11.07.2019

Bæjarstjórn - 1549

 

Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1549. fundur

Bæjarstjórnar Vestmannaeyja

haldinn í Einarsstofu safnahúsi,

11. júlí 2019 og hófst hann kl. 18:00

 

 

Fundinn sátu:

Elís Jónsson forseti, Njáll Ragnarsson aðalmaður, Íris Róbertsdóttir   aðalmaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður og Helga Kristín Kolbeins aðalmaður.

 

 

Fundargerð ritaði:  Sigurbergur Ármannsson, fjármálastjóri

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Kosning í ráð, nefndir og stjórnir skv. 44.gr samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar - 201906110

   
 

Niðurstaða

 

Arnar Richardsson skipaður aðalmaður í framkvæmda- og hafnarráði í stað Guðmundar Ásgeirssonar.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Kosning formanns og varaformanns framkvæmda- og hafnarráðs.

Tillaga frá bæjarfulltrúum D-lista
Þar sem fyrir liggur að breyta eigi um formennsku í ráði sveitarfélagsins leggja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut mest fylgi allra flokka í síðustu kosningum að honum verði veitt formennska í framkvæmda- og hafnarráði. Slík ráðstöfun myndi tryggja aukið lýðræði, bætt samstarf og aukna valddreifingu við stjórn Vestmannaeyjabæjar en slíkt fyrirkomulag þekkist t.d. í störfum Alþingis þar sem stjórnarandstöðuflokkar fengu við upphaf þings formennsku í 3 nefndum. Því leggja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til við bæjarstjórn Vestmannaeyja að Sigursveinn Þórðarson verði formaður framkvæmda- og hafnarráðs.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum H- og E-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu og lagði fram eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þykir miður að meirihlutinn felli tillögu Sjálfstæðisflokksins í viðleitni sinni um að auka samstarf, auka lýðræði og auka valddreifingu og hunsi þannig stærsta stjórnmálaaflið i sveitarfélaginu og þar með vilja kjósenda. Það er ekki óeðlilegt í lýðræðisríki að sá stjórnmálaflokkur sem mest fylgi fær í lýðræðislegum kosningum, fái formennsku í nefndum. Sjálfstæðisflokkur lýsir sig ávallt reiðubúinn til að axla þá ábyrgð að taka formennsku í ráði ef til hans verður leitað.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)
Trausti Hjaltason (sign)

Tilnefnd frá H- og E-lista var Kristín Hartmannsdóttir
Kristín Hartmannsdóttir kosin formaður með fjórum atkvæðum H- og E-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.
Stefán Jónasson var kosin með varaformaður með sjö samhljóða atkvæðum.

     

 

 

 

 

 

 

     

2.

Fræðsluráð - 319 - 201906013F

 

Liðir 1-4 liggja fyrir til staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Liðir 1-4 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Helga Kristín gerði grein fyrir atkvæði sínu og lagði fram bókun sem öll bæjarstjórn tók undir.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsa ánægju með að Grunnskólinn í Vestmannaeyjum hafi sótt um og fengið styrk til að takast á við verkefnið ,,Forritun færni til framtíðar”. Verkefnið er metnaðarfullt og kemur til með að nýtast nemendum grunnskólans til að verða færari við að taka á þeim áskorunum sem bíða þeirra.
Helga Kristín Kolbeins (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Elís Jónsson (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)

     

3.

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3103 - 201906011F

 

Liður 1, Fjögurra mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.
Liður 7, Erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.
Liðir 2-6 og 8 liggja fyrir til staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Við umræðu um lið 1, Fjögurra mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar tóku til máls: Íris Róbertsdóttir og Trausti Hjaltson,

Bókun frá bæjarfulltrúum H- og E-lista
Bæjarstjórn tekur undir bókun bæjaráðs og lýsir ánægju með stöðu bæjarsjóðs fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins, þrátt fyrir loðnubrest fyrr á árinu. Tekjur eru hærri en á sama tíma í fyrra og skatttekjur í samræmi við fjárhagsáætlun. Þá er rekstrarkostnaður jafnframt samkvæmt áætlun. Það er ábyrgðarhluti að taka upp fjárhagsáætlun, sér í lagi þegar ekki liggja fyrir forsendur fyrir slíku. Mikilvægt er að fylgjast áfram vel með og bregðast við ef aðstæður breytast í rekstri bæjarins.
Íris Róbertsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)

Bókun frá bæjarfulltrúm D-lista.
Það er alrangt að tala um að það hafi verið rétt ákvörðun að taka ekki upp fjárhagsáætlun, enda hafa áhrif loðnubrests ekki komið fram enn, þar sem útsvarstekjur eru einungis áætlaðar fyrstu 4 mánuði ársins sem meðaltal mánaðanna á undan. Raunverulegar tekjur fyrstu 4 mánaða ársins koma því ekki í ljós fyrr en árið er gert upp í febrúar 2020. Þessu má líkja við álagningu hitaveitu sem er áætluð út frá notkun síðasta árs en er síðan gerð upp eftir að búið er að lesa af mælunum. Það er því eðlilegt að áætlaðar skatttekjur séu samkvæmt áætlun, enda liggja ekki réttar tölur fyrir enn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka því fyrri bókanir sínar um að gæta aðhalds í rekstri og hagræða þegar færi gefst.
Trausti Hjaltason (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)

Liður 1, Fjögurra mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar var samþykktur með 4 atkvæðum H- og E-lista, bæjarfulltrúar D-lista sátu hjá við atkvæðagreiðslu.

Við umræðu um lið 7, Erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu tóku til máls: Helga Kristín Kolbeins, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Njáll Ragnarsson, Trausti Hjaltason og Íris Róbertsdóttir.

Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir það sem kemur fram við afgreiðslu úrskurðar ráðuneytisins í bæjarráði 2. júlí, að um ágalla hafi verið að ræða við framkvæmd málsins og að tekið verði tillit til þeirra ábendinga sem koma fram í bréfi frá ráðuneyti. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka að í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að orðalag laganna sé skýrt og að meirihluti bæjarstjórnar hafi brotið 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga og 8. mgr. 30. gr. bæjarmálasamþykktar.
Helga Kristín Kolbeins (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)

Bókun frá bæjarfulltrúum H- og E-lista.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur sent svar þar sem fram koma ábendingar um ágalla, en jafnframt telur ráðuneytið málið svo viðalítið að ekki sé tilefni til sérstakra aðgerða. Auk þess hafi það verið samþykkt í bæjarstjórn hálfum mánuði síðar og því staðfest að hefja umrædda úttekt. Búið er að ræða bréf ráðuneytisins í bæjarráði þar sem bæjarráð kveðst vilja vanda vinnubrögð og taki tillit til ábendinga ráðuneytisins. Meirihluti bæjarstjórnar tekur undir niðurstöðu bæjarráðs.
Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)

Liður 7, Erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu var samþykktur með fjórum akvæðum H- og E-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.

Liðir 2-6 og 8 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

     

4.

Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 236 - 201906010F

 

Liður 1, Skipurit Vestmannaeyjahafnar liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.
Liðir 2-3 liggja fyrir til staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Við umræðu um lið 1, Skipurit Vestmannaeyjahafnar tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Íris Róbertsdóttir, Helga Kristín Kolbeins, Trausti Hjaltason og Njáll Ragnarsson.

Bókun frá bæjarfulltrúum H- og E-lista.
Meirihluti bæjarstjórnar tekur undir niðustöðu framkvæmda- og hafnaráðs um skipan starfshóps til að meta kosti þess og galla að teki verði upp staða hafnarstjóra á ný.
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Elís Jónsson (sign)

Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera athugasemdir við að stofnaður sé starfshópur um umrætt mál þegar vilji meirihluta bæjarstjórnar, með nokkuð ítarlegum útfærslum á framkvæmdinni og með einhvers konar rökstuðningi, hefur nú þegar verið opinberaður í málgagni H-listans. Umræddur starfshópur mun því eiga nokkuð erfitt að starfa á hlutlausum grundvelli.
Engar formlegar kvartanir hafa borist vegna þess að ekki sé til staðar hafnarstjóri í sveitarfélaginu og því erfitt að sjá hvaða ástæður liggja að baki því að það sé nú til skoðunar að endurvekja stöðugildið á sama tíma og tilhneiging er hjá öðrum sveitarfélögum, t.d. nýverið hjá Fjarðarbyggðarhöfn sem er næst stærsta höfn landsins að leggja niður embættið.
Helga Kristín Kolbeins (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)


Liður 1, Skipurit Vestmannaeyjahafnar var samþykktur með fjórum atkvæðum H- og E-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.

Liðir 2-3 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

     

5.

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 308 - 201907001F

 

Liður 1, Skipulag tjaldsvæða á þjóðhátíð liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.
Liður 2, Deiliskipulag á athafnasvæði AT-1 við Græðisbraut liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.
Liðir 3-13 liggja fyrir til staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Við umræðu um lið 1, Skipulag tjaldsvæða á þjóðhátíð tóku til máls: Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Trausti Hjaltason, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Íris Róbertsdóttir og Njáll Ragnarsson.

Bókun frá bæjarfulltrúum E- og H-lista.
Niðurstaðan ráðsins, sem er samhljóma, er tvíþætt í fyrsta lagi bráðabirgðalausn fyrir árið 2019 og í öðru lagi framtíðarlausn á tjaldsvæðum fyrir þjóðahátíð.
Fulltrúar E- og H-lista leggja ríka áherslu á að unnið sé í sátt við íbúa fyrst og fremst, enda búið að ákveða að fara með tjaldsvæðin annað og gerðar verða mun ríkari kröfur á rekstraraðila tjaldsvæða varðandi bráðabirgðalausn fyrir árið 2019.
Vinna við framtíðartjaldsvæði fyrir þjóðhátíð mun halda áfram og unnin með hagsmunaaðilum. Mikilvægt er að vanda vinnubrögð og gefa sér þann tíma sem til þarf.
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Elís Jónsson (sign)

Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista.
Það eru vonbrigði að málið skuli ekki vera komið lengra þrátt fyrir að starfshópur um umrædd tjaldsvæði hafi verið skipaður fyrir tæpu ári síðan. Fyrirheit meirihlutans um að finna nýtt tjaldsvæði gáfu íbúum væntingar um að málið yrði afgreitt og eru vonbrigði að svo sé ekki enn. Tillögur starfshópsins fyrir framtíðartjaldsvæði þjóðhátíðar hafa því enn ekki verið staðfestar þrátt fyrir langan aðdraganda og alls óvíst hvernig framtíðarskipulag verður á tjaldsvæðum þjóðhátíðar.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Helga Kristín Kolbeins(sign)

Liður 1, Skipulag tjaldsvæða á þjóðhátíð var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 2, Deiliskipulag á athafnasvæði við AT-1 við Græðisbraut var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 3-13 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

 

6.

Afmælis- og goslokahátíð helgina 4-7 júlí 2019. - 201907045

   
 

Niðurstaða

 

Við umræðu um málið tóku til máls: Elís Jónsson og Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Bókun
Óhætt er að segja að 100 ára kaupstaðarafmæli og Goslokahátíð dagana 4.-7. júlí sl., hafi tekist með eindæmum vel. Vegna 100 ára kaupstaðarafmælisins var hátíðin í ár sérstaklega fjölbreytt og viðamikil. Viðburðir helgarinnar voru vel sóttir af Eyjamönnum og öðrum gestum. Talið er að rúmlega 5.000 gestir hafi heimsótt Vestmannaeyjar yfir helgina.
Afmælishátíðin og Goslokasetningin á Skanssvæðinu var hátíðleg þar sem saman voru komnir ungir sem aldnir til að fagna þessum merka áfanga í einni fallegustu náttúruperlu Eyjanna.
Tónleikarnir á föstudagskvöldið voru stórfenglegir og sérstaklega vel sóttir. Nánast fullt var á báða tónleika og áætla má að um 2.300 manns hafi mætt. Bæjarlífið var í blóma á laugardaginn og grill og götustemningin á Bárustíg tókst afskaplega vel. Sjaldan hafa eins margir verið samankomnir í miðbænum eins og þennan dag. Sing a long í Skvísusundi tókst sérlega vel og höfðu margir á orði að hversu frábært það var að endurvekja þessa hefð fyrri Goslokhátiða með opnum króm og lifandi tónlist.
Fjörið hélt svo áfram á Skipasandi , stemningin góð og dansað var fram undir morgun. Göngumessan var vel sótt á sunnudeginum og þá voru hinar fjölbreyttu listsýningarog viðburðir líka vel sóttir alla helgina.
Bæjarstjórn vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem stóðu að undirbúningi og skipulagningu þessarar frábæru helgar. Heilmikil vinna liggur að baki svona hátíð og dagarnir fyrir hana langir og erilsamir. Það er því fagnaðarefni að vel hafi tekist til og öllum þeim sem komu að undirbúningnum og skipulagningunni til mikilla sóma.
Elís Jónsson (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)

     

7.

Umræða um samgöngumál - 201212068

   
 

Niðurstaða

 

Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Trausti Hjaltason og Helga Kristín Kolbeins.

Bókun:
Bæjarstjórn Vestmannaeyja leggur enn og aftur áherslu á að það liggi fyrir hvernig staðið verði að viðhaldsdýpkun í Landeyjarhöfn næsta haust og vetur. Afar mikilvægt er að tryggt sé að nægt dýpi sé við Landeyjarhöfn allt árið til þess að hámarka nýtingu á nýrri Vestmannaeyjaferju í siglingum til Landeyjahafnar og til að höfnin geti orðið sú heilsárshöfn sem henni er ætlað að verða.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Elís Jónsson (sign)

     

 

 

 

Þetta er síðasti fundur bæjarstjórnar fyrir sumarleyfi, næsti fundur bæjarstjórnar er 29. ágúst nk.

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 20:20

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159