01.10.2019

Bæjarráð - 3109

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3109. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

1. október 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Bæjarstjóri fór yfir stöðu viðræðna milli Vegagerðarinnar og Björgunar um dýpkun í Landeyjahöfn fyrir haustið 2019. Bæjarráð ræddi drög að áætlun um dýpkun sem eru í vinnslu.
Nýi Herjólfur (Herjólfur IV) hefur verið í slipp á Akureyri undanfarna daga og er nú á leið til Vestmannaeyja. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær Herjólfur III fer í slipp.
Bæjarstjóri fór jafnframt yfir fund með Vegagerðinni sem haldinn var í síðustu viku.

     

2.

Náttúrugripir í Sæheimum - 201909024

 

Á fundi bæjarráðs þann 17. september sl., var framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs falið að fylgja því eftir að koma þeim safnskosti Sæheima sem ekki stendur til að sýna í nýju safni Sea Life Trust, í tímabundið húsnæði þar sem munirnir geta verið til sýnis við góðar aðstæður til varðveislu. Jafnframt að kanna hvort forstöðumaður Sagnheima geti tekið að sér ábyrgð á safnkostinum og eiga samráð við Náttúruminjasafn Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytið um þessa tilhögun.

Kannaðir voru nokkrir valkostir í húsnæðismálum fyrir tímabundinn rekstur safnsins. Ef horft er til kostnaðar, fyrirhafnar og hversu viðkvæmur hluti safnkostsins er fyrir flutningum, er æskilegast að hafa safnið á sama stað, endurbæta aðstöðuna og opna náttúrugripasafnið að nýju. Ef áhugi og vilji er til staðar, mætti stækka safnið og nýta til þess svæðið þar sem fiskarnir voru áður staðsettir. Áætlaður kostnaður við endurbætur á aðstöðunni er um 1,5 m.kr. og ráð fyrir því gert að vetraropnunartími safnsins fylgi opnunartíma Sagnheima.

   
 

Niðurstaða

 

Lagt er til að opna náttúrugripasafnið að nýju í húsnæði gömlu Sæheima við Heiðarveg og reka það þar tímabundið, þar til ákvörðun um framtíðarhúsnæði Safnahússins, þ.m.t. fágætissafn og náttúrugripasafn, liggur fyrir. Gerð er tillaga um að hefja endurbætur á aðstöðunni innanhúss og ráðstafa til þess allt að 1,5 m.kr., sem rúmast innan fjárhagsáætlunar 2019. Mikilvægt er að ígrunda vel næstu skref, munirnir og safnið sjálft hefur mikið menningarlegt og tilfinningarlegt gildi. Lagt er til að opna safnið að nýju um Safnahelgina í nóvember og að hafa það opið á laugardögum í vetur.
(Samþykkt með tveimur atkvæðum E- og H- lista gegn einu atkvæði D-lista).

Bókun
Undirrituð telur það óskynsamlegt að varðveita munina til sýnis í núverandi húsnæði, þar sem m.a. aðgengi er verulega takmarkað en engin lyfta er í húsnæðinu. Áframhaldandi rekstur safnsins þarfnast aukins starfsmannahalds og þar með eykst rekstrarkostnaður fyrir sveitarfélagið. Fara þarf í kostnaðarsamar endurbætur á húsnæðinu og sýningarsvæðum við aðstæður sem eingöngu eru ætlaðar tímabundið. Verði þessi tímabundna ráðstöfun ákveðin dregur það einnig úr þörfinni og ákefðinni við að finna mununum varanlega varðveislu við aðstæður sem eru þeim til sóma.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardóttir)

Tillaga til afgreiðslu
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur til að munum í vörslu Vestmannaeyjabæjar sem ekki verður fundinn staður í gestastofu Sea Life en eru í sýningarhæfu ástandi verði komið í varanlega varðveislu á öðrum söfnum sveitarfélagsins á borð við Sagnheimum, Eldheimum eða til framtíðar á fágætissafni Vestmannaeyjabæjar í húsnæði gamla ráðhússins. Mikilvægt er að þeir verðmætu munir sem sveitarfélagið hefur tekið ábyrgð á að varðveita séu varðveittir við kjöraðstæður á sama tíma og mikilvægt er að fara með skattfé á ábyrgan hátt og að leita allra leiða til að hagræða og fara fram af skynsemi.
(Hafnað með tveimur atkvæðum H- og E-lista gegn einu atkvæði D-lista).

Bókun fulltrúa E- og H-lista).
Tímabundin opnun Sæheima til sýninga þeirra muna sem ekki verða færðir í safn Sea Life er að mati meirihluta bæjarráðs mikilvægt skref í því að menningarleg verðmæti í eigu Vestmannaeyjabæjar fái notið sín og séu aðgengileg íbúum bæjarins og gestum sem fyrst. Nauðsynlegt er að munir séu til sýnis á meðan ákvörðun um framtíðarskipulag þessara mála er tekin.
Kostnaður sem til fellur vegna þessa rúmast innan fjárhagsáætlunar 2019 og er óverulegur miðað við þau miklu verðmæti sem hvorki eru aðgengileg né sómi sýndur eins og staðan er í dag.
(Sign. Njáll Ragnarsson, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir)

     

3.

Beiðni Lista- og menningarhóps Vestmannaeyja um húsnæði til leigu - 201904017

 

Bæjarráð samþykkti þann 2. apríl sl., beiðni Lista- og menningarfélags Vestmannaeyja um að fá til leigu húsnæði bæjarins að Strandgötu 30 (2. hæð í Miðstöðinni) undir vinnustofur félagsmanna. Hafin var vinna við að koma húsnæðinu í þokkalegt stand fyrir reksturinn, en fljótlega kom í ljós að húsnæðið hentaði ekki starfseminni sem varð til þess að félagið fór að kanna aðstæður annars staðar og sendi svo bænum beiðni um að hætta við frekari undirbúning að leigu í húsnæðinu. Þess í stað hefur félagið óskað eftir aðstöðu á Strandvegi 50 (Hvíta húsinu). Húsnæðið er í sameiginlegri eigu Visku og Vestmannaeyjabæjar. Stjórn Visku hefur samþykkt, fyrir sína hönd, að leigja félaginu aðstöðu í hluta hússins.

   
 

Niðurstaða

 

Lagt er til að bæjarráð samþykki ósk Lista- og menningarfélagsins um að hætta frekari undirbúningi að leigu á 2. hæðinni að Strandgötu 30 og samþykki þess í stað að leigja félaginu aðstöðu á efri hæðum Hvíta hússins að Strandvegi 50, í samræmi við ákvörðun Visku, meðeiganda hússins og drög að leigusamningi.

     

4.

Beiðni um umsögn vegna rekstrarleyfis fyrir Ribsafari ehf. - 201908177

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Þórðar Rafns Sigurðssonar f.h. Ribsafari ehf., um rekstrarleyfi vegna reksturs veitingastaðar í flokki II, Ædgisdyr við Tangagötu 7.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn, sem byggir m.a. á því að skipulags- og byggingarfulltrúi, heilbrigðisfulltrúi Heilbriðgðiseftirlits Suðurlands og slökkvistjóri, hafa einnig veitt jákvæða umsögn.
Umsögn þessi er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

5.

Sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024 - 201904016

 

Kynnt voru í bæjarráði drög að sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024 sem birt var á samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 8. október nk.

     

6.

Tillaga til þingsályktunar um óháða úttekt á Landeyjahöfn - 201909153

 

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendi Vestmannaeyjabæ til umsagnar tillögu til þingsályktunar um óháða úttekt á Landeyjahöfn.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð fagnar því að Páll Magnússon, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, hafi lagt tillöguna fram aftur og að allir þingmenn kjördæmisins taki undir með tillögunni. Tillagan fer nú til þinglegrar meðferðar. Bæjarráð telur afar brýnt að ráðist verði í sérstaka úttekt á Landeyjahöfn til þess að meta til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að tryggja heilsárshöfn í Landeyjum. Varla þarf að árétta hvers konar samgöngubót Landeyjahöfn er fyrir einstaklinga og fyrirtæki í Vestmannaeyjum og landsmenn alla.

     

7.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga - 201909159

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 hefur verið lagt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið er samið af hálfu samgöngu- og sveitarstjóranráðuneytisins.

Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að styrkja það lögbundna hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum til þeirra.

Frestur til að skila inn umsögnum er 8. október nk.

     

8.

Fundir bæjarstjórnar Vestmannaeyja með þingmönnum Suðurkjördæmis - 201909160

 

Bæjarráð ræddi málefni sem til stendur að taka upp við þingmenn Suðurkjördæmis á fundi með þingmönnunum haldinn verður á Nordica hótel, fimmtudaginn 3. október nk.

     

9.

Formlegar fyrirspurnir bæjarfulltrúa til bæjarstjóra - 201909161

 

Bæjarstjóri fór yfir fyrirkomulag fyrirspurna frá bæjarfulltrúum sem beint er til bæjarstjóra.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.39

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159