23.mars 2020 - 07:46

Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna í Vestmannaeyjum 22.03.2020

Í kvöld voru staðfest 3 ný smit og eru smit því orðin 30 talsins í Vestmannaeyjum. Af þessum 3 var 2 í sóttkví. Fjöldi einstaklinga í sóttkví er orðinn 475 manns. Ákveðið hefur verið að skólahald í Grunnskóla Vestmannaeyja verði í formi fjarkennslu frá og með 23. mars þar til annað verður tilkynnt. Fjarkennslan er nauðsynleg þar sem ekki er hægt að manna hefðbundna kennslu miðað við samkomubann 10 og fleiri. Þrátt fyrir þetta verður kennsla í Hamarsskóla fyrir nemendur í 1. og 2. bekk sem eiga foreldra í framlínustörfum.

Úrvinnslukví nemenda, foreldra og starfsfólks í 1.-4. bekk hefur verið aflétt þar sem öll sýni í þessum hópi reyndust neikvæð. Þeir sem eru í sóttkví af öðrum ástæðum ljúka sinni sóttkví eins tilkynnt hefur verið.

Bent er á að þrátt fyrir að sýni greinist neikvætt hjá fólki sem hefur verið sett í sóttkví þá gildir sóttkvíin áfram. Sóttkví gildir alltaf í 14 daga frá því að viðkomandi komst í návígi við smitaðan einstakling.

Þá er minnt á að nú stendur yfir söfnun á spurningum í spurt og svarað varðandi ástandið í Eyjum, fólk er hvatt til að nýta sér þetta en til stendur að birta svör við spurningum á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar annað kvöld.

Aðgerðastjórn almannavarna í Vestmannaeyjum 

 

 

 
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159