26.febrúar 2019 - 14:43

Saga samfélagsins síðustu hundrað árin.

Ágrip forseta bæjarstjórnar, 14. febrúar 2019

 

lán okkar Eyjamanna er að eiga fólk sem mælir ekki lífið í vandamálum heldur viðfangsefnum sem þarf að leysa. Það er farið í verkin og þau kláruð sama hvort þau er stór eða smá 
 
 „Árið 1918 er merkilegt á margan hátt, bæði í Íslandssögunni og sögu Vestmannaeyja. Það var árið sem Ísland fékk fullveldi og konungur Danmerkur og Íslands staðfesti lög frá Alþingi um kaupstaðarréttindi fyrir Vestmannaeyjar. Þau öðluðust gildi 1. janúar 1919 sem telst vera stofndagur Vestmannaeyjabæjar. Árið 1918 er líka ár hörmunga sem byrjaði með frosthörkum í janúar og er veturinn 1918 kallaður Frostaveturinn mikli. Seinni hluta árs herjaði spánska veikin sem lagði 25 Eyjamenn að velli, mest ungt fólk og svo var það Kötlugosið um haustið. Þar varð ekki manntjón en þarna minnti íslensk náttúra á sig svo um munaði með jökulflóðum og öskuregni í einu öflugasta Kötlugosi frá landnámi,“ sagði Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar á hátíðarfundinum þar sem hann fór yfir sögu Vestmannaeyja síðustu 100 árin.

 

„Þegar litið er lengra aftur í tímann koma í ljós ógnarviðburðir eins og Tyrkjaránið 1627 þar sem 36 Eyjamenn voru drepnir og 242 rænt og fólkið selt í ánauð í Alsír. Mannskæð sjóslys urðu, mikill ungbarnadauði herjaði og um og eftir aldamótin 1900 fluttu um 400 Eyjamenn til Vesturheims í leit að betra lífi,“ bætti Elís við.

 

Bjartsýni þrátt fyrir erfiðleika

 

Hann sagði að þrátt fyrir þetta var á nýrri öld að hefjast nýtt tímabil í sögu íslensku þjóðarinnar, tímabil bjartsýni, trúar á land og þjóð og uppbygging þjóðfélags sem í dag er meðal þeirra sem fremst standa í heiminum. Í Vestmannaeyjum hófst þetta með vélbátaöldinni í byrjun aldar og í framhaldi af því þróun sjávarútvegs í landinu sem enn er ein af stoðum Íslands.

  „Upphaf vélbátaaldar kostaði miklar fórnir í mannskæðum sjóslysum sem varð kveikjan að stofnun Björgunarfélags Vestmannaeyja 1918. Félagið kom að mörgum framfaramálum en helsta verkefni félagsins voru kaup á björgunarskipinu Þór sem kom til landsins 1920. Þjónaði hann vel sem björgunar- og varðskip. Seinna yfirtók ríkið reksturinn og lagði þar með grunn að Landhelgisgæslu Íslands sem þjónar okkur í dag.“

  Fólki fjölgaði í Eyjum með vélbátunum og voru um 2000 þegar Vestmannaeyjar fengu kaupstaðarréttindi 1919.  Þróunin hélt áfram, en heimskreppan 1930 fram að seinni heimsstyrjöldinni 1939 hægði á vexti hér eins og annars staðar í heiminum en stór stökk fram á við voru tekin eftir 1940 og fjölgaði íbúum á ný og í árslok 1972 var íbúafjöldinn kominn í 5300 manns.

 

Svo byrjaði að gjósa

„Heimaeyjargosið, sem hófst aðfararnótt 23. janúar 1973 er einstakt í Íslandsögunni en þessa nótt urðu til yfir 5000 flóttamenn á Íslandi. Fólksflutningarnir þessa nótt gengu ótrúlega vel en eyðileggingin var gríðarleg og fór um þriðjungur byggðarinnar undir hraun og ösku.

  Gosinu lauk þann 3. júlí 1973 en þá var hreinsun bæjarins langt komin. Undirbúningur á fullu við að koma bæjarfélaginu í gang á ný og taka á móti fólki sem strax um sumarið byrjaði að flytja heim.

  Mikið verk var framundan, endurreisn byggðar, atvinnu- og mannlífs voru risavaxin verkefni sem tókst að framkvæma með víðtækri samstöðu íbúanna, virkri  aðstoð stjórnvalda og góðri aðstoð ýmissa aðila innanlands og utan. Sumt verður aldrei bætt, en bæjarbúar lærðu að aðlaga sig að gjörbreyttu umhverfi. Talið er að liðlega 3600 manns hafi flutt heim á ný að loknu eldgosi, en nýir íbúar bættust í hópinn á næstu árum og áratugum. Má segja að Vestmannaeyjabær hafi á 20 til 25 árum risið úr öskunni í að verða eitt öflugasta sveitarfélag landsins,“ sagði Elís.

 

Vildu hag Eyjanna sem mestan

 

„Þetta er sagan okkar í stuttu máli en lán okkar Eyjamanna er að eiga fólk sem mælir ekki lífið í vandamálum heldur viðfangsefnum sem þarf að leysa. Það er farið í verkin og þau kláruð sama hvort þau er stór eða smá. Í gosinu höfðum við bæjarstjórn undir forystu Magnúsar H. Magnússonar, bæjarstjóra sem allan tímann hafði trú á endurreisn Eyjanna. Gengu þeir sömu slóð og fyrirrennarnir sem aldrei misstu sjónar á því markmiði að vilja hag Eyjanna sem mestan. Það sama á við um það fólk sem tók við keflinu. Metnaður fyrir hönd Vestmannaeyja er alltaf það sem skiptir máli.

  Í atvinnulífinu gildi það sama. Í dag eru Vestmannaeyjar ein stærsta verstöð landsins með sjávarútveg sem byggir á öflugum fyrirtækjum í fremstu röð. Í kringum þau hafa vaxið framsækin fyrirtæki í iðnaði og þjónustu.

  Kaupmenn halda úti ótrúlega fjölbreyttri þjónustu miðað við að hér búa 4300 manns og hér eru nokkrir af bestu veitingastöðum landsins,“ sagði Elís.

 

Íþróttabærinn Vestmannaeyjar

 

Hann sagði ekki þörf á að fjölyrða um árangur okkar í íþróttum, gott dæmi um það sé árangur meistaraflokka ÍBV íþróttafélags í handbolta og fótbolta sem hafa unnið marga titla undanfarin tvö ár. „Má þar nefna bikar-, deildar og Íslandsmeistaratitla í handbolta karla og bikarmeistaratitla í knattspyrnu karla og kvenna. Einnig er árangur yngri flokka eftirtektarverður ásamt öðrum greinum sem stundaðar eru í bænum.  Meistaraflokkar ÍBV íþróttafélags spila í efstu deildum karla og kvenna í handbolta og fótbolta. Þegar litið á íbúafjöldann: Geri aðrir betur.“

 

Menning á háu stigi

„Skólar í Vestmannaeyjum eiga sér langa sögu og í dag eigum við nútímalega leikskóla og grunnskóla, framhaldsskóla sem skapað hefur sér sérstöðu auk Tónlistarskóla. Þá fá þeir sem vilja mála og teikna tækifæri til að bæta sig undir handleiðslu hennar Steinunnar.

  Menningarlíf hefur lengi verið hér í miklum blóma og er þetta hús talandi dæmi um það. Hér er í dag bíó og leikhús og leikvöllur fyrir eldri borgara á efstu hæðinni.

 

  Á fyrri hluta síðustu aldar var hér öflugt tónlistarlíf þar sem Oddgeir Kristjánsson, tónskáld var fremstur meðal jafningja. Myndlistarfólk eigum við og ber þar að nefna Júlíönu Sveinsdóttur.

 

  Í dag eigum við nokkra glæsilega fulltrúa í menningunni og allir þekkja Unnar Gísla,  son Simma og Unnar sem betur er þekktur sem tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant og er að skapa sér nafn á heimsvísu.

 

  Þetta samfélag hefur getið af sér fólk sem er í fremstu röð á sínu sviði, í íþróttum, í opinberum störfum og einkarekstri og stjórnmálamenn sem allir landsmenn vita hverjir eru. Allt getum við talið þetta okkur til tekna og eigum að vera ófeimin að láta vita að þarna er okkar fólk á ferðinni.

 

  Safnahúsið hefur staðið undir nafni sem menningartorg bæjarins þangað sem fólk sækir í hópum ráðstefnur, viðburði og sýningar sem vekja mikla athygli. Meðal þeirra er Eyjahjartað, þar sem Eyjafólk rifjar upp æskuárin í Eyjum og hrærir hjörtu allra viðstaddra.

 

  Á síðasta ári voru 100 ár frá upphafi prentunar í Vestmannaeyjum og mestan þann tíma hefur verið öflug blaðaútgáfa hér. Fréttir og síðar Eyjafréttir eiga sér lengsta sögu í reglulegri útgáfu og hafa flutt fregnir af mannlífi Eyjanna í sinni fjölbreytni frá 1974.“

 

Framsýni þeirra sem stjórna

 

Elís sagði þetta allt byggjast á framsýni þeirra sem stjórna. Þeir varði leiðina sem alltaf er tekin í áföngum. „Það er himinn og haf á milli þess að í fyrstu fundargerð bæjarstjórnar fyrir nákvæmlega 100 árum er eitt málið dagleg dreifing á kolum til bæjarbúa. Í dag fáum við hitann frá sjóvarmadælustöð sem sækir orkuna í Golfstrauminn sem berst til okkar úr Mexíkóflóa.

 

  Fyrsti rafstrengurinn var lagður hingað árið 1962 og fyrsta vatnsleiðslan 1968 og hafa fleiri bæst við síðan. Vatnslögnin er ein stærsta framkvæmd sem eitt bæjarfélag á Íslandi hefur ráðist í en um leið var tekið eitt stærsta ef ekki stærsta skref fram á við í sögu Vestmannaeyja. Í staðinn fyrir vatn sem safnað var af þökum bæjarins í brunna fáum við úr krönunum  besta vatn í heimi. Engu logið þar og skipti vatnið sköpum fyrir atvinnulífið og alla bæjarbúa.

 

  Næsti áfangi er svo lagning ljósleiðara í hvert hús í Vestmannaeyjum. Þannig getum við best tekið þátt í fjórðu iðnbyltingunni og nýtt það sem hún hefur upp á að bjóða okkur til hagsbóta.“

 

Spennandi tímar í samgöngum

 

Það var ekki ofsögum sagt hjá Elís að samgöngur skipta okkur meira máli en nokkru sinni og nú horfum við fram á nýja tíma með nýjum Herjólfi í vor. „Þar eigum við mikið undir að skipið standist væntingar og má segja að þróun Vestmannaeyja fram á við velti að nokkru leyti á hvernig til tekst. Það er engin ástæða til annars en bjartsýni og að nýtt skip og fyrirhugaðar endurbætur á Landeyjahöfn muni efla ferðamannaiðnað og aðrar atvinnugreinar og bæta mannlíf í Vestmannaeyjum í framtíðinni.

 

  Sérstaða okkar er að búa á eyju sem gefur okkar tækifæri í heimi sem gerir miklar kröfur í framleiðslu matvæla og umhverfisverndar. Þar þarf að taka til hendinni en munum að hrein Eyja og umhverfisvæn eru verðmæti. Rafdrifin ferja og orkan úr sjónum gætu verið áfangar á allsherjar umhverfisvottun Vestmannaeyja. Verkefni sem við öllum getum komið að.

Þessir áfangar í sögu Vestmannaeyja sem ég hef hér nefnt sýna þann mikla kraft sem býr í samfélaginu í Eyjum sem hefur skilað okkur miklu. Auðvitað eru mörg verkefni framundan en á meðan við erum að fá til okkar ungt og öflugt fólk er ástæða til bjartsýni. Er það verkefni þessarar bæjarstjórnar og okkar allra að sjá til þess að svo verði áfram. Í þessu fólki er framtíðin.  Vestmannaeyjabær, til hamingju með 100 ár og og munum eitt í lokin: Skömmumst okkar aldrei fyrir að vera Vestmannaeyingar,“ sagði Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar að lokum.

 

Myndatexti: Fyrrum og núverandi. Ragnar Óskarssson og Kristjana Þorfinnsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúar með Hildi Sólveigu sem nú er á sínu öðru kjörtímabili.

 

Myndatexti: Fyrrum og núverandi. Ragnar Óskarssson og Kristjana Þorfinnsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúar með Hildi Sólveigu sem nú er á sínu öðru kjörtímabili. 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159