29.10.2019

Bæjarráð - 3111

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3111. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

29. október 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri. Njáll Ragnarsson boðaði forföll.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Fjárhagsáætlun 2020 - 201909065

 

Bæjarráð Vestmannaeyja vísar fjárhagsáætlun 2020 til fyrri umræðu bæjarstjórnarfundar sem fram fer fimmtudaginn 31. október nk.

     

2.

Þriggja ára fjárhagsáætlun 2021-2023 - 201910135

 

Bæjarráð Vestmannaeyja vísar þriggja ára áætlun 2021-2023 til fyrri umræðu bæjarstjórnarfundar sem fram fer 31. október nk.

     

3.

Samningur um kennslu íþróttafræði Háskóla Reykjavíkur í Vestmannaeyjum - 201910136

 

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti við Háskólann í Reykjavík (HR) og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, undirrituðu í gær, samning um kennslu íþróttafræði á háskólastigi við Háskóla Reykjavíkur, sem fram fer í Vestmannaeyjum. Samningurinn er liður í því að efla háskólanám á landsbyggðinni.

Fyrsta skólaárið verða sex námskeið kennd í fjarkennslu í gegnum fjarfundabúnað í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Auk þess munu kennarar koma til Eyja tvisvar á önn til að vinna með nemendum. Tvö verkleg námskeið verða kennd í Vestmannaeyjum. Nemendur munu sækja tvö þriggja vikna námskeið í Reykjavík en taka öll skrifleg próf í Þekkingarsetri Vestmannaeyja.

Námið hefst haustið 2020. Háskólinn í Reykjavík ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd námsins og ráða umsjónamann námsins í Vestmanneyjum, sem búsettur verður í Eyjum. Vestmannaeyjabær mun leggja til íþróttamannvirki til kennslu í verklegum greinum, svo sem handknattleik, knattspyrnu og sundi, en jafnframt leggja til aðstöðu fyrir nemendur til að stunda námið í gegnum fjarfundabúnað. Ráðuneytið mun leggja til fjármagn, ráðgjöf og annast eftirfylgni með verkefninu.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð fagnar þessum áfanga í bættu námsvali á háskólastigi og hvetur Vestmannaeyinga til þess að kynna sér þetta spennandi nám.

     

4.

Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð - 201904142

 

Bæjarráð fjallaði um drög samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að 15 ára samgönguáætlun 2020-2034 og 5 ára aðgerðaáætlun 2020-2024, sem óskað var umsagnar um í samráðsgátt stjórnvalda.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkti eftirfarandi drög að umsögn og felur bæjarstjóra að senda hana í samráðsgátt stjórnvalda.

Landeyjahöfn skiptir lykilmáli í samgöngum við Vestmannaeyjar. Nú þegar ný ferja er komin í siglingar er nauðsynlegt að allt sé gert til að halda Landeyjahöfn opinni sem samgönguleið til Vestmannaeyja. Gengið er út frá því að gefin loforð um að gera höfnina að heilsárshöfn verði efnd og allt kapp lagt á að ná þeim markmiðum. Um Landeyjahöfn fara rúmmlega 300 þúsund farþegar á ári og má búast við frekari aukningu á fjölda ferðamanna með tilkomu nýrrar ferju eins og reyndin hefur verið í sumar. Það er því mikilvægt að að halda inn í samgönguáætlun þeim fjárveitingum sem veitt hefur verið til dýpkunar hafnarinnar meðan reynsla er að koma á nýja skipið og ekki hefur verið farið í breytingar á höfninni. Bundnar eru vonir við að óhað úttekt muni leiða í ljós til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Eins og áætlunin er lögð fram í samráðsgáttinni til næstu 5 ára, skerðist framlagið verulega og mun það gera Vegagerðinni ókleyft að sinna nauðsynlegri dýpkun til að nýta höfnina og ferjuna í Landeyjahöfn.

     

5.

Umræða um heilbrigðismál - 201810114

 

Bæjarráð ræddi stöðu sjúkraflugs við sveitarfélagið. Lögð voru fram gögn varðandi sjúkraflug, þ.e. kostnað og fjölda og skýrslur tengdar sjúkraflugi og sérhæfðum sjúkraþyrlum.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð vísar erindinu til umfjöllunar og ályktunar í bæjarstjórn.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:55

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159