20.júní 2019 - 10:54

Nýju Vestmannaeyingarnir hinar sprækustu

Fjöldi fólks fylgdist með í gærkvöldi þegar Litla-Grá og Litla-Hvít komu til Vestmannaeyja sem verður þeirra griðarstaður í framtíðinni. Hvítu mjaldrarnir höfðu þá ferðast um 12.000 km leið frá Sjanghæ í Kína. Lentu í Keflavík eftir hádegið, við tók ferðalag með bíl og Herjólfi og hingað var komið milli klukkan tíu og ellefu í gærkvöldi. 

 
Menn fóru sér hægt í að flytja þær systur úr bílunum í laug og aðra laug í nýja húsinu við Fiskiðjuna. Allt þaulæft og gekk þrautalaust. Greinilegt að allt var þrautskipulagt og allt til staðar þannig að flutningurinn yrði sem öruggastur.

Strax í gærkvöldi voru þessir nýju Vestmannaeyingar farnir að hreyfa sig í lauginni og éta sem veit gott um framhaldið. Þær eru í dag tíu til ellefu ára gamlar en mjaldrar geta orðið 40 til 50 ára þannig að þær gætu átt góða daga og ár í stóru kvínni í Klettsvík sem verður heimili þeirra eftir hvíldarinnlögn í lauginni næstu 40 daga eða svo.

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159