6.september 2019 - 10:40

Afmælisblað BV

Dagskrá í Einarsstofu á laugardaginn 7. september kl. 13:-14:30

 „Afmælisblaðið okkar var að koma úr prentun og er hið glæsilegasta að sjá. Fjölbreytt að efni og mikið af skemmtilegum myndum sem segja sögu Björgunarfélagsins sem fagnaði 100 ára afmæli á síðasta ári,“ segir Arnór Arnórsson, formaður félagsins. Að þessu tilefni verður hóf í Einarsstofu klukkan 13.00 á laugardaginn, 7. september. Þar verður blaðið kynnt og afhent áður en það fer í formlega dreifingu.
 

„Það var þann 18. september á síðasta ári að ég hafði samband við Ómar Garðarsson og spurði hvort hann væri til í að taka saman blað fyrir okkur þar sem saga félagsins yrði rakin. Nú rétt ári síðar erum við að sjá árangurinn, sögu Björgunafélagsins og Hjálparsveitar skáta Vestmannaeyjum og sameinaðs félags undir nafni BV og merkjum HSV í máli og myndum. Blað upp á 120 síður sem segir mikla sögu félags sem komið hefur mörgu góðu til leiðar. Hefur á að skipa sveitum sem alltaf eru tilbúnar að hjálpa þegar eitthvað gerist. Í blaðinu er gott yfirlit yfir starfið hjá okkur. Þetta er stórt félag og öflugt og mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem björgunarfélög og sveitir mynda hringinn í kringum landið ásamt Landhelgisgæslunni og lögreglu.“

 

Þann fjórða ágúst á síðasta ári voru 100 ár liðin frá stofnun Björgunarfélags Vestmannaeyja. Þess var minnst með glæsilegri afmælisveislu þann 1. september sl. og sagt er frá í blaðinu. Ómar vann blaðið í góðri samvinnu við stjórn og formann BV, Arnór Arnórsson og reynsluboltana Aðalstein Baldursson og Sigurð Þ. Jónsson. Myndir eru úr safni félagsins og Óskar Pétur Friðriksson á margar myndir í blaðinu og líka Sigurgeir Jónasson. Sæþór Vídó sá um umbrot og myndvinnslu.

 

Í Einarsstofu á laugardaginn verður blaðið formlega afhent Björgunarfélaginu. Meðal atriða er myndasýning (ljósmyndasýning á tjaldi) þar sem saga félagsins er rakin auk mynda  frá Hálendisvakt björgunarsveitarinnar í síðusta mánuði.

 

Sagt verður frá undirbúningi að dagskrá í Sagnheimum þar sem minnast á komu björgunar- og varðskipsins Þórs til Vestmannaeyja. Þann 26. mars 1920 verða 100 ár frá komu skipsins.  Björgunarfélagið hafði forgöngu um kaupin á Þór sem var mikið gæfuspor og bjargaði mörgum sjómanninum. Hörður Baldvinsson,  sem tók við forstöðu Sagnheima í vor hefur rætt við Landhelgisgæsluna sem hefur tekið vel í að leggja þessu lið.

 

Sýndir verða munir sem tengjast Þór og starfi Björgunarfélagsins. Arnór formaður afhendir Kára Bjarnasyni fostöðumanni Safnahúss fundargerðarbækur félagsins til varðveislu.

 

Heiðursgestir fá afhent fyrstu eintök Afmælisblaðsins sem verður dreift ókeypis í öll hús í bænum. Fólk er hvatt til að mæta og fagna með Björgunarfélaginu á þessum tímamótum.

 

„Það er svo ætlunin að dreifa blaðinu í öll hús um helgina. Veður gæti þó haft einhver áhrif,“ sagði Arnór að endingu.

 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159