07.02.2020

Almannavarnanefnd - 2001

 
Almannavarnanefnd - 2001. fundur
Almannavarnanefndar
haldinn í stjórnstöð almannavarnarnefndar við Faxastíg,
07. febrúar 2020 og hófst hann kl. 14:00
 
 
Fundinn sátu:
Páley Borgþórsdóttir formaður, Íris Róbertsdóttir varaformaður, Ólafur Þór Snorrason ritari, Arnór Arnórsson aðalmaður, Adolf Hafsteinn Þórsson aðalmaður, Sigurður Hjörtur Kristjánsson aðalmaður, Friðrik Páll Arnfinnsson aðalmaður og Jóhannes Ólafsson embættismaður.
 
Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Snorrason, ritari
 
 
Dagskrá:
 
1. Óvissustig sóttvarna vegna kórónaveirunnar - 202002058
Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan borg í Kína. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónuveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast 2019-nCoV. Staðfest er að veiran smitast á milli manna og að hún getur valdið alvarlegum veikindum. Faraldurinn breiðist hratt út en enn sem komið er hafa flest tilfellin greinst í Kína. Ekkert smit hefur enn verið greint á Íslandi. Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna þann 27. janúar 2020 í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveirunnar.
 
Unnið er samkvæmt viðbragðsáætlun almannavarna, Landsáætlun-heimsfaraldur inflúensu. Ef svo ber undir má virkja Landsáætlun-sóttvarnir hafna og skipa, og Landsáætlun-alþjóðaflugvellir. Undirbúningur er hafinn vegna þessa í Vestmannaeyjum. Fundað hefur verið með sóttvarnalækni, viðbragðsaðilum og öðrum aðilum vegna innviða samfélagsins. Þá hafa viðbragðsaðilar aflað sér varnarbúnaðar. Þá þurfa allir viðbragðsaðilar að gera áætlun um órofinn rekstur og hvernig á að halda úti ómissandi starfsemi miðað við 50% mönnun.
 
Hjörtur Kristjánsson, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi fór yfir stöðuna og aðgerðir sem gæti þurft að grípa til. Þá var farið í þarfagreiningu vegna farsóttarhúsnæða og skipulag þeirra. Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar, lögreglu og Rauða krossins munu leggja til aðgerðaáætlun vegna farsóttarhúsa.
 
Niðurstaða
Almannavarnanefnd þakkar upplýsingarnar og mun áfram fylgjast grannt með útbreiðslu veirunnar, vera í sambandi við samhæfingarstöð og sóttvarnalækni, funda með hagaðilum og sjá til þess að viðeigandi undirbúningur eigi sér stað.
 
 
2. Óveður, bjargir og varaafl í Vestmannaeyjum - 202002059
Þann 23. janúar 2020 hélt almannavarnanefnd fund til þess að ræða viðbragð í Vestmannaeyjum í óveðri en 10. og 11. desember 2019 var fárviðri í Vestmannaeyjum en óvissustig var á öllu landinu vegna slæmrar veðurspár. Veðurspáin gerði ekki ráð fyrir 40 m/sek vindhraða og 52 m/sek í hviðum. Á fundinn voru boðaðir auk almannavarnanefndar, viðbragðsaðilar og fulltrúar umsvifamestu fyrirtækjanna og lykilaðila hjá Vestmannaeyjabæ. Til fundarins mættu 30 manns. Farið var yfir skipulag þegar aðgerðastjórn er virkjuð og þær bjargir sem eru tiltækar í Vestmannaeyjum. Þá var farið yfir viðbragð og bjargir í síðasta óveðri. Allir fundarmenn voru sammála um að leggja til bjargir eftir þörfum og útvega yfirlit yfir bjargir og mannskap sem tiltæk eru til slíkra starfa.
Þá kynnti Ívar Atlason, svæðisstjóri HS veitna stöðu varaafls í Vestmannaeyjum. Varaaflið er ófullnægjandi eins og staðan er í dag. Hægt er að tryggja um 4MW með varaafli ef rafmagn fæst ekki ofan af landi vegna bilunar í sæstrengjum, staurum eða tengibúnaði uppi á landi. Þörfin er 13MW og liggur því fyrir að með núverandi stöðu yrði strax að fara að skammta rafmagn á bæinn í rafmagnsleysi auk þess sem atvinnulífið myndi lamast. Þá kom fram á fundinum að mögulegar bilanir eða áföll vegna afhendingar rafmagns geta tekið langan tíma í viðgerðum. Til að mynda er aðeins hægt að vinna við sæstrengina að sumri til. Þungt var yfir fundarmönnum vegna þessa og áhersla lögð á að flutningsaðili rafmagns til Vestmannaeyja tryggi fullnægjandi varaafl í Vestmannaeyjum. Nefndin þakkar þeim fjölmörgu sem mættu til fundarins.
 
Niðurstaða
Almannavarnanefnd lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu varaafls í Vestmannaeyjum. Almannavarnanefnd gerir þá kröfu til Landsnets, sem flutningsaðila raforku og dótturfélags Landsvirkjunar að tryggja nægilegt magn varaafls í Vestmannaeyjum og koma þessum málum í lag hið fyrsta. Í Vestmannaeyjum er langt í aðstoð í náttúruvá, ef hún er þá tiltæk og þurfa Vestmannaeyingar því að vera sjálfum sér nægir með marga hluti, til að mynda varaafl.
 
 
3. Öryggi um borð í Herjólfi vegna atviks í norskri hybris ferju í október - 202002060
Þann 16. janúar 2020 fundaði almannavarnanefnd með viðbragðsaðilum, fulltrúum rekstraraðila Herjólfs, fulltrúm vegagerðarinnar, fulltrúum smíðanefndar Herjólfs og tækjabúnaðar skipsins. Tilefnið var að ræða atvik sem gerðist 10. og 11. október 2019 þegar eldur kom upp í hybrid ferju í Noregi sem talið var að væri með sambærilegan búnað og Herjólfur. Viðbragðsaðilar höfðu fylgst með málinu frá því það kom upp og þegar bráðabirgðaskýrsla var gefin út um hvað olli atvikinu var óskað eftir fundi með hagaðilum. Þar var farið yfir atvikið og ólíkan búnað Herjólfs og norsku ferjunnar. Eldur hafði komið upp í vökvakælibúnaði skipsins en á Herjólfi eru batteríin kæld með loftkælingu. Endanlegar rannsóknarniðurstöður liggja ekki fyrir.
Friðrik Páll Arnfinnsson, slökkviliðsstjóri kynnti helstu niðurstöður slökkviliðssins í Noregi. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að viðbragðsaðilar þekki aðstæður á vettvangi ef eldur kemur upp í rafdrifnum ferjum.
 
Niðurstaða
Nefndin fylgist grannt með málinu og er stefnt að því að halda annan fund með viðbragðsaðilum þegar lokaniðurstöður liggja fyrir frá rannsóknarnefnd samgönguslysa í Noregi.
 
  
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:40
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159