07.01.2020

Bæjarráð - 3117

 
  

Aukafundur bæjarráðs Vestmannaeyja 3117. Fundur

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

7. janúar 2020 og hófst hann kl. 08:00

 

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Angantýr Einarsson embættismaður.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

Dagskrá:

 

1.

Almenn umræða um stöðu loðnuveiða 2020 - 201902130

 

Bæjarráð Vestmannaeyja hittist á sérstökum aukafundi til þess að ræða stöðu og útlit loðnuveiða á árinu 2020. Samkvæmt fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru litlar líkur taldar á að Íslendingar muni veiða loðnu á árinu. Ekkert skip hefur enn haldið til loðnuleitar og stjórnvöld hafa ekki skipakostinn til þess, þar sem aðeins Árni Friðriksson er nú til umráða sem hafrannsóknarskip. Stjórnvöld hafa ekki reynt að semja við aðila um annast hluta loðnumælinga.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð Vestmannaeyja tekur undir með bæjarráði Fjarðabyggðar sem lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu loðnuleitar á Íslandsmiðum þar sem svo virðist að Hafrannsóknarstofnun muni einungis hafa eitt skip til að sinna því verkefni á þessu ári. Í ljósi þess hversu mikilvægur veiðistofn loðnan er í íslenskum sjávarútvegi þá er ástand þetta með öllu ólíðandi.

Bæjarráð Vestmannaeyja telur því í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin varðandi loðnuleit ljóst að bregðast þurfi hratt og örugglega við. Loðnan er einn okkar mikilvægasti nytjastofn og óvissu varðandi veiðar og nýtingu þarf að halda í lágmarki. Mikið liggur við fyrir bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar. Loðnubrestur tvö ár í röð yrði þungt högg fyrir samfélagið hér og þjóðarbúið í heild.

Bæjarráð Vestmannaeyja skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tryggja nú þegar fjármagn til loðnuleitar og mælinga svo hægt sé að kanna með útgáfu veiðiheimilda. Bæjarráð óskar svara hvers vegna ráðherra tryggi ekki það fjármagn sem þarf til að fullnægjandi loðnuleit geti farið fram.

     

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 08:30

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159