26.febrúar 2019 - 14:49

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir – Ávarp - Kvenfélagið Líkn 110 ára:

Tilgangurinn að líkna og hlynna að bágstöddum sjúklingum í Vestmannaeyjum 

 
Þess var sérstaklega minnst á hátíðarfundi bæjarstjórnar sl. fimmtudag, 14. febrúar að sama dag fagnaði Kvenfélagið Líkn merku afmæli, varð 110 ára. Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi minntist þessa með nokkrum orðum á fundinum. Sagði það mikinn heiður fyrir sig að að vera þátttakandi sem bæjarfulltrúi á þessum merku tímamótum.

  ,,Það er mér mikill heiður að standa hér og vera þátttakandi á þessum merku tímamótum,'' sagði Jóna Sigríður. ,,Tilefni þessa hátíðarfundar bæjarstjórnar eins og öllum er kunnugt um og hefur komið fram í fyrri ræðum, þá var á þessum degi, 14. febrúar, fyrir 100 árum, fyrsti bæjarstjórnarfundur Vestmannaeyjabæjar haldinn. En á þessum sama degi 10 árum fyrr, árið 1909, var Kvenfélagið Líkn stofnað og því 110 ára í dag. Það er því tilefni til að segja nokkur orð um Kvenfélagið Líkn.''

  Síðan rakti Jóna Sigríður sögu félagsins en aðalhvatamaðurinn að stofnun Líknar var læknirinn Halldór Gunnlaugsson. ,,Hann fann að sterk þörf var fyrir samhug fólks og því fannst honum kjörið að stofna kvenfélag. Stofnendur félagsins voru 23 konur.

  Halldór gaf félaginu nafn sem hann taldi að væri viðeigandi samkvæmt tilgangi þess sem var að líkna og hlynna að bágstöddum sjúklingum í Vestmannaeyjum svo og til þess að veita aðra þá aðstoð sem félagið sæi sér fært um að veita hverju sinni.

  Talið er að þetta hjálparstarf sé fyrsti vísirinn að heimahjúkrun í Vestmannaeyjum. ,,Í dag eru félagskonur 119 skráðar. Þær hafa í öll þessi ár unnið mikið og óeigingjarnt sjálfboðastarf. Þær hafa veitt mörgum líknandi hönd og komið að hinum ýmsu verkefnum til mikilla heilla fyrir samfélagið okkar. Því er vert að þakka Líknarkonum fyrir óeigingjarnt starf þeirra,'' sagði Jóna Sigríður og las næst erindi upp úr ljóði eftir Magnús Jónsson frá Sólvangi sem var samið í tilefni af 25 ára afmæli Líknar og lýsir atorku þessara kvenna mjög vel. 

 

Þú „Líkn“ ei gleymist, margir muna

Hið mikla starf sem vinnur þú.

Þú hlustar, ef að heyrist stuna

Er hjálpin eðli sínu trú:

Að verma kaldan, veikan styðja

Og varnarfáum létta stríð.

Þér konur, lífi ykkar iðja,

Að unna, mýkja og græða langa tíð.

 

,,Fyrir hönd bæjarstjórnar Vestmannaeyja óska ég félögum Kvenfélagsins Líknar innilega til hamingju með afmælið,'' sagði Jóna Sigríður að lokum.

  Við þetta tækifæri afhenti Trausti Hjaltason, bæjarfulltrúi, Kvenfélaginu Líkn stóran blómvönd frá bæjarstjórn sem Guðbjörg Jónsdóttir, fyrrum formaður félagsins tók á móti..

 

Myndatexti: Guðbjörg Ósk Jónsdóttir, fyrrum formaðu Líknar tekur við blómvendi frá bæjarstjórn. F.v. Helga Kristín, Guðbjörg Ósk, Íris, Trausti og Jóna Sigríður.

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159