19.janúar 2018 - 14:21

Ánægja eykst með 12 af 13 þjónustuþáttum Vestmannaeyjabæjar skv. þjónustukönnun Gallup

Á fundi bæjarstjórnar í gær var fjallað um þjónustukönnun Gallup en áður höfðu fagráðin rætt og yfirfarið það sem snéri að hverju ráði fyrir sig. Hægt er að nálgast öll gögn hér á vefsíðunni. Könnun þessi er gerð til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á, ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum. Könnunin fór fram frá 3. nóvember til 17. desember 2017.
 
 
 
Eftir umræðu um könnunina lýsti bæjarstjórn yfir mikilli ánægju með niðurstöðu hennar.  Af 13 spurningum eru Vestmannaeyjar yfir landsmeðaltali á 10.  Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að ánægja meðal Eyjamanna með þjónustu við: fatlaða, barnafjölskyldur og við aldraða skuli mælast vel yfir landsmeðaltali.  Þá skiptir ekki minna máli að ánægja með þjónustu leikskóla og grunnskóla skuli vera meðal þess sem best gerist, en sú þjónusta er eðli málsins samkvæmt ein sú mikilvægasta sem hvert sveitarfélag veitir.

Á sama hátt er það afar jákvætt að mæld ánægja skuli aukast á milli ára á 12 af 13 spurningum (stendur í stað á einni).

Bæjarstjórn óskar starfsmönnum sérstaklega til hamingju með þennan árangur og telur hann vitnisburð um þann metnað sem ríkir meðal starfsmanna sveitarfélagsins.  Hrósið er allt þeirra.

Sem lið í könnun á ánægju meðal íbúa var einnig spurt hversu ánægðir svarendur væru með störf bæjarstjórnar og störf bæjarstjóra.  Af þeim sem afstöðu tóku (sögðust annað hvort ánægð eða óánægð) sögðust 70% ánægð með störf bæjarstjóra og 73% ánægð með störf bæjarstjórnar.  Þegar litið er til allra svara við viðkomandi spurningum kemur í ljós að þegar spurt var um ánægju með störf bæjarstjórnar sögðust 19% mjög ánægð með störf bæjarstjórnar, 35% sögðust ánægð, 25% sögðust hvorki né, 14% óánægð og 6% mjög óánægð.

Þegar litið er til allra svara við spurningunni um ánægju með störf bæjarstjóra kemur í ljós að 26% sögðust mjög ánægð, 27% ánægð, 24% hvorki né, 13% óánægð og 10% mjög óánægð.

 

Hægt er að nálgast nánari gögn um það sem rætt var á fundi bæjarstjórnar hér:  

Gallup
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159