr. 235 frá 18. júní s.l. var samþykkt að nauðsynlegt væri að ráðast í viðgerðir vegna þakleka á sundlaugargangi í Íþróttamiðstöð. Ekki var gert ráð fyrir framkvæmdini í fjárhagsáætlun 2019 og óskaði ráðið eftir aukafjárveitingu á árinu 2019 upp á 55 m.kr. vegna framkvæmdanna.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir fjárveitinguna og felur fjármálastjóra Vestmannaeyjabæjar að setja fjárveitinguna inn í viðauka sem er verið að vinna í vegna fjárhagsáætlunar 2019 og leggja viðaukan í framhaldinu fyrir bæjarráð.

     

7.

Erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu - 201902084

 

Vestmannaeyjabæ barst bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dagsett 11. júní sl., þar sem fjallað er um ósk Helgu Kristínar Kolbeins, bæjarfulltrúa, um úrskurð ráðuneytisins um hvort heimilt hafi verið að ráðast í úttekt á framkvæmdum við Fiskiðjuhúsið eftir að sú úttekt var samþykkt í bæjarráði með tveimur atkvæðum gegn einu. Snýr umrætt mál að því að þar sem ekki lág fyrir samþykki allra bæjarfulltrúanna þriggja eftir bæjarráðsfundinn, hafi bæjaryfirvöldum ekki verið heimilt að ráðast í gerð úttektarinnar fyrr en bæjarstjórn hafi fjallað um málið. Vildi Helga Kristín kanna hvort brotin hefðu verið lög og samþykktir með þessu og að ráðuneytið tæki það fyrir til skoðunar sem frumkvæðismál á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga.

   
 

Niðurstaða

 

Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að ekki er ágreiningur um að sú tillaga sem þetta mál snýr að rúmist innan fullnaðarafgreiðsluheimilda bæjarráðs. Við mat á því hvort heimilt hafi verið að hrinda umræddri ákvörðun í framkvæmd, án staðfestingar bæjarstjórnar, telur ráðuneytið það ekki í samræmi við orðalag sveitarstjórnarlaga og sambærilegs ákvæðis bæjarmálasaþykktar, þar sem mótatkvæði kom fram í bæjarráði. Hins vegar var ekki um viðamikla ákvörðun að ræða og telur ráðuneytið ekki tilefni til sérstakra aðgerða af sinni hálfu vegna þessa.
Bæjarráð vill leggja áherslu á að fara að lögum og samþykktum og tekur tillit til þeirra ábendinga sem koma fram í svari ráðuneytisins um að um ágalla hafi verið að ræða. Mikilvægt er að bæta það sem betur má fara.
Samþykkt með tveimur atkvæðum bæjarráðsmanna H- og E-lista gegn atkvæði bæjarráðsmanns D-lista.

Bókun frá bæjarráðsmanni D-lista.
Afdráttarlaus úrskurður samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytis liggur nú fyrir eftir frumkvæðisskoðun ráðuneytisins á stjórnsýsluháttum Vestmannaeyjabæjar vegna úttektar á framkvæmdakostnaði við Fiskiðjuna. Úrskurðurinn er áfellisdómur yfir stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar. Samkvæmt úrskurðinum var Vestmannaeyjabæ óheimilt að hrinda í framkvæmd úttekt á framkvæmdakostnaði við Fiskiðjuna áður en fundargerð bæjarráðs var staðfest í bæjarstjórn þar sem mótatkvæði gegn úttektinni kom fram í bæjarráði og gerðust bæjaryfirvöld þar með brotleg við 35. grein sveitarstjórnarlaga og 30. Grein bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar.
Tregða bæjarfulltrúa H- og E-lista við að viðurkenna misgjörðir sínar í umræddu máli varð til þess að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendu kvörtun til ráðuneytis sem að endingu sendi bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar fyrrnefndan úrskurð og umvöndun þar sem því er sérstaklega beint til Vestmannaeyjabæjar að fylgja framvegis sveitarstjórnarlögum. Ánægjulegt er að heyra eftirsjá og auðmýkt í bókun meirihluta bæjarráðs en Reynsluleysi bæjarfulltrúa getur á engan hátt verið afsökun fyrir valdníðslu eða því að löglegir stjórnsýsluhættir séu vanvirtir. Framganga meirihlutans varð til þess að ekkert varð af eðlilegri lýðræðislegri umfjöllun um málið í bæjarstjórn, en bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hugðust leggja fram breytingartillögu vegna málsins. Það reyndist ekki mögulegt þar sem málið var þá komið í farveg án lagalegra heimilda.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)

Bókun frá bæjarráðsmönnum H- og E-lista.
Það er erfitt að sjá að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi uppskorið árangur erfiðis síns með umræddri ósk um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið meðhöndli afgreiðslu bæjaryfirvalda sem lögbrot. Þvert á móti telur ráðuneytið enga ástæðu til að hlutast frekar til um ágallann, enda um viðalítið mál að ræða sem samþykkt var hálfum mánuði síðar í bæjarstjórn.
Vakin er athygli á tvennu:
1) Ákvörðun um framkvæmd úttektar á Fiskiðjunni hefði í sjálfu sér ekki þurft að bera undir bæjarráð. Kostnaður vegna úttektarinnar var um 400 þús. kr. og rúmast vel innan heimilda framkvæmdastjóra sveitarfélagsins um aðkeypta sérfræðiaðstoð. Hafa slík kaup á utanaðkomandi sérfræðiþjónustu tíðkast í gegnum tíðina án sérstakrar ákvörðunar bæjarráðs þar um.
2) Vakin er athygli á því að einungis hálfum mánuði eftir bæjarráðsfundinn staðfesti bæjarstjórn ákvörðun bæjarráðs um að fela KPMG að framkvæma úttektina. Málið snýr því um hvort formgallar hafi verið á meðferð þess.
Það er sérstakt til þess að hugsa að fulltrúa Sjálfstæðisflokksins skuli vera svo umhugað um sveitarstjórnarlög, bæjarmálasamþykktir og álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á máli sem varðar svo litla fjárhæð og snýr að aðkeyptri þjónustu, svo stuttu eftir að sami flokkur hafi haft að engu lög frá Alþingi og alvarlegar athugasemdir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um álagningu fasteignaskatts í tíð þeirra. Ekki hafi eingöngu verið um formgalla að ræða í því tilviki, heldur meðvitað og kerfisbundið staðið að rangri álagningu skatts og álit ráðuneytisins, sem meira að segja hótaði endurálagningu, virt að vettugi.
Njáll Ragnarssons (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)

Bókun frá bæjaráðsmanni D-lista
Í bókun meirihluta bæjarráðs er vísað í ákvörðun meirihluta Sjálfstæðismanna um ákvörðun sína um að fella niður fasteignagjöld á eldri borgara sem var unnin í góðri samvinnu við þáverandi minnihluta og virðing sannarlega borin fyrir lýðræðislegri umfjöllun í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Í því dæmi sem hér um ræðir var ekki fyrir neinni samvinnu flokka að ræða heldur gekk meirihluti fram í trássi við samþykktir Vestmannaeyjabæjar og sveitarstjórnarlög.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)

     

8.

Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð - 200708078

   
 

Niðurstaða

 

Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka trúnaðarmálafundargerð.

     
                                                        

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:10

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159