3.desember 2018 - 09:48

Tilkynning frá Þjóðskrá Íslands varðandi EES og EFTA umsóknir

Þjóðskrá Íslands hefur tekið í notkun rafrænt umsóknarform vegna lögheimilisskráningar EES-og EFTA ríkisborgara sem hyggja á búsetu á Íslandi í lengri tíma en þrjá mánuði.
 
Þetta nýja rafræna eyðublað mun koma í stað pappírsumsóknareyðublaðanna (A-261, A-262, A-267 og A-268) og gerir umsækjendum kleift að senda inn umsókn sína áður en komið er til landsins. Við komu til landsins þarf umsækjandi einungis að mæta á næsta skráningarstað, annað hvort á skrifstofur ÞÍ eða á næstu bæjarskrifstofu, og framvísa þar vegabréfi sínu eða öðru gildu ferðaskilríki sem og frumritum þeirra vottorða sem skilað var inn með umsókninni sjálfri.

 

Þegar umsækjandi mætir á skráningarstað þarf starfsmaður þar að fullvissa sig um að umsækjandi sé búinn að senda inn umsókn. Sé umsækjandi búinn að senda inn rafræna umsókn þá þarf hann að framvísa vegabréfi sínu eða öðru gildu ferðaskilríki ásamt frumritum þeirra vottorða sem skilað var inn í umsókninni. Það sem starfsmenn skráningarskrifstofunnar þurfa að gera er að senda staðfest afrit af þeim gögnum sem framvísað er (passa að taka afrit af báðum hliðum ferðaskilríkis) með tölvupósti á netfangið ees@skra.is.

 

Sé umsækjandi ekki búin að senda inn umsókn um lögheimilisskráningu þá getur starfsmaður leiðbeint honum með að skila inn rafrænni umsókn (sjá leiðbeiningar um það í viðhengi). Þegar umsókn hefur verið staðfest þá skal starfsmaður senda tölvupóst á ees@skra.is og staðfesta að vegabréfi og frumritum nauðsynlegra gagna hafi verið framvísað. Í þessum tilvikum er óþarfi að senda staðfest afrit af skjölunum með tölvupóstinum því starfsmaður staðfestir afritið sem sent er með umsókninni sjálfri.

 

Hluti af rafrænu umsóknargáttinni er svokölluð vinnuveitendagátt, sem er í raun rafræn staðfesting vinnuveitanda og mun koma í stað pappírseyðublaðsins (A-265). Þeir umsækjendur sem koma til Íslands til að vinna hjá íslensku fyritæki þurfa að setja inn kennitölu vinnuveitanda í umsókn sína. Við það birtist umsækjandinn í vinnuveitendagátt þess fyrirtækis sem hann starfar hjá. Vinnuveitandi staðfestir ráðningarsambandið með því að skrá sig inn á vinnuveitendagáttina með íslykli eða rafrænum skilríkjum fyrirtækisins (einnig er í boði að skrá sig inn í umboði vinnuveitanda) og fylla út rafrænu staðfestinguna og skila henni inn.

 

Með þessari nýju rafrænu umsóknargátt er verið að einfalda umsóknarferli EES-og EFTA ríkisborgara sem óska eftir lögheimilisskráningu hér á landi. Þessi nýjung er hluti af markmiði og stefnu Þjóðskrár Íslands um að vera skilvirk, sjálfvirk og snjöll. Rafrænar umsóknir munu vera afgreiddar á undan þeim sem koma inn á pappír og því hvetjum við umsækjendur sem og vinnuveitendur til að nýta sér þetta nýja form þegar sótt er um lögheimilisskráningu á Íslandi.

 

Hér fyrir neðan eru frekari leiðbeiningar hvernig umsóknarferlið fer fram og eru þær ætlaðir þeim sem aðstoða umsækjendur með umsókn sína.

Leiðbeiningar um rafrænar umsóknir

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159