17.12.2019

Bæjarráð - 3115

 
                                            Bæjarráð Vestmannaeyja - 3115. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

17. desember 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Viðauki við fjárhagsáætlun 2019 - 201912066

 

Bæjarráð tók fyrir viðauka við fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2019. Samkvæmt viðaukanum eykst heildarfjárfesting samstæðu Vestmannaeyjabæjar um 98 m.kr. Á árinu 2019 samþykkti bæjarráð og framkvæmda- og hafnarráð nýjar fjárfestingar og framkvæmdir fyrir alls 108,5 m.kr., þar af 55 m.kr. til viðgerða á þaki Íþróttamiðstöðvar og 40 m.kr til viðgerða á stálþili á Friðarhafnarkanti. Vegna tilfærslna milli fjárfestingarverkefna hjá samstæðu Vestmannaeyjabæjar nægir að hækka heildarfjárfestingar ársins um 98 m.kr.
Í rekstri B-hluta samstæðu Vestmannaeyjabæjar er viðauki sem er tilkominn vegna þess að rekstur Náttúrustofu Suðurlands fór yfir til Vestmannaeyjabæjar á árinu 2019. Rekstrarafgangur Náttúrustofunnar eykur afkomu samstæðunar um tæpar 4,9 m.kr. frá upphaflegri áætlun. Ennfremur eru gerðar leiðréttingar á tekju- og gjaldamillifærslum á milli stofnana bæjarins en þær hafa engin áhrif á rekstrarafgang bæjarsjóðs.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2019.

     

2.

Framtíðarskipan 3. hæðar í Fiskiðjuhúsinu - 201911075

 

Bæjarstjórn ákvað á fundi sínum þann 31. október sl., að fela bæjarráði að skipa starfshóp með það hlutverk að kanna grundvöll fyrir klasa- og sprotastarfsemi á 3. hæð Fiskiðjuhússins í samráði við Þekkingarsetur Vestmannaeyja, fyrirtæki og hagsmunaaðila. Bæjarstjórn ákvað einnig á sama fundi að flytja hluta af starfsemi bæjarskrifstofanna í gamla Ráðhúsið og því ljóst að ekki verður af starfsemi bæjarskrifstofanna í Fiskiðjuhúsinu.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð ræddi hugsanlega fulltrúa í ráðgjafanefnd um framtíðarskipan 3. hæðar Fiskiðjuhússins, sem mun koma með hugmyndir um starfsemi í húsnæðinu og veita Vestmannaeyjabæ ráð um hvernig best væri að standa að því. Ráðgjafahópurinn verður skipaður á fyrsta fundi bæjarráðs á nýju ári og hlutverk og verkefni hópsins skilgreint.

     

3.

Goslokanefnd 2019 - 201810025

 

Goslokanefnd fyrir árið, sem skipuð er þeim Drífu Þöll Arnardóttur, Kristínu Jóhannsdóttur, Sigurhönnu Friðþórsdóttur og Tinnu Tómasdóttur og með henni störfuðu Angantýr Einarsson, og Jóhann Jónsson, hefur skilað af sér minnisblaði til bæjarráðs, um starf nefndarinnar á árinu. Dagskrá Goslokahelgarinnar var sérstaklega fjölbreytt og metnaðarfull á þessu ári, þar sem Vestmannaeyjabær fagnaði 100 ára kaupstaðarafmæli og dagskráin unnin í nánu samráði við afmælisnefndina. Viðburðirnir voru hver öðrum glæsilegri, afskaplega vel sóttir og fóru vel fram í alla staði. Veðrið var frábært sem setti augljóslega svip sinn á helgina.
Vill Goslokanefnd koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem þátt tóku í að gera hátíðina svo ógleymanlega. Sérstaklega vill nefndin koma á framfæri þakklæti til þeirra sem lögðu á sig óeigingjarna vinnu dag sem nótt til þess að allt færi vel fram.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð óskar Goslokanefndinni til hamingju með metnaðarfulla og fjölbreytta dagskrá yfir Goslokahelgina 4.-7. júlí sl. Óhætt er að segja að frábærlega hafi tekist til með alla þá viðburði og sem nefndin skipulagði. Bæjarráð vill þakka nefndinni og starfsmönnum hennar fyrir frábært starf og ómælda vinnu við að gera helgina ógleymanlega sem og öllum þeim Eyjamönnum og gestum sem tóku þátt. Jafnframt vill bæjarráð þakka öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem aðstoðuðu og lögðu til aðstöðu, fjármagn og vinnu í tengslum við helgina.

     

4.

Endurgjald til fyrrum stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna sparisjóðsins og Landsbankans. - 201504034

 

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm í máli sem Vestmannaeyjabær, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Vinnslustöðin hf. höfðaði gegn Landsbankanum hf.,vegna endurgjalds til fyrrum stofnfjáreiganda Sparisjóðs Vestmannaeyja við samruna Sparisjóðsins og Landsbankans. Í niðurstöðu dómsins er Landsbankinn sýknaður af kröfum stefnenda og Vestmannaeyjabæ, Lífeyrissjóði Vestmannaeyja og Vinnslutstöðinni hf., gert að greiða stefnda 6 m.kr. málskostnað.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð lýsir yfir vonbrigðum með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Verið er að meta næstu skref og ekki hefur verið ákveðið hvort dóminum verði áfrýjað til æðra dómsstigs.

     

5.

Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð - 201904142

 

Til umræðu var beiðni Alþingis um umsagnir um tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2024, 434. mál og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2034, 435. mál. Frestur til að senda inn umsagnir er til 10. janúar 2020. Um er að ræða samgönguáætlun til 2034 annars vegar og aðgerðaáætlun til næstu fimm ára sem byggir á samgönguáætluninni hins vegar.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð hefur ákveðið að senda inn sameiginlega umsögn um þingsályktunartillöguna og felur bæjarstjóra að útbúa drög að umsögn sem byggir á athugasemdum bæjarfulltrúa, sem sendar verða fyrir 27. desember nk. Í samráði við bæjarfulltrúa mun bæjarstjóri senda Alþingi sameiginlega umsögn fyrir 10. janúar nk.

     

6.

Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS - 201907118

 

Til upplýsinga var lögð fyrir bæjarráð fundargerð nr. 876 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 29. nóvember sl. Jafnframt var lögð fyrir fundargerð aðalfundar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn var 24. og 25 október sl.

     

7.

Beiðni um umsögn vegna tímabundis áfengisleyfis - 201912046

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Jóns Inga Guðjónssonar um lengdan opnunartíma Lundans til kl. 03:00 aðfaranótt 23. desember 2019, til kl. 04:00 aðfaranótt 27. desember 2019 og til kl. 06:00 aðfaranótt 1. janúar 2020. Um er að ræða viðbót við gildandi rekstrarleyfi Lundans um jól og áramót

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilyrðum sýslumanns um slíkt áfengisleyfi og með fyrirvara um jákvæða umsögn hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi skemmtistaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

8.

Beiðni um umsögn vegna leyfis til að hafa þrettándabrennu - 201912033

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn ÍBV um að halda þrettándabrennu þann 3. janúar 2019. Kveikt verður í brennunni kl. 19:30.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að ákvæðum reglugerðar og skilyrðum um slíkan viðburð og með fyrirvara um samþykki hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi brennunar á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

9.

Beiðni um umsögn vegna skoteldaleyfis á þrettándanum - 201912045

 

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn ÍBV um að halda flugeldasýningu í tengslum við þrettándagleðina þann 3. janúar 2020.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilmálum embættis lögreglustjóra um slíkan viðburð.
Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi skoteldasýningarinnar á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:00

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159