26.febrúar 2019 - 14:37

Hátíðarræða Írisar bæjarstjóra á hátíðarfundinum:

 Horfum björtum augum fram á veginn

 

Til næstu 100 ára að minnsta kosti – Konur áttu lengi undir högg að sækja – Eru nú í meirihluta – Fyrsta konan bæjarstjóri af 16 bæjarstjórum

 
 „Á þessum degi fyrir réttum 100 árum, hinn 14. febrúar 1919, var haldinn fundur í  húsinu Borg, sem stóð neðst við Heimagötu og fór undir hraun í gosinu. Sá fundur var fyrsti fundur fyrstu bæjarstjórnar Vestmannaeyja,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í ræðu á hátíðarfundi bæjarstjórnar í bíósal Kviku fimmtudaginn 14. febrúar þar sem tímamótunum var fagnað. Fundarsalurinn var þétt setinn en á undan var ljósmyndasýning þar sem stiklað var á stóru í sögu Vestmannaeyja með áherslu á tímann frá því bærinn hlaut kaupstaðarréttindi þann fyrsta janúar 1919.

 

Sjálf rakti Íris sögu Vestmannaeyja og hafði til hliðsjónar hina vönduðu samantekt Haraldar Guðnasonar, bókavarðar, Við Ægisdyr, saga Vestmannaeyja frá 1918 til um 1978 þar sem ítarlega er farið yfir sögu bæjarstjórnar þar. „Í umfjöllun Haraldar kemur fram að níu einstaklingar hafi átt sæti í fyrstu bæjarstjórninni. Meðal þeirra var Halldór Gunnlaugsson læknir. Það er áhugavert að hugsa til þess að Halldór var aðalhvatamaðurinn að stofnun kvenfélagsins Líknar, sem átti 10 ára afmæli sama daginn og bæjarstjórn kom saman í fyrsta sinn. Var dagurinn ef til vill valinn til heiðurs kvenfélaginu?“ spurði Íris.

 

Ólafía Óladóttir fyrst kvenna til að sitja bæjarstjórnarfund

 

„Í fyrstu bæjarstjórn Vestmannaeyja átti engin kona sæti - og kemur sú staðreynd líklega fáum á óvart miðað við jafnréttið, eða öllu heldur misréttið, í þá daga,“ sagði Íris. „Fyrsta konan sem sat fundi í bæjarstjórn Vestmannaeyja var Ólafía Óladóttir, verkakona í Stíghúsi, en það var árið 1934.  Hún var á lista Kommúnistaflokksins og var varabæjarfulltrúi.   Ólafía - Lóa í Stíghúsi - var amma Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, fyrrverandi alþingismanns, sem nú er hagfræðingur Alþýðusambandsins.“

 

Dadda fyrsta kjörna konan í bæjarstjórn

 

En langt var í næstu konu. „Hitt er ótrúlegt að fyrsta kjörna konan í bæjarstjórn Vestmannaeyja var hún Sigurbjörg okkar Axelsdóttir, Dadda skó og var hún á lista Sjálfstæðisflokksins. Það var árið ekki fyrr en 1974 eða heilum 55 árum eftir að bæjarstjórn Vestmannaeyja kom fyrst saman. Með öðrum orðum:

  Í meirihluta þess tíma sem liðinn er frá upphafi bæjarstjórnar Vestmannaeyja var ekki ein einasta kona kjörin í bæjarstjórn. Horfið hérna á borðið við hliðina á mér, konur eru nú í meirihluta í bæjarstjórn.

 Mér reiknast svo til að frá 1919 til 1974, eða þangað til fyrsta konan er kosin í bæjarstjórn, hafi verið kosið um 120 sæti bæjarfulltrúa. Vitaskuld hafa ekki 120 bæjarfulltrúar fyllt þessi 120 sæti, sumir sátu tvö kjörtímabil, aðrir jafnvel miklu lengur. En sem sagt alltaf karlar.

  Af samtals 16 bæjarstjórum Vestmannaeyja á þessum 100 árum komu svo auðvitað fyrst 15 karlar í röð, en svo breyttist það víst líka,“ sagði Íris.

 

Er hér vegna Magnúsar H.

 

Hún sagði alla þessa bæjarstjóra hafa lagt sitt af mörkum við uppbygginu bæjarins á þessum 100 árum. „Verkefni þessara bæjarstjóra voru mörg og mismunandi eins og gefur að skilja. Sumir fengu stærri og erfiðari verkefni en aðrir en ætli þau hafi gerst  miklu  stærri en að fá heilt eldgos yfir bæinn. Það fékk Magnús H. Magnússon að reyna en hann var bæjarstjóri 1966 til 1975. Ég minnist á hann hér því að hann er líklega ástæðan fyrir því að ég er hér.

  Viðtal sem var við Magnús í útvarpinu á sínum tíma, þar sem hann hvatti fólk til að snúa heim og byggja aftur upp Eyjuna okkar eftir gos, sannfærði mömmu um að koma aftur heim. Pabbi var tilbúinn að flytja til Noregs með fjölskylduna en mamma réði ferðinni að þessu sinni og hún hlýddi kalli Magnúsar bæjarstjóra.

  Það skiptir auðvitað sköpum í sögu Vestmannaeyja að svo margir svöruðu kallinu; komu aftur heim og glæddu eyjuna okkar lífi á ný.“

 

Karlarnir níu og Valentínusardagurinn

 

Íris sagði það svolítið skemmtilegt að hugsa til þess að karlarnir níu sem sátu fyrsta bæjarstjórnarfundinn hefðu valið daginn til heiðurs kvenfélaginu Líkn, eins og hún minntist á fyrr í ræðu sinni. „En þá hefur sjálfsagt ekki órað fyrir því að 100 árum síðar yrði haldið upp á þann fund á Valentínusardaginn, 14. febrúar, degi elskenda.  En kannski voru þessir karlar í fyrstu bæjarstjórninni eintómir rómantíkerar.

 

Fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar

 

Skoðum aðeins nánar fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar. Þær fóru fram þann 16. janúar 1919. Þá voru 7 listar í framboði og hafa aldrei verið fleiri síðan. En hið furðulega er að sömu einstaklingar gátu verið á fleiri en einum lista og eru jafnvel dæmi um að sömu einstaklingar hafi verið á allt að 4 listum. Í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum 1919 voru 3 á fjórum listum, þeir Páll Bjarnason, Högni Sigurðsson í Vatnsdal og Jón Hinriksson.

  Til að fá að bjóða fram í kosningunum 1919 þurfti framkominn listi einungis 5 meðmælendur á móti 40 til 80 í dag. Alls greiddu 556 atkvæði í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum af ríflega 2000 íbúum.

  Listabókstafirnir voru einnig með allt öðrum hætti en nú tíðkast, þar sem kjörstjórn merkti listana einfaldlega með bókstöfum í stafrófsröð í þeirri tímaröð sem framboðunum var skilað inn. Þannig var t.d. B-listinn, borinn í fyrsta sinn fram af flokki 1930 og þá af Sjálfstæðisflokki, 4 árum síðar af Alþýðuflokknum og loksins 1938 af Framsóknarflokknum. En þá lauk þessari hringekju og flokkarnir fengu fasta listabókstafi.“

 

Margt hefur breyst

 

Íris sagði margt orðið með ólíkum hætti og ekki hefði hún tök  á  hér að rekja alla sögu bæjarstjórnar og bæjarstjórnarkosninga. „Mig langar til að staldra andartak í lokin við kosningarnar 1930 vegna þess að annars vegar verða þá ákveðnar breytingar sem enn halda og einnig vegna áhugaverðs samanburðar við nútímann.

  Eitt er að frá 1930 var loks tekið að kjósa til bæjarstjórna á Íslandi á 4 ára fresti en fram að því hafði verið kosið til bæjarstjórna árlega. Í öðru lagi var frá og með 1930 í fyrsta skipti kosið um alla bæjarstjórnina í einu, en 9 bæjarfulltrúar sátu á þessum tíma í bæjarstjórn, eins og áður var minnst á. Fram að 1930 var sá háttur hafður á að 3 fóru úr bæjarstjórn á hverju ári og 3 nýir bættust við. 

  Hlutkesti var látið ráða hverjir 3 þurftu að yfirgefa bæjarstjórn hverju sinni. Áhugavert en ég veit ekki hvernig stemminginn væri fyrir því núna ef unnt væri að endurvekja þann sið.“

 

Rýmri kosningaréttur

 

 

„Þá brýtur árið 1930 að öðru leyti í blað í sögu bæjarstjórnarkosninga. Í fyrsta lagi voru lögin um kosningarétt rýmkuð verulega það ár og kosningaaldur bæði fyrir karla og konur færður niður í 21 ár ásamt fleiri rýmkunum. Meðal þeirra var að það að þiggja sveitarstyrk varðaði ekki lengur missi kosningarréttar nema menn væru í skuld við bæjarsjóð vegna leti eða ómennsku eins og það var orðað í samþykktinni. Í framhaldinu varð einum ónefndum bæjarfulltrúanum að orði að Vestmannaeyjar væru kyndugur staður því hér mættu letingjar aðeins kjósa ef þeir væru ríkir.“

 

 

Guðlaugur Gíslason setið flesta fundi

 

Til er skrá hjá Vestmannaeyjabæ um alla þá sem setið hafa bæjarstjórnarfundi öll þessi 100 ár. „Það er gaman að glugga í þetta,“ sagði Íris. „Hér í Eyjum eru enn búsettir 3 af þeim 6 sem setið hafa flesta bæjarstjórnarfundi eru tveir þeirra með okkur hér í salnum í dag.

  Sá sem flesta fundi hefur setið er Guðlaugur Gíslason 343; næstur er Ragnar Óskarsson 311; Sigurður Jónsson 281; Ársæll Sveinsson 277; Arnar Sigurmundsson 270 og Guðmundur Þ.B Ólafsson 269. Börn tveggja þeirra núlifandi manna sem hér voru taldir eru sem kunnugt er bæði í bæjarstjórn og bæjarráði í dag,“ sagði Íris. Þau eru Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Njáll Ragnarsson.

 

 

Stór dagur

 

„En í dag fögnum við, við fögnum 100 ára afmæli bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Þetta er stór dagur, sem skipar stóran sess í okkar tímatali og afmælisári.

  Fyrir hönd sitjandi bæjarfulltrúa þakka ég öllum þeim sem á undan okkar komu, lífs og liðnum, fyrir þeirra framlag í að gera bæinn okkar að því sem hann er. Við horfum björtum augum fram á veginn fyrir hönd okkar einstaka bæjarfélags.

Til næstu 100 ára að minnsta kosti,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri að endingu.

 

Myndatexti. Fjöldi gesta var á hátíðarfundinum. M.a. þingmennirnir Ásmundur, Friðriksson, Birgir Þórarinsson og Páll Magnússon. Aftar má sjá fyrrverandi bæjarstjóra, Inga Sigurðsson og Guðjón Hjörleifsson.

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159