17.09.2019

Bæjarráð - 3108

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3108. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

17. september 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

Fundinn sátu:

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður og Íris Róbertsdóttir, varamaður. Njáll Ragnarsson boðaði forföll.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

Dagskrá:

 

1.

Fasteignagjöld 2020 - 201909066

 

Á fundi sínum þann 18. júní sl., fól bæjarráð fjármálastjóra sveitarfélagsins að reikna út mismunandi sviðsmyndir til lækkunar á fasteignaskatti fyrir árið 2020. Ákvörðun bæjarráðs er tilkomin af mikilli hækkun fasteignamats í Vestmannaeyjum fyrir árið 2020, eða um 16,6% af íbúðarhúsnæði og 14,7% í heildina. Til samanburðar er hækkunin á landinu öllu að meðaltali um 6%. Fasteignamat er lagt til grundvallar fasteignaskatti sem er einn helsti tekjustofn sveitarfélaga. Hækkanir á fasteignamati bitna því á húseigendum í formi aukins fasteignaskatts nema ákvörðun um annað sé tekin. Fjármálastjóri lagði fyrir bæjarráð nokkrar sviðsmyndir af fasteignaskatti fyrir árið 2020 sem voru ræddar í ráðinu.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð leggur til að fasteignaskattsálagning á íbúðarhúsnæði verði lækkuð í 0,291% fyrir árið 2020 í stað 0,33% frá fyrra ári og að álagning á atvinnuhúsnæði verði lækkuð í 1,55% í stað 1,65% frá fyrra ári. Ákvörðun þessi er í anda lífskjarasamnings verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda þar sem m.a. er kveðið á um lægri skatta og lægri opinberar álögur til að auka kaupmátt og kjarabætur lágtekjuhópa. Bæjarráð vill leggja sitt af mörkum í þeirri viðleitni.

Bókun
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins fagnar því að sporna eigi við verulegri og íþyngjandi hækkun fasteignagjalda á íbúðaeigendur í sveitarfélaginu og lýsir yfir ánægju með að samþykkt hafi verið tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá því í júní þar sem kom fram að mikilvægt væri að sveitarfélagið axli ábyrgð vegna hækkandi fasteignamats og taki ákvörðun um að álögur á íbúa muni ekki hækka. Þannig er komið í veg fyrir að hækkun á fasteignamati leiði til aukinnar tekjuöflunar sveitarfélagsins á kostnað skattgreiðenda. Vestmannaeyjar eru framúrskarandi búsetukostur fyrir margra hluta sakir og með slíkri ákvörðun gæti Vestmannaeyjabær lagt sitt af mörkum við að gera fasteignakaup og búsetu í sveitarfélaginu enn eftirsóknarverðari.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardóttir)

Bókun frá fulltrúum H-lista
Ánægjulegt er að mikil samstaða er um að lækka fasteignaskattsálagningu á íbúarhúsnæðis eins og gert var fyrir árið 2019. Einnig er líka ánægjulegt að lækka álagningu á atvinnuhúsnæði. En sú tillaga hefur ekki komið inn í bæjarráð fyrr en var samþykkt núna.
(Sign. Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Íris Róbertsdóttir)

     

2.

Fjárhagsáætlun 2020 - 201909065

 

Forsendur og tímarammi fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabæjar 2020 lagðar fyrir bæjarráð. Fjármálastjóri Vestmannaeyjabæjar fór yfir forsendur og tímaramma fjárhagsáætlunar.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi forsendur fyrir fjárhagsáætlun 2020.

Bókun frá fulltrúa D-lista
Á undanförnum þremur kjörtímabilum hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt mikla áherslu á niðurgreiðslu skulda sveitarfélagsins, hagræðingu rekstrar, ásamt því að veita öfluga og fjölbreytta þjónustu við bæjarbúa. Sú stefna hefur skilað sveitarfélaginu í fremstu röð hvað varðar m.a. efnahagslegan styrk og stöðugleika sem er forsenda framfara og bættrar þjónustu.

Eftirfarandi eru tillögur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins inn í upphaf fjárhagsáætlunarvinnu þegar forsendur fjárhagsáætlunargerðar ársins 2020 eru lagðar fram

1)
Nauðsynlegt er að halda álögum á íbúa í lágmarki. Allir bæjarbúar njóta góðs af lækkun útsvars óháð því hvaða þjónustu þeir sækja til sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn telur að sem mestur hluti af sjálfsaflafé fólks sé best varið í þeirra eigin höndum og skattgreiðendur hafi frelsi til að ráðstafa því að eigin vild. Því leggur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins til að við fjárhagsáætlunarvinnu verði skoðaðar mismunandi sviðsmyndir að varfærinni útsvarslækkun.

2)
Farið verði í undirbúning og hönnun viðbyggingu við Hamarsskólann með það að markmiði að þar rúmist framtíðarstarfsemi Tónlistarskóla Vestmannaeyja og frístundaúrræði bæjarins. Þar verði einnig gert ráð fyrir m.a. hátíðarsal og bættri aðstöðu mötuneytis nemenda. Húsnæði Tónlistarskólans þarfnast verulegra endurbóta ásamt því að bæta þarf aðstöðu í Hamarsskóla. Mikil samlegðaráhrif og rekstrarhagræðing gæti áunnist með því að hafa starfsemi þessara þriggja eininga undir sama þaki, m.a. með lækkuðum rekstrarkostnað húsnæðis, hagkvæmara starfsmannahaldi osfrv. Eins gæti fyrirkomulagið boðið upp á betri yfirsýn yfir málaflokkinn, samfelldara nám barna og mögulega veitt fjölskyldum fleiri samverustundir.

3)
Spornað verði við þenslu málaflokka eftir fremsta megni og reynt að ná fram sem mestri hagræðingu þar sem þess er frekast unnt.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardóttir)

     

3.

Náttúrugripir í Sæheimum - 201909024

 

Nú er ljóst að stór hluti þeirra safnmuna sem voru til sýnis í Sæheimum við Heiðarveg verða ekki sýndir í nýju safni Sea Life. Á þetta einkum við um uppstoppaða safnmuni og steinasafnið. Þar sem umræddur safnkostur hefur mikið menningarlegt gildi er mikilvægt að finna honum varanlegan stað og í réttum skilyrðum svo bæjarbúar geti áfram notið safnsins. Samkvæmt safnalögum ber að hafa náið samráð við Náttúruminjasafn Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytið um varðveislu safnmuna sem þessa.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð leggur til að sá safnkostur Sæheima, sem ekki verður komið fyrir í nýju safni Sea Life, verði komið fyrir tímabundið í húsnæði þar sem munirnir geta verið til sýnis við góðar aðstæður og til þess að varðveita þá. Jafnframt verði kannað hvort forstöðumaður Sagnheima geti tekið að sér ábyrgð á safnkostinum. Haft verði samráð við Náttúruminjasafn Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytið um þessa tilhögun. Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að fylgja málinu eftir.

     

4.

HS - veitur - 201909059

 

Bæjarráð ræddi þær miklu hækkanir á mælagjaldi sem HS veitur ákváðu nýlega og fól bæjarstjóra að óska eftir skýringum á gjaldskrá frá fyrirtækinu og leggja fyrir fund bæjarráðs í framhaldinu.

     

5.

Endurskoðun ráðstöfunar 5,3 % aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir - 201909060

 

Árlega er úthlutað aflamarki til sérstakra aðgerða í fiskveiðistjórnunarkerfi Íslands. Er aflamarkið, sem er 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund, dregið af leyfilegum heildarafla til að mæta áföllum, til stuðnings byggðalögum, línuívilnunar, strandveiða, rækju- og skelbóta, frístundaveiðar og til annarra tímabundinna ráðstafana til að auka byggðafestu. Í ár var úthlutað rúmlega 23 þús. þorskílgildistonnum af heildaraflanum til umræddra aðgerða.

Starfandi er starfshópur á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hefur það hlutverk að endurskoða meðferð og ráðstöfun á þessum veiðiheimildum. Starfshópurinn skal skila greinargerð og tillögum eigi síðar en 1. nóvember 2019. Þann 15. ágúst 2019 hélt starfshópurinn kynningu á störfum sínum og óskaði eftir umræðum hagsmunaaðila.

Í framhaldi af fundinum létu Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi vinna greiningu á málinu til að meta stöðu og áhrif þessara aflaheimilda á sveitarfélög og fyrirtæki á Suðurlandi. Niðurstöður greiningarinnar eru í kynningarferli á meðal sveitarfélaga á Suðurlandi. Meðal niðurstaðna er að útgerðir í Vestmannaeyjum leggja mun meira til þessa 5,3% kerfis en það sem þær nýta. Óverulegar heimildir eru nýttar í Vestmannaeyjum úr þessu kerfi á sama tíma og mestu aflamarki á Íslandi er úthlutað til útgerða í Vestmannaeyjum og því leggja útgerðirnar í Eyjum mest til kerfisins.

   
 

Niðurstaða

 

Þar sem ljóst er að útgerðir í Vestmannaeyjum leggja mun meira til umræddra 5,3% veiðiheimilda ríkisins en það sem þær hafa heimild á að nýta (þ.e. tapaðar útflutningstekjur), er eðliegt að það fari fram greining á því hvaða áhrif þetta hefur á sveitarfélagið og tillögur mótaðar um hvernig hægt væri að afnema eða lækka þessa ósanngjörnu álögur á útgerðir og tekjuskerðingu á sveitarfélög. Í slíkri greiningu mætti skoða hvaða útgerðir leggja til þessa kerfis og hvar þær eru staðsettar, hvar aflanum er landað, hann unninn, áhrif á einstök fyrirtæki í Vestmannaeyjum, verðmæti tapaðra aflaheimilda og möguleg útflutningsverðmæti þess. Mikilvægt er að ráðist sé í slíka vinnu í samstarfi við önnur sveitarfélög á Suðurlandi og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga.

     

6.

Atvinnumál - 201909001

 

Lögð voru fyrir bæjarráð drög að viljayfirlýsingu Vestmannaeyjabæjar og Fiskeldis Vestmannaeyja, um samvinnu, velvilja og áhuga á að setja á fót fiskeldisstöð á landi í Vestmannaeyjum. Þáttur Vestmannaeyjabæjar er fyrst og fremst bundinn við ráðgjöf og breytingar á deiliskipulagi, nýtingu varma frá fyrirhugaðri sorporkustöð og innviðauppbygingu í tengslum við framkvæmdina. Þáttur Fiskeldis Vestmannaeyja er bundinn við áætlanir varðandi staðsetningu, stærð, umhverfisáhrif, umfang viðskipta, fjölda starfa, fá fjárfesta og aðra samstarfsaaðila þar sem sérstökum sjónum er beint að umhverfis- og orkumálum.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að viljayfirlýsingu um uppbyggingu fiskeldis á landi í Vestmannaeyjum og felur bæjarstjóra að undirrita viljayfirlýsinguna.

     

7.

Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS - 201907118

 

Fundargerð 873. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, frá 30. ágúst sl., var lögð fram til kynningar.

     

8.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Bæjarstjóri fór yfir stöðuna varðandi dýpkun í Landeyjahöfn og samtöl þess efnis við vegamálastjóra. Viðhaldsdýpkun mun hefjast í vikunni í Landeyjahöfn og von er á nýrri dýpkunaráætlun mjög fljótlega.
Rætt var við framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. í síma, um stöðu félagsins, ástand ferjunnar og siglingar milli lands og Eyja.

     

9.

Umræða um heilbrigðismál - 201810114

 

Aukinn þungi er í allri öldrunarþjónustu hjá Vestmannaeyjabæ. Biðlisti eftir hjúkrunar- og dvalarrrýmum á Hraunbúðir lengist, fjöldi þjónustuþega í heimaþjónustu eykst og sama er með fjölda einstaklinga sem þiggja þjónustu í dagdvöl. Hlutfall eldri borgara 67ára í Vestmannaeyjum er komið í 14,57% og hefur hækkað um 1% á þremur árum. Meðalhlutfall eldri borgara á landsvísu er um 12,3%.
Vestmannaeyjabær hefur leitað eftir því við ríkið að fá heimild fyrir auknum rýmum og þá sérstaklega eftir heimild til að fá samþykki fyrir sérhæfðum dagdvalarrrýmum við Hraunbúðir fyrir fólk með heilabilun. Þessum beiðnum hefur öllum verið hafnað m.a. á þeim forsendum að ríkið þurfi að leggja áherslu á þá staði á landinu sem eru í meiri þörf.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð telur mikilvægt að bregðast við þessu aukna álagi í öldrunarþjónustu í Vestmannaeyjum og felur bæjarstjóra að ræða við heilbrigðisráðherra/heilbrigðisráðuneytið um stöðuna og ítrekar að fundin verði lausn á þeirri stöðu sem upp er komin, enda mikil þörf fyrir hendi í Vestmannaeyjum.

     

10.

Eignaskiptayfirlýsing vegna búningsaðstöðu í áhorfendastúkunni við Hásteinsvöll - 201903093

 

Framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs kom á fund bæjarráðs til þess að fara yfir drög að eignaskiptayfirlýsingu Vestmannaeyjabæjar og ÍBV íþróttafélags vegna búningsaðstöðu í áhorfendastúkunni við Hásteinsvöll.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að eignaskiptayfirlýsingu bæjarins og ÍBV íþróttafélags og felur framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að ganga frá yfirlýsingunni.
(Samþykkt með tveimur atkvæðum H-lista. Fulltrúi D-lista sat hjá)

     

11.

Framhaldsskóli Vestmannnaeyja 40 ára - 201909067

 

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (FÍV) fagnar 40 ára afmæli á þessu ári. Skólinn hélt upp á þennan frábæra áfanga á dögunum og færði bæjarstjóri, f.h. Vestmannaeyjabæjar, skólastjóra FÍV málverk að gjöf í tilefni afmælisins. Rekið hefur verið metnaðarfullt og frábært skólastarf í FÍV um árabil og er Vestmannaeyjabær stoltur af framhaldsskólanum sem er ein mikilvægasta stofnun Eyjanna með um 40 starfsmenn og yfir 200 nemendur. Bæjarráð óskar starfsfólki og nemendum FÍV til hamingju með afmælið.

     

12.

Uppgjör á sexæringnum Farsæli - 201909070

 

Lögð var fyrir bæjarráð skilagrein Helgu Hallbergsdóttur verkefnisstjóra um frágang, flutning og varðveislu sexæringsins Farsæls í anddyri Þekkingarseturs Vestmannaeyja. Þar sem báturinn er aldursfriðaður þurfti að leita til Þjóðminjasafnsins um leiðsögn um varðveislu og frágang til sýningar. Um tiltölulega kostnaðarsama aðgerð var að ræða, m.a. vegna viðgerðar, viðhalds, staðsetningar og gerð bakgrunns. Styrkti Vestmannaeyjabær verkefnið um 500 þús. kr. Sýningin á Farsæli var opnuð almenningi 17. maí sl. og er óhætt að segja að báturinn taki sig vel út í anddyri hússins.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og óskar aðstandendum verkefnisins til hamingju með árangurinn. Greinilegt er að vandað hefur verið til verks að öllu leyti. Samþykkir bæjarráð greiðslu styrkfjárhæðarinnar.

     

13.

Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð - 200708078

 

Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka trúnaðarmálafundargerð.

     

                                    

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:35

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159