14.01.2020

Bæjarráð - 3118

 

 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3118. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

14. janúar 2020 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Angantýr Einarsson embættismaður.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Gjaldskrár Vestmannaeyjabæjar 2020 - 202001042

 

Á síðasta ári samþykkti bæjarráð breytt fyrirkomulag afsláttar til handa elli- og örorkulífeyrisþegum á fasteignaskatti og öðrum fasteignagjöldum. Fól hún í sér þrjár sjálfstæðar ákvarðanir: Í fyrsta lagi að viðmiðunartekjur einstaklinga hækkuðu úr tæpum 4,4 m.kr. í 5,5 m.kr. fyrir fullan afslátt og afsláttur lækkaði í þrepum eftir hækkun tekna upp í 6,0 m.kr. Fyrir hjón hækkaði viðmiðunartekjur úr tæpum 5,7 m.kr. í 7,5 m.kr. fyrir fullan afslátt sem lækkaði í þrepum eftir hækkun tekna upp í 8,5 m.kr. Með þessu móti hefur fleiri tekjuminni elli- og örorkulífeyrisþegum gefist kostur á afslætti en áður. Í öðru lagi var felld niður ákvörðun um afslátt íbúðareigenda 70 ára og eldri af niðurfellingu fasteignaskatts. Var það gert til að virða ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, sem ná einungis til afsláttar af fasteignaskatti tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega. Í þriðja lagi var samþykkt ný ákvörðun um flatan 85% afslátt af sorpeyðingargjöldum og lóðaleigugjaldi til handa öllum þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri 67 ára og eldri. Með þessum breytingum er komið til móts við stærri hóp elli- og örorkulífeyrisþega þar sem allir í þeim hópi njóta myndarlegra afsláttarkjara

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir óbreytt fyrirkomulag afsláttarkjara til handa elli- og örorkulífeyrisþegum við álagningu fasteignagjalda á árinu 2020. Viðmiðunartekjur einstaklinga verði 5,5 m.kr. fyrir fullan afslátt og afsláttur lækki í þrepum eftir hækkun tekna upp í 6,0 m.kr. Fyrir hjón nemi viðmiðunartekjur 7,5 m.kr. fyrir fullan afslátt sem lækkar í þrepum eftir hækkun tekna upp í 8,5 m.kr. Veittur verði flatur 85% afsláttur af sorpeyðingargjöldum og lóðaleigugjaldi til handa öllum þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri 67 ára og eldri.

Bæjarráð samþykkir jafnframt álagningu fasteignaskatts, holræsagjalda, sorpeyðingar- og sorphreinsunargjalda fyrir árið 2020 sbr. drög að auglýsingu þess efnis sem birt verður á vef Vestmannaeyjabæjar.

 

Samþykkt með tveimur atkvæðum E- og H-lista gegn einu atkvæði D-lista.

Bókun
Undirrituð ítrekar fyrri bókanir Sjálfstæðismanna hvað afslátt af fasteignasköttum eldri borgara varðar. Það eru veruleg vonbrigði að meirihluti H- og E-lista hafi beygt sig undir hótanir ráðuneytis og hafi í óþökk Sjálfstæðismanna sett að nýju fasteignaskatta á eldri borgara sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins hafði áður fellt niður. H- og E-listi kýs að fara frekar þá leið að létta álögum af eldri borgurum með afslætti af sorpeyðingargjaldi. Það að veita afslátt af sorpeyðingargjaldi og öðrum gjaldskrám í staðinn mun bitna á öðrum íbúum til framtíðar. Samkvæmt lögum á sorpeyðingargjaldið að nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangs. Að fella gjaldið niður á hluta hópsins bitnar því á öðrum sem greiða gjaldið að fullu.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardóttir)

Bókun
Meirihluti bæjarráðs fagnar því að hægt sé að koma á móts við eldri borgara 67 ára og eldri með því að veita myndarlegan afslátt af fasteignagjöldum líkt og gert var á síðasta ári. Sá afsláttur er nú líkt og á síðasta ári veittur eldri borgurum í Vestmannaeyjum og stenst þau lög sem gilda um niðurfellingu á slíkum gjöldum.
Vesetmannaeyjabær hefur til fjölda ára greitt með förgun á sorpi til þess að velta ekki kostnaði yfir á bæjarbúa. Í þessu fyrirkomulagi felst engin nýlunda og almenn ánægja gildir um það.
(Sign. Njáll Ragnarsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir)

     

2.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni verða frekari tafir verða á afhendingu og uppsetningu þeirrar viðbótarsvefnrúma sem koma á fyrir um borð í skipinu þar sem framleiðandi þeirra er á eftir áætlun með framleiðsluna. Stefnt er að uppsetningu á síðari hluta febrúarmánaðar.

Dýpið í Landeyjahöfn er gott þrátt fyrir mikinn veðurham undanfarnar vikur á mánuði. Höfnin er opin hvað dýpi varðar en veður hefur hamlað reglulegum siglingum til og frá Landeyjahöfn. Dýpið á rifinu er orðið í minna lagi og þarf að dýpka þar fljótlega. Til stendur að dýpka um leið og veður leyfir. Dýpkunarskip Björgunar er tilbúið til dýpkunar og bíður færis í Eyjum.

Nú eru liðin þrjú ár síðan hindrunarljósið á Heimakletti bilaði. Vestmannayjabær er löngu búinn að veita Isavia leyfi fyrir nýju ljósi á klettinum og enn er beðið eftir að Isavia komi fyrir nýju ljósi til að koma í veg fyrir truflun á flugsamgöngum til Vestmannaeyja.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð óskar eftir því við Vegagerðina að allt kapp verði lagt á að þau útskiptanlegu svefnrými sem samið var um við smíði ferjunnar, verði kláruð hið allra fyrsta. Mesta þörfin fyrir svefnrými er yfir háveturinn þegar veður er sem verst.

Bæjarráð lýsir miklum vonbrigðum með seinagang Isavia við að koma fyrir hindrunarljósi á Heimakletti sem hamlar öruggum flugsamgöngum til Vestmannaeyja. Bæjarráð felur bæjarstjóra að hafa samband við forsvarsmenn Isavia um að ráða bót á þessu hið fyrsta.

     

3.

Umræða um heilbrigðismál - 201810114

 

Bæjarráð ræddi stöðu sjúkraflugs til og frá Vestmannaeyjum. Þann 2. janúar sl. kom upp sú staða að sjúkraflugvél sem kallað var eftir til Vestmannaeyja lenti ekki fyrr en 185 mínútum eftir að útkall barst, sem er langt umfram þau tímamörk sem eru í samningi ríkisins við rekstraraðilann. Við þetta er ekki búið og staðan grafalvarleg og óviðunandi. Nauðsynlegt er að bæta úr stöðu sjúkraflugs á landsbyggðinni, sérstaklega í Vestmannaeyjum.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð fagnar áformum um tilraunarverkefni með sjúkraþyrlu sem tilkynnt var um í lok desember. Ljóst er að slíkt verkefni eykur öryggi sjúklinga í Vestmannaeyjum þar sem viðbragðstími styttist umtalsvert. Bæjarráð leggur áfram áherslu á að sjúkraþyrla og starfsteymi hennar verði staðsett í Vestmannaeyjum til þess að stytta viðbragðstíma útkalla á Suðurlandi. Í Vestmannaeyjum er eini mannaði flugvöllurinn á Suðurlandi sem er með veðurupplýsingaþjónustu, vetrarþjónustu og jafnframt er flugvöllurinn sá eini á Suðurlandi sem er með blindaðflugs- og blindbrottflugsbúnað.

Bæjarráð þakkar heilbrigðisráðherra, þingmönnum og öðrum þeim sem unnið hafa að málinu fyrir þetta jákvæða skref í öryggismálum í Vestmannaeyjum og hvetur sömu aðila til þess að koma verkefninu af stað sem fyrst. Bæjarráð leggur áherslu á að aðsetur þyrlunnar verði í Vestmannaeyjum, en Vestmannaeyjar eru stærsti þéttbýliskjarni landsins þar sem ekki er aðgengi að sérhæfðu bráðaviðbragði innan 45-60 mínútna. Sú staðreynd auk landfræðilegrar sérstöðu sveitarfélagsins gera það að verkum að hagsmunir og öryggi íbúa verða best tryggðir með staðsetningu sjúkraþyrlunnar í Vestmannaeyjum.

     

4.

8 mánaða uppgjör ársins 2019 - 202001040

 

Átta mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar lagt fram fyrir bæjarráð. Ennfremur var rekstraryfirlit 31.08.2019 lagt fyrir bæjarráð þar sem niðurstaða málaflokka er borin saman við fjárhagsáætlun 2019.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

     

5.

Framtíðarskipan 3. hæðar í Fiskiðjuhúsinu - 201911075

 

Bæjarstjórn Vestmannaeyja ákvað á fundi sínum þann 31. október sl., að fela bæjarráði að skipa starfshóp með það hlutverk að kanna grundvöll fyrir klasa- og sprotastarfsemi á 3. hæð Fiskiðjuhússins í samráði við Þekkingarsetur Vestmannaeyja, fyrirtæki og hagsmunaaðila. Á sama fundi var ákveðið að flytja hluta af starfsemi bæjarskrifstofanna í gamla Ráðhúsið og því ljóst að ekki verður af starfsemi bæjarskrifstofanna í Fiskiðjuhúsinu. Umrætt húsnæði telur um 1.050 fermetra.
Bæjarráð Vestmannaeyja ákvað á fundi sínum þann 17. desember sl., að kanna áhuga og möguleika eftirfarandi fimm einstaklinga, sem farsæla reynslu hafa af nýsköpunar-, tækni- og frumkvöðlastarfsemi, til þess að skipa umræddan starfshóp, þ.e. þeirra:
- Ásgeirs Jónssonar, aðjúnkt og umsjónarm. náms í haftengdri nýsköpun við HR,
- Frosta Gíslasonar, verkefnastjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð og umsj.m. Fab lab í Vestmannaeyjum
- Hólmfríðar Sveinsdóttur, verkefnisstjóra hjá Genis (Benecta) og fyrrv. fr.kv.stj. Iceprotein og Protis
- Tryggva Hjaltasonar, verkefnastjóra hjá CCP og form. Hugverkaráðs SI og
- Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, frumkvöðul og ráðgjafa, sem stofnaði Tröppu þjónustu og Kara Connect

Allir umræddir einstaklingar hafa fallist á beiðni Vestmannaeyjabæjar um þátttöku í starfshópnum.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð lýsir ánægju og þakklæti með jákvæð viðbrögð umræddra fimm einstaklinga við beiðni Vestmannaeyjabæjar um þátttöku í hópnum og telur verðmætt að svo öflugur hópur taki þátt hugmyndavinnu um framtíðarskipan starfsemi 3. hæðar Fiskiðjuhússins, þ.e. starfsemi sem stykir og skapar ný tækifæri til nýsköpunar, sprota eða klasastarfsemi með því að nýta sér staðsetningu og samlegð með annari starfsemi í húsinu. Bæjarráð skipar hér með þau Ásgeir Jónsson, Frosta Gíslason, Hólmfríði Sveinsdóttur, Tryggva Hjaltason og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur í starfshópinn og felur Angantý Einarssyni, framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar að starfa með hópnum og senda starfshópnum erindisbréf.

     

6.

Líkamsræktarstyrkur til starfsmanna - 201901130

 

Á síðasta ári samþykkti bæjarráð reglur fyrir úthlutun styrkja til starfsmanna vegna líkamsræktar þar sem starfsmönnum Vestmannaeyjabær gafst kostur á styrk allt að 10.000 kr. á ári.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð hefur ákveðið að hækka styrk til starfsmanna vegna líkamsræktar úr 10.000 kr. í 15.000 kr. frá 1. janúar 2020.

     

7.

Samningur um raforkukaup - 202001005

 

Nýverið ákvað Vestmannaeyjabær að leita eftir verðtilboðum í raforkukaup og fékk tilboð send frá nokkrum söluaðilum. Eftir mat á tilboðum var ákveðið að taka tilboði Orkusölunnar ehf. Samningur Vestmannaeyjabæjar og Orkusölunnar var svo undirritaður þann 3. janúar 2019. Nær samningurinn til tveggja ára. Reiknað er með að sparnaður á raforkukaupum Vestmanneyjabæjar nemi um 12% með tilkomu nýs samnings.

Þann 3. janúar sl., hlutu Vestmannaeyjabær og Vestmannaeyjahöfn viðurkenninguna Græna ljósið frá Orkusölunni, sem vottar til um að sveitarfélagið og höfnin noti 100% endurnýjanlega raforku með upprunaábyrgðum samkvæmt alþjóðlegum staðli.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

Bókun
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir að umræddur samningur um orkukaup hafi ekki komið til afgreiðslu í bæjarráði sem fer með fjárheimildir sveitarfélagsins fyrr en að þeim loknum. Hvorki hafi forsendur útboðs á raforkukaupum, til hvaða aðila var leitað til né verðkannanir eða samningur verið lagður til staðfestingar á bæjarráðsfundi, heldur les undirrituð um téð raforkuviðskipti í fjölmiðlum. Slík stjórnsýsla er hvorki gegnsæ né lýðræðisleg. Undirrituð fagnar lækkun á orkukostnaði og er með engum hætti að gagnrýna við hvaða aðila er skipt við eða forsendur samnings, né á nokkurn hátt að draga úr mikilvægi upprunavottunar orkunnar, enda hafði undirrituð engar upplýsingar til að meta slíkt, heldur fyrst og fremst þá stjórnsýslu sem meirihluti bæjarstjórnar viðhafði í umræddu máli.
(Sign.Hildur Sólveig Sigurðardóttir)

Bókun
Mikilvægt er að leita allra leið til að hagræða í rekstri sveitarfélagsins sé þess kostur. Samningurinn við Orkusöluna tryggir lægri fastan rekstrarkostnað vegna raforkukaupa, um allt að 12%, fyrir Vestmannaeyjabæ og Vestmannaeyjahöfn. Fulltrúar E-og H- lista fagna samningum.
(Sign. Njáll Ragnarsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir)

Bókun
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins fagnar að náð hafi verið fram lækkun á orkukaupum sveitarfélagsins en telur eðllegt að til framtíðar verði samningar sem slíkir bornir undir bæjarráð fyrir samþykkt þeirra.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardóttir)

     

8.

Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar - 201909118

 

Vestmannaeyjabær og Viska hafa komist að samkomulagi um breytt eignarhald á Hvíta húsinu að Strandvegi 50. Fyrir breytingarnar átti Vestmannaeyjabær helming 1. hæðarinnar og 70% af hinum hæðunum tveimur. Eftir breytingar eignast Vestmannaeyjabær að fullu 1. hæð hússins, þar sem til stendur að koma fyrir starfsemi félagsmiðstöðvar fyrir unglinga. Á móti eignast Viska 68% af 2. og 3. hæð Hvíta hússins. Fengnir voru tveir fasteignasalar til að verðmeta fasteignina og er breytt eignarhald í samræmi við mat þeirra.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar

     

9.

Framlenging á samstarfssamningi við Markaðsstofu Suðurlands - 201910108

 

Þjónustusamningur milli Vestmannaeyjabæjar og Markaðsstofu Suðurlands um tiltekna þjónustu á sviði markaðs- og ferðamála rann út um síðustu áramót.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð hefur ákveðið að framlengja samstarfssamninginn um eitt ár. Með því mun Markaðsstofan halda áfram að annast markaðsstarf með sérstaka áherslu á fjölgun ferðamanna, aðstoð við stefnumótun og dreifingu kynningarefnis.

     

10.

Málefni Herjólfsbæjar í Herjólfsdal - 201707008

 

Árið 2017 ákvað Herjólfsbæjarfélagið að færa Vestmannaeyjabæ Herjólfsbæinn til eigna og fól bæjarráð þáverandi bæjarstjóra að vinna með félaginu að framvindu málsins.
Herjólfsfélagið hafði samband við bæjarstjóra fyrir nokkrum vikum síðan til þess að ganga á eftir málinu og ljúka því með formlegum hætti. Ákveðið hefur verið að leita eftir aðstoð fasteignasala um frágang skjala í tengslum við málið.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar Herjólfsfélaginu fyrir glæsilega gjöf og felur bæjarstjóra að ganga frá málinu.

     

11.

Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS - 201907118

 

Til upplýsinga var lögð fyrir bæjarráð fundargerð nr. 877 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 13. desember sl.

     

12.

Tillaga héraðsskjalavarða um sameiningu fjögurra skjalasafna á Suðurlandi - 201903067

 

Bæjarstjóri og framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs áttu fund með Þorsteini Tryggva Mássyni, héraðsskjalaverði Árnesinga, sem leitt hefur umræðu um sameiningu héraðsskjalasafna á Suðurlandi. Hugmyndin um sameiningu kom upphaflega frá honum og kviknaði í kjölfar skýrslu Þjóðskjalasafns um stöðu héraðsskjalasafna. Eftir samráð og fundi með fulltrúum annarra sveitarfélaga á Suðurlandi hafa töluverðar breytingar orðið á upphaflegri tillögu, einkum vegna kostnaðarþátttöku ríkisins, sem hefði minnkað með sameiningu, kostnaði við að byggja miðlægt skjalasafn, hugsanlegum fækkunum starfa og söfnun muna á einn stað. Breytingin er á þá leið að nú hafa héraðsskjalasöfnin í Rangárþingunum tveimur, vestur Skatfafellssýslu og Árnessýslu ákveðið að reka áfram sömu héraðsskjalasöfn, nema með einum forstöðumanni þar sem Þorsteini Tryggva hefur verið falið að veita söfnunum forstöðu. Kostnaðarhlutdeild ríkisins verður óbreytt og munu sveitarfélögin deila kostnaði við laun forstöðumanns, sameiginlegan vef og upplýsingakerfi. Safnmunir verða áfram á hverju héraðsskjalasafni fyrir sig, en myndir teknar af hverjum safnmun (t.d. fundargerðarbókum) og komið fyrir á sameiginlegum vef. Hagræðingin felst aðallega í faglegu samstarfi héraðsskjalasafnanna, sameiginlegri yfirstjórn og sameiginlegum upplýsingakerfum. Fyrirkomulag aðfangabóka verður óbreytt, en einum starfsmanni bætt við til að sinna þeim málum í fullu starfi. Ákveðið hefur verið að laun hans verði greidd af sveitarfélögunum í Rangarþingi og v. Skatfafellssýslu. Vestmannaeyjabæ býðst að taka þátt í þessu samstarfi héraðsskjalasafnanna á Suðurlandi, en engin þrýstingur er af þeirra hálfu.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð hefur ákveðið að skoða frekar þátttöku í samvinnuverkefni héraðsskjalasafnanna á Suðurlandi á sömu forsendum og önnur sveitarfélög í verkefninu, þar sem áfram er tryggt starf skjalavarðar í Vestmannaeyjum, safnmunir Vestmannaeyinga geymdir í Eyjum og fagleg samvinna efld.

     

13.

Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð - 200708078

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:00

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159