14.desember 2018 - 11:03

Eigendastefna Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf.

Um eigendastefnuna:

Með skýrri stefnumörkun eigenda, vel skilgreindu hlutverki fyrirtækis, skýru umboði handhafa eigendavalds, stjórnar og framkæmdastjóra, lýsingu á kröfum um stjórnunarhætti, ásamt öflugu eftirlitskerfi skapast fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga forsendur til að annast tiltekna starfsemi í þágu almennings. 

 
Með skýrri eigendastefnu er leitast við að skýra hlutverk og ábyrgð eigendanna og tryggja þátttöku þeirra í ákvörðunum um mikilvæg málefni og stefnumörkun. Þannig á eigendastefnan að tryggja lýðræðislega, gagnsæja, faglega og skilvirka stjórnun fyrirtækisins.

Eigendastefnan er sett af Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar og verða ekki gerðar á henni breytingar nema bæjarstjórn ákveði svo og hún hlýtur staðfestingar á eigendafundi.

Eigendastefnan skal vera almenningi og fjölmiðlum aðgengileg, meðal annars á vefsíðu Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. og Vestmannaeyjabæjar.

1. Leiðarljós: Í starfsemi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. skal áhersla lögð á faglegan rekstur og ábyrga nýtingu fjármuna. Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. kemur fram af heilindum, trausti og rækir samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Fyrirtækið ber hag samfélagsins fyrir brjósti og umgengst viðskiptavini og tengda hagsmunahópa af virðingu. Eigendur vilja að litið verði til fyrirtækisins sem trausts samstarfsaðila, sem eftirsóknavert sé að eiga samstarf við og starfa fyrir, og að það gegni veigamiklu hlutverki í samfélaginu.

2. Tilgangur og hlutverk: Kveðið er á um tilgang og hlutverk Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. í stofnsamþykkt félagsins dags. 19. maí 2018. Meginhlutverk hlutafélagsins er að annast rekstur ferjusiglinga á grundvelli þjónustusamnings Vegagerðar ríkisins og Vestmannaeyjabæjar, þar sem ákvæði gr. 2.8, um stofnun opinbers hlutfafélags um rekstur ferjunnar, hefur verið nýtt. Með því yfirtekur hlutafélagið skyldur sveitarfélagsins samkvæmt samningnum. Fyrirtækið starfar samkvæmt hlutafélagalögum, sveitarstjórnarlögum, einkum kafla VII er varðar fjármál, sem og lögum og reglugerðum sem kveða á um starfsemi slíkrar ferju, svo sem Siglingalög, Hafnalög og lög um Landeyjahöfn. Starfsemi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. takmarkast við samgöngur á sjó milli lands og Eyja. Fyrirtækið skal tryggja viðskiptavinum þjónustu á sanngjörnu verði.

3. Kjarnastarfsemi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. felst í ferjusiglingum Vestmannaeyjaferjunnar til að tryggja landsmönnum og fyrirtækjum sem öruggastar almenningssamgöngur og vöruflutninga milli lands og Eyja. Fyrirtækið getur nýtt þekkingu sína til þátttöku í öðrum siglingarekstri í almannaþágu ef það þjónar markmiðum eiganda og þátttakan hljóti samþykki hans. Þau markmið og þeir mælikvarðar sem lagðir eru til grundvallar við mat á árangri skulu ávallt vera í samræmi við markmið og áherslur í starfs- og rekstaráætlun.

4. Starfssvæði: Meginstarfssvæði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs er siglingaleiðin milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar og Þorlákshafnar eftir atvikum. Tækifæri annars staðar eru skoðuð út frá hlutverki fyrirtækisins, arðsemi og áhættu og skulu staðfest af eigendum áður en stofnað er til skuldbindinga vegna þeirra.

5. Stjórnarhættir: Stjórnarhættir Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum. Mikilvægt er að halda stjórn og eigendum vel upplýstum um undirbúning og starfsemi fyrirtækisins, m.a. með mánaðarlegum fundum forráðamanna og eigenda félagsins.

6. Stefnumótun: Stjórn skal leggja fram tillögu að stefnumörkun og framtíðarsýn fyrirtækisins með útfærslu á mælikvörðum og greinargerð fyrir eigendafund til staðfestingar. Tillagan skal taka til heildarstefnumörkunar og stefnumótunar varðandi:  a) arðsstefnu (sem gerir ráð fyrir lágmarksávöxtun hlutafjár félagsins (nafnvirði að viðbættri ávöxtun sem nemur þróun vísitölu neysluverðs); b) áhættustefnu; c) umhverfis- og auðlindastefnu; d) gæðastefnu; e) stefnu varðandi öryggis-, heilsu- og vinnuvernd; f) innkaupastefnu, g) upplýsingatækni og upplýsingaöryggisstefnu; h) starfsmanna- og starfskjarastefnu; i) jafnréttisstefnu og; j) Siðareglna 

Við undirbúning stefnumótunar skal stjórn líta til áherslna eigenda varðandi fjárhagsleg markmið og arðsemi (6.1), áhættu (6.2) og starfskjör (6.3).

6.1 Fjárhagsleg markmið: Stjórn og stjórnendum fyrirtækisins ber að sýna ráðdeild í rekstri og fjárfestingum. Arðstefna Vestmannaeyjaferjunnar Herjófs ohf., skal skila eigendum ávöxtun á fjármagn sem bundið er í fyrirtækinu í samræmi við þá áhættu sem fólgin er í rekstri og fjármögnun fyrirtækisins. Arðsemi fjármagns skal að lágmarki vera umfram fjármagnskostnað fyrirtækisins sem nemur eðlilegu áhættuálagi í samræmi við rekstrarumhverfi fyrirtækisins.

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. skal innleiða mælikvarða sem sýna hvernig arðsemiskröfu eigenda er mætt að teknu tilliti til áhættu þeirra af ábyrgðum vegna fyrirtækisins. Skal arðsemiskrafan greind eftir starfsþáttum, áhættu hvers starfsþáttar og fjármögnun hans. Tillaga stjórnar og greinargerð um arðsemi- og fjárhagsmælikvarða skal lögð fyrir eigendafund til staðfestingar. Samkvæmt gr. 6.5 í þjónustusamningi Vegagerðar ríkisins og Vestmannaeyjabæjar skal ráðstafa hagnaði félagsins í þágu þjónustunnar. Nánari ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar skal tekin af ríkinu að fengnum tillögum sveitarfélagsins (í þessu tilviki stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf.).  

6.2 Áhætta í rekstri Vestmannaeyjunnar Herjólfs ohf. ber að setja sér áhættustefnu til að draga sem kostur er úr áhrifum ytri fjárhagslegra áhættuþátta á tekjur, þjónustu, eignir og skuldir fyrirtækisins. Áður en ákvarðanir eru teknar um fjárfestingar og fjárskuldbindingar ber Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. að meta áhættu sem í þeim kann að felast. Fyrirtækið ber almennt að fjármagna framkvæmdir í sama gjaldmiðli og væntanlegar tekjur þeirra. Skuldbindingum, sem stjórn vísar til eigenda, skal fylgja greinargott áhættumat. Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. setur sér viðbragðsáætlanir sem skulu tryggja eftir því sem kostur er öryggi varðandi rekstur, þjónustu og eignir fyrirtækisins ef upp koma ógnir, svo sem af völdum náttúruhamfara, slysa eða af öðrum ástæðum. Viðbragðsáætlanir skulu með eðlilegum hætti samræmast áætlunum almannavarna ríkis og sveitarfélaga á starfssvæði fyrirtækisins, ákvæðum annarra laga sem um starfsemi fyrirtækisins gilda og öðrum öryggisráðstöfunum opinberra aðila.

6.3 Starfskjör: Stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. skal setja fyrirtækinu starfskjarastefnu sem felur í sér hófsemi varðandi laun- og starfskjör starfsfólks sem grundvallast á kjarasamningum viðeigandi starfsgreina og ráðningarsamningum við hvern og einn. Laun stjórnenda skulu standast samanburð við sambærileg störf, þó að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila. Launakjör stjórnenda og annars starfsliðs fyrirtækisins skulu ekki vera leiðandi á vinnumarkaði. 

7. Samskipti og upplýsingagjöf: Stjórnendur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. skulu halda eigendum vel upplýstum um starfsemi og málefni fyrirtækisins. Eigendur fyrirtækisins vilja skapa stjórn þess það umhverfi að hún geti á hverjum tíma gegnt skyldum sínum í þágu hagsmuna fyrirtækisins og innan markaðrar stefnu eigenda. Í þessu skyni skulu samskipti milli eigenda og fyrirtækisins vera eftir formlegum leiðum og leitast skal við að beina þeim í farveg aðalfunda og reglubundinna eigendafunda. Eigendafundi skal halda reglulega á milli aðalfunda. Stjórn félagsins getur óskað eftir eigendafundi, en jafnframt skal ávallt halda eigendafundi að kröfu eigenda. Þetta leggur ríka upplýsingaskyldu á Vestmannaeyjaferjuna Herjólf ohf. gagnvart eigendum félagsins.  Stjórn og stjórnendur fyrirtækisins skulu vera til fyrirmyndar um upplýsingagjöf til almennings. Upplýsingar um starfsemina skulu vera settar fram á þann hátt að almennir lesendur fái skýra sýn á hana. Handhafar eigendavalds leitast við að efla upplýsta og lýðræðislega umræðu um málefni Vestmannaeyjaferjuna Herjólf ohf. og samgöngur milli lands og Eyja á vettvangi sveitarstjórnarinnar og á fundum eigenda.

 8. Samráð við eiganda: Eftirfarandi ákvarðanir stjórnar skulu teknar að höfðu samráði við eiganda:

Nýjar skuldbindingar: Fari fjárhæð einstakra nýrra skuldbindinga Vestmanneyjaferjunnar Herjólfs ohf. yfir 10% af bókfærðu eigin fésamkvæmt síðasta ársreikningi eða árshlutareikning skal samráð haft við eiganda áður en til hennar er stofnað.

Óvenjulegar og stefnumarkandi ákvarðanir ásamt áhættumati skal stjórn leggja fyrir eigendur til að gera eigendum kleift meta þær í samræmi við hlutverk sitt sem ábyrgðaraðila. Áform um breytt umfang og aðstæður fyrirtækisins, siglingatíma, gjaldskrá eða annarra atriða sem kveðið er á um í þjónustusamningi teljast til óvenjulegra og stefnumarkandi ákvarðana.

 

Vestmannaeyjum, 6. desember 2018.

 

 

F.h. Vestmannaeyjabæjar

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159